Moskva Lavrov og Jaishankar ræddu um vopnaframleiðslu í gær.
Moskva Lavrov og Jaishankar ræddu um vopnaframleiðslu í gær. — AFP/Alexander Nemenov
Utanríkisráðherrar Rússlands og Indlands hittust í gær í Moskvu til að ræða um sameiginlega vopnaframleiðslu ríkjanna og styrkja sívaxandi tengsl ríkjanna tveggja. Sergei Lavrov og Subrahmanyam Jaishankar ræddu saman og seinna í gær átti Jaishankar…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Utanríkisráðherrar Rússlands og Indlands hittust í gær í Moskvu til að ræða um sameiginlega vopnaframleiðslu ríkjanna og styrkja sívaxandi tengsl ríkjanna tveggja. Sergei Lavrov og Subrahmanyam Jaishankar ræddu saman og seinna í gær átti Jaishankar að hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta að sögn Dmitrís Peskovs talsmanns Kreml. Indland er eitt af þeim ríkjum sem Rússar hafa stofnað til sterkari viðskiptasambanda við eftir innrásina í Úkraínu og refsiaðgerðir Vesturlanda í kjölfarið.

Þá hafa Rússar beint olíuútflutningi sínum frá Evrópu til Kína og Indlands af sömu orsökum. „Áður fluttum við 40 til 45 prósent af olíu og olíuvörum til Evrópu,“ sagði Alexander Novak varaforsætisráðherra, sem fer með orkumál, í rússnesku sjónvarpi í gær. „Á þessu ári gerum við ráð fyrir að talan verði ekki hærri en fjögur til fimm prósent af heildarútflutningi,“ bætti hann við.

Olíuútflutningur Rússa hefur að stórum hluta farið til Kína, eða um 45-50% á þeim tveimur árum sem liðin eru frá upphafi stríðsins, og Indland, sem fyrir stríðið keypti nánast ekkert eldsneyti af Rússum, er orðið stórkaupandi og hefur sala eldsneytis til Indverja aukist um 40% að sögn Novaks.

Rússar eru að byggja LNG-2-jarðgasframleiðslustöð á norðurslóðum Rússlands, sem er ein leið þeirra til að koma fljótandi jarðgasi til bæði Asíu og Evrópu. Novak sagði í gær að fyrsti hluti verkefnisins væri nánast tilbúinn og stefnt væri að flutningum á fyrsta fjórðungi næsta árs, en ESB flytur enn inn töluvert af jarðgasi frá Rússum.