Sveinn Sveinsson fæddist 4. desember 1936. Hann lést 13. desember 2023.

Útförin fór fram 20. desember 2023.

Góður vinur og skíðafélagi frá Siglufirði kvaddi nú á dögunum.

Svenni var mikill afreksmaður á skíðum. Báðir æfðum við og kepptum. Svenni var aðeins eldri og við sem yngri vorum fylgdumst með þeim eldri og það var mikil hvatning. Siglufjörður var mikill skíðabær enda voru aðstæður góðar með miklum stöðugum snjó og fjalllendi.

Eftir tvítugt flutti ég til Reykjavíkur og það var svo mörgum árum seinna sem við hjónin hittum þau Svenna og Beggu í flugvél á leið í gönguskíðaferð til Austurríkis. Þetta var ein af fyrstu gönguskíðaferðunum á vegum Bændaferða.

Þessir endurfundir leiddu af sér dýrmætan vinskap enda áttum við eftir að fara margar ferðir saman til Austurríkis á gönguskíði eftir það að ógleymdum heimsóknum okkar til Siglufjarðar. Alltaf var tekið vel á móti okkur með veisluhöldum og gistingu. Eftir sitja yndislegar minningar.

Innilegar samúðarkveðjur til Beggu og fjölskyldu.

Þórhallur Sveinsson
og fjölskylda.