Skemmtiferðaskip Um 940 þúsund farþegar voru um borð í skemmtiferðaskipum sem lögðu leið sína til Íslands á þessu ári.
Skemmtiferðaskip Um 940 þúsund farþegar voru um borð í skemmtiferðaskipum sem lögðu leið sína til Íslands á þessu ári. — Morgunblaðið/sisi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Á síðasta fundardegi Alþingis fyrir jól var sú breyting gerð á lögum um gistináttaskatt að 1.000 króna gjald leggst á hverja gistináttaeiningu skemmtiferðaskipa sem koma inn á tollsvæði ríkisins, þ.e. inn fyrir 12 mílna landhelgislínu. Gjaldið leggst á hvern farþega, en fjöldi þeirra sem hingað hafa komið á þessu ári slagar hátt í eina milljón. Með hugtakinu „gistináttaeining“ er átt við gistiaðstöðu sem leigð er í allt að einn sólarhring.

Lagabreytingin vekur blendin viðbrögð þegar rýnt er í umsagnir um frumvarp að lögunum. Þannig segir í umsögn samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu að enda þótt gistináttaskattur sé lagður á skemmtiferðaskip verði skattalegt forskot þeirra gagnvart hótelum enn gríðarlegt. Sú tæpa milljón ferðamanna sem með þeim komi sé ekki innifalin í þeim tveggja milljóna fjölda ferðamanna sem tölur Hagstofunnar greini frá og slíkur viðbótarfjöldi reyni mjög á þolmörk innviða landsins.

Grafi undan uppbyggingu

Í umsögn AECO, samtaka leiðangursskipa á norðurslóðum, segir að lögin grafi undan áralangri uppbyggingu á þjónustu og upplifun á landsbyggðinni og fæli frá verðmætasta hóp skemmtiferðaskipa sem þau segja leiðangursskip vera. Ferðir áranna 2024 til 2026 hafi þegar verið seldar og því ekki mögulegt að bæta aukakostnaði inn í miðaverð og gæti það haft alvarlegar afleiðingar. Þá
séu leiðangursskip ein besta leiðin til að dreifa ferðafólki betur um Ísland og þeir farþegar valdi ekki álagi á innviði á sama hátt og annað ferðafólk geri.

„Við eigum eftir að rannsaka betur áhrif þessarar skattlagningar, við höfum aldrei verið á móti því að gjald verði sett á farþega skipanna, en leggjum áherslu á samræmi í gjaldtöku,“ segir Pétur Ólafsson, stjórnarformaður Cruise Iceland, sem eru samtök m.a. hafna og umboðsaðila skemmtiferðaskipanna sem leggja leið sína til landsins.

Hann sagði að verið væri að rýna hvaða áhrif skattlagningin myndi hafa, en taldi þó að skattlagning leiðangursskipanna myndi bitna hvað mest á landsbyggðinni. Einnig segir Pétur að fyrirvarinn sé skammur og að skattheimtan muni reynast flókin í framkvæmd fyrir þá sem þegar séu búnir að selja í ferðir hingað til lands, vegna þess að þær séu oft seldar með árs fyrirvara eða lengri.