Svanur Jónsson fæddist 19. janúar 1933 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 13. desember 2023.

Svanur var sonur hjónanna Jóns Ólafs Gestssonar, sjómanns og verkamanns frá Pálshúsi í Stokkseyrarhreppi, f. 7.10. 1909, d. 10.8. 1943, og Indlaugar Gróu Valgerðar Björnsdóttur, húsfreyju, verkakonu og sjúkrahússtarfsmanns frá Norður-Gerði í Vestmannaeyjum, f. 23.2. 1910, d. 9.11. 1990.

Systur Svans eru stúlka, f. 20.5. 1931, d. 22.5. 1931, og Hallbera Valgerður, f. 4.10. 1941.

Svanur kvæntist Ingibjörgu Þórðardóttur 1. janúar 1956 og bjuggu þau allan sinn búskap í Vestmannaeyjum að undanskildum árunum 1997-2011 en þá bjuggu þau í Kópavogi.

Synir Svans og Ingibjargar eru: 1) Jón Ólafur, f. 16.11. 1955. Maki Hafdís Magnúsdóttir, f. 18.1. 1958. 2) Þórður, f. 19.11. 1956. Maki Aníta Sif Vignisson, f. 14.10. 1961. Börn Jóns eru: Hrefna, f. 16.12. 1977, Svanur, f. 18.7. 1984, Daði Steinn, f. 17.5. 1996, og Aðalbjörg, f. 5.1. 1976. Börn Þórðar eru Guðlaug Helga, f. 20.10. 1976, Elías Þór, f. 5.3. 1979, Lilja, f. 7.12. 1980, Ingibjörg Ósk, f. 12.4. 1985, Sæþór, f. 18.11. 1988, og Vignir Arnar, f. 22.2. 1985.

Svanur Jónsson vann sem vélvirki og vélstjóri allan sinn starfsferil. Hann lærði vélvirkjun í Magna og varð sveinn árið 1953, vann síðan þar og í Völundi. Hann nam einnig vélstjórn og stundaði vélstjórn á sjó og var hann lengst af vélstjóri á Gígju VE 340.

Útför Svans fer fram frá Landakirkju í dag, 28. desember 2023, klukkan 13.

Streymt er frá útför:

mbl.is/go/k5rbj

Í dag kveð ég elsku afa Svan með miklum söknuði. Ég er sorgmædd en líka svo óendanlega þakklát að hafa fengið að vera hluti af lífi hans svona lengi. Afi var einstakt ljúfmenni sem elskaði fólkið sitt meira en nokkuð annað. Ég og afi höfum alltaf fylgst að, fyrst í Vestmannaeyjum þar sem ég var mikið á heimili ömmu og afa öll mín bernskuár, svo elti ég þau í Kópavoginn og svo fluttum við aftur heim til Vestmannaeyja á svipuðum tíma.

Börnin mín voru einstaklega náin langafa sínum og þá sérstaklega Kristjana en afi og amma voru mikið með hana þegar við bjuggum í Kópavoginum og eigum við þeim margt að þakka. Það breytist margt þegar einhver hverfur á braut.

Það verða skrítin jól án afa, það verður erfitt að nú er enginn afi í lazyboy-stólnum, engin tölvuvandræði, ekkert rúgbrauð og appelsín á innkaupalistanum, en sem betur fer hef ég minningarnar um þig elsku afi minn og mun ég geyma þær í hjarta mínu. Takk fyrir síðasta spjallið okkar en það geymi ég hjá mér.

Þín

Hrefna.

Elsku afi minn, nú er komið að kveðjustund. Skilaboðunum sem ég fékk frá þér kvöldið áður en þú kvaddir mun ég aldrei gleyma og hafa að leiðarljósi inn í framtíðina. Ég vil því kveðja þig með þessu ljóði:

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

uns hittumst við aftur heima.

(Hugrún)

Elsku afi Svanur, hvíl þú í friði í ljósinu bjarta.

Þinn

Daði Steinn Jónsson.