Vilhjálmur Sigtryggsson fæddist 6. maí 1931. Hann lést 8. desember 2023. Útför hans var 20. desember 2023.

Hann situr við skrifborð í Lambastekknum, þungt hugsi. Ég ligg undir því, á maganum með fæturna fasta við hans. Þarf ekki að láta lítið fyrir mér fara, þó að eitthvað liggi á honum. Réttir mér blað og penna undir borðið. Hann er fallegur, penninn. Ég legg blaðið ofan á bók og teikna mynd af honum og ömmu. Yfir þau set ég regnboga, á milli þeirra hjarta.

Hann færir hausinn undir borðið og réttir fram höndina, ég stíg undan því. Hann reisir sig úr stólnum, en beygir sig aftur niður. Mætir mér í augnhæð. Réttir mér aftur höndina og við göngum saman í takti upp tröppurnar og þaðan inn í eldhús. Þar situr Villi Kalli við borðið með mjólk í glasi. Amma gengur til okkar, hún er með rauðu svuntuna á sér. Ég færi þeim myndina, en lít undan þegar þau mætast í kossi. Þau eru jöfn. Afi og amma í Lambastekknum, kjarninn í tilverunni minni.

Afi var næmur á fólk og lagði sig fram um að mæta því þar sem það var. Það var einkennandi. Það kom mér því ekki á óvart, raunverulega, að hnén gæfu sig snemma hjá honum, svo oft hafði hann beygt þau af virðingu við okkur börnin. Hann notaði hjólastól sín síðustu ár. Þá var það mitt að færa mig niður í hans augnhæð og þar höfum við mæst í okkar órjúfanlegu tengslum. Tengslin við afa urðu sterk á síðustu æviárum hans. Í honum eignaðist ég trúnaðarvin sem ég syrgi sárt í dag.

Afa sem mætir öllum eins og þeir eru, hlustar þrátt fyrir að heyra ekki allt. Hlustar með hjartanu.

Eldey mín og Dagur minn nutu leiðsagnar og vináttu við langafa og ég fylgdist með honum mæta þeim á sama jafningjagrundvelli og ég upplifði í minni æsku. Nú var augnhæðin náttúruleg. Hvorugt þurfti að beygja hnén. Hjá honum var öllum spurningum svarað og vandamál leyst í kærleika.

Vilhjálmur Sigtryggsson, náttúruunnandi, mannþekkjari, kærleikurinn, húmoristinn og vinurinn. Villi hennar Dísu. Afi og langafi sem allt skilur.

Hugurinn reikar til minnar síðustu heimsóknar til afa. Ég vissi það ekki þá að þetta væri okkar kveðjustund. Síðasti laugardagurinn í lífinu hans afa. Það var eins og hann væri klæddur upp fyrir daginn. Í sparifötum og fallegum gulum sokkum. Sem fyrr bað hann mig að heilsa upp á Þorstein. Þeir höfðu myndað djúp tengsl á Ísafold og stundum sagði afi í gamni að þeir væru eins og gömul hjón. Afi var áhugasamur um fólkið sitt, lagði áherslu á að jólagjafirnar skiluðu sér. Hann talaði um ömmu og lífið hennar. „Já, amma var svo falleg,“ sagði ég annars hugar. Hann leit snöggt á mig, næstum ásakandi. „Hún var svo gáfuð Herdís, amma þín var svo vel gefin.“ Ég fór hjá mér, sá mistökin. Ég veit, skil.

Það var einstakt samband á milli afa og ömmu. Þau stóðu þétt saman í gegnum lífið, það var honum þungbært að missa ömmu.

Nú þegar komið er að okkar kveðjustund elsku afi, þá er gott að sjá ykkur fyrir mér saman á ný.

Undir regnboganum með hjartað eitt á milli ykkar.

Takk fyrir gleðina, samkenndina og hlustunina.

Við búum að þinni leiðsögn út ævina og berum áfram til næstu kynslóða.

Þín

Herdís Sólborg.