Við störf Alessandro Palazzi með sína útgáfu af Vesper-kokteilnum.
Við störf Alessandro Palazzi með sína útgáfu af Vesper-kokteilnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Greinarhöfundi hefur í heimsóknum til London þótt huggulegt að setjast niður á Dukes London í St. James-hverfinu sem er í raun hótelbarinn á hinu gamalkunna Dukes-hóteli. Hinum fjölmörgu aðdáendum James Bond gæti þótt spennandi að þar sat…

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Greinarhöfundi hefur í heimsóknum til London þótt huggulegt að setjast niður á Dukes London í St. James-hverfinu sem er í raun hótelbarinn á hinu gamalkunna Dukes-hóteli. Hinum fjölmörgu aðdáendum James Bond gæti þótt spennandi að þar sat höfundurinn Ian Fleming gjarnan í gamla daga og fékk sér Dry Martini. Sagan segir að á Dukes hafi Fleming fengið þá hugmynd að sögupersónan myndi gæða sér á Martini frekar en viskíi eða einhverjum öðrum drykk sem hetjur bókmennta og kvikmynda grípa til þegar styrkja þarf taugarnar.

Vinsældir Dukes eru orðnar töluverðar og stundum er erfitt að komast að sökum eftirspurnar enda ekki í boði að panta borð. Yfirbarþjónninn Alessandro Palazzi á sinn þátt í vinsældunum þar sem honum hefur tekist að búa til sínar eigin útgáfur af Martini og ýmsum kokteilum. Palazzi og Dukes er æ meira til umfjöllunar en til að mynda hefur New York Times haldið því fram að hvergi í heiminum sé betra að fá sér Martini en á Dukes. Hótelið er hins vegar ekki sjáanlegt frá fjölförnum götum og fyrir vikið kíkir enginn þar inn fyrir tilviljun.

Einhvern tíma hefði ég því ekki kært mig um að auglýsa neitt frekar þetta ágæta leyndarmál sem Dukes-barinn er en þar sem umfjöllunin er hvort sem er orðin viðamikil gat Morgunblaðið ekki gefið stórblöðum erlendis neitt eftir og tók Palazzi tali í London.

Var bara fyrir elítuna

„Ég fæddist barþjónn og mun deyja sem barþjónn. Ég er ánægður ef ég er innan um fólk og hef ánægju af því að blanda drykki fyrir viðskiptavinina. Ef ég myndi starfa við tölvu þá myndi ég sofna,“ segir Palazzi sannfærandi þegar hann sest niður með mér innan um málverkin frá Viktoríutímanum á Dukes. Segja má að Martini sé einhver þekktasti drykkur á tuttugustu öldinni:

„Á öldum áður var Martini bara í boði fyrir elítuna, sérstaklega hjá Englendingum. Lengi vel voru engir kokteilbarir. Á hótelum eins og Savoy, Dorchester eða Dukes voru barir en þeir voru bara stundaðir af elítunni og fyrir vikið var það einungis elítan sem drakk kokteila. Martini verður vinsæll drykkur meðal annars vegna áhrifa frá Ian Fleming og leikstjóra sem notuðu Martini í kvikmyndum. Líklega vilja allir vera eins og James Bond og fá sér Martini,“ segir Palazzi og tekur dæmi. „Viðskiptavinirnir höfðu ekki áhuga á Vesper-kokteilnum fyrr en drykkurinn var notaður í James Bond-mynd með Daniel Craig.“

Vermouth hellt í teppið

Þegar viðskiptavinur pantar Vesper eða Dry Martini má kalla það eins konar atriði. Barþjónninn kemur með vagn að borðinu hjá viðskiptavininum og blandar þar drykkinn. Palazzi hefur farið sínar eigin leiðir og orðið þekktur fyrir það. Kokteilglasið er hrímað og hann byrjar á að setja smá bitter í glasið fyrir Vesper en Vermouth fyrir Martini. Hvolfir hann glasinu og setur nokkra dropa í teppið. Hefur teppið á Dukes fengið að sjúga töluvert í sig í gegnum árin en ekki hef ég séð hina barþjónana þora að leika það eftir.

„Fyrir mörgum árum fékk ég bók um Ian Fleming að gjöf. Ég bjó til annars konar útgáfur af Martini undir áhrifum frá Fleming og skáldsögunum sem hann skrifaði. Vesper er vinsælastur hjá okkur en minnst er á drykkinn í byrjun bókarinnar Casino Royale sem kom út 1953,“ segir Palazzi og bætir við að ekki sé hægt að blanda drykkinn nákvæmlega eins og hjá Fleming. Ginið sé ekki eins og Kina Lillet sé ekki lengur selt.

„Martini er klassískur drykkur en ég breytti drykknum því áður var bara gin og vodka. Ég notaði annars konar glös og bjó einnig til Vermouth ásamt vini mínum en enskt Vermouth þótti óhugsandi og ég notaði annað gin. Fyrir vikið varð ég smám saman þekktari í bransanum.“

Þegar Morgunblaðið ræðir við Palazzi er hann nýlega búinn að halda námskeið í Afríku og Norður-Ameríku. Segir hann ferðalögin vera leið til að halda tengslum við kollegana og viðskiptavini. Spurður um hvort hann hafi einhvern komið til Íslands segir hann svo ekki vera.

„Ef barþjónar á Íslandi bjóða mér til landsins til að vera með námskeið eða eitthvað slíkt þá myndi ekki standa á mér að koma. Þegar vinir mínir eða kunningjar hafa farið til Íslands hef ég forðast að skoða myndirnar því þá tæki öfundin yfir. Ég hef kunnað vel við mig í Osló þar sem ég þekki til og er viss um að Ísland sé fallegur staður að heimsækja.“

James Bond braut reglur

Hristur en ekki hrærður

Þegar njósnarinn James Bond pantar Martini fer hann fram á að drykkurinn sé hristur en ekki hrærður. Hefur Palazzi skoðun á þessu?

„Þetta er gott dæmi um hversu snjall herra Fleming var. Á þeim tíma þegar hann skrifaði bækurnar þá hristi enginn Martini þótt Bond óski eftir því. Í mínum huga á þetta að sýna að Bond sé persóna sem brýtur flestar reglur. Herra Fleming þekkti drykkinn og reglurnar varðandi drykkinn. Á fimmta áratugnum þýddi lítið að biðja um Vodka Martini því það var óþekkt. Ég hef svo sem ekkert á móti því að menn hristi Martini en algengt er að menn geri þau mistök að setja ís í glasið sem verður að vatni á meðan menn eru að undirbúa. Vatnið er óvinur Martini. En til fróðleiks get ég nefnt að kampavín var eftirlætisdrykkur Ians Flemings en þegar hann fór í klúbba þá fékk hann sér Martini og þótti karlmannlegt.“