Siggi Helga Þóra Björgvinsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Una Sveinbjarnard. og Þórunn Ósk Marinósdóttir.
Siggi Helga Þóra Björgvinsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Una Sveinbjarnard. og Þórunn Ósk Marinósdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heildarútgáfa á öllum fimm strengjakvartettum Atla Heimis Sveinssonar hefur litið dagsins ljós. Það er Strokkvartettinn Siggi sem stendur að útgáfunni sem er hin glæsilegasta en kvartettinn átti langt og gifturíkt samstarf við Atla Heimi sem var…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Heildarútgáfa á öllum fimm strengjakvartettum Atla Heimis Sveinssonar hefur litið dagsins ljós. Það er Strokkvartettinn Siggi sem stendur að útgáfunni sem er hin glæsilegasta en kvartettinn átti langt og gifturíkt samstarf við Atla Heimi sem var afkastamikill frumkvöðull í samtímatónlist á Íslandi og óþreytandi við að kynna nýjustu strauma og stefnur í klassískri tónlist.

Atli Heimir lést árið 2019, þá rúmlega áttræður.

Morgunblaðið náði tali af Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara og meðlimi Sigga og forvitnaðist um tilurð útgáfunnar Atli Heimir Sveinsson – The Complete String Quartets.

„Ég kynntist Atla Heimi stuttu eftir að ég útskrifaðist úr MR. Ég varð þá þeirrar gæfu aðnjótandi að leika með Kammersveit Reykjavíkur inn á upptökur af verki sem Atli Heimir samdi við ljóð Steins Steinars, Tímann og vatnið [frumflutt í Langholtskirkju 12. júní, 1994 af Kammersveit Reykjavíkur, 24 manna kór og þremur einsöngvurum]. Upp frá því lágu leiðir okkar oft saman og eftir að ég sneri heim til Íslands eftir nám hittumst við reglulega á Gráa kettinum við Hverfisgötu til skrafs og ráðagerða. Ég lærði svo líka tónsmíðar hjá Atla Heimi þannig að hann hefur verið partur af mínu tónlistarlífi mjög lengi.“

Eins og svo margt sem komið hefur út á þessu ári má upphafið rekja til heimsfaraldurs og samkomutakmarkana.

„Okkur fannst við þurfa að gera eitthvað á þessum tíma. Siggi hefur verið starfandi síðan 2012 og alla tíð höfum við fókuserað á nýja músík og samtímatónlist en einnig spilað mikið af Beethoven og ekki síst fyrir hvatningu Atla sem var mikill aðdáandi Beethovens. Þannig að við vorum svolítið að æfa okkur með þessa tvo höfunda hlið við hlið og höfum oft verið með þá báða á tónleikaprógrammi. Þetta verkefni lá að því leyti beint við og okkur tókst að afla styrkja sem gerðu okkur kleift að einhenda okkur í þetta verkefni.“

Una segir að strengjakvartettar Atla Heimis Sveinssonar spanni stóran hluta ferils hans sem tónskálds og gefi ómetanlega yfirsýn yfir hversu feikilega flinkur hann var að leika sér með alls konar form og stíla.

„Fyrsta kvartettinn skrifar hann árið 1960 og þeim síðasta lauk hann á þessari öld þannig að það er alveg heilmikla menningarsögu að finna í þessum verkum. Kvartettformið hentaði honum líka mjög vel, gaf honum mikið frelsi og allskonar möguleika á mögnuðum hljóðheimi bæði í tækni og túlkun.“

Vínilútgáfa er væntanleg.

Strengjakvartett nr. 2

Þétt ofinn

„Strengjakvartett nr. 2 er skrifaður árið 1960 eða sama ár og Fimm smámunir. Hér hristir Atli svo sannarlega af sér ytri áhrif og finnur sína sína eigin rödd og dálítið magnað að þessi gjörólíku verk séu skrifuð sama árið. Atli hefur mjög mikið að segja, vefurinn er verulega þétt ofinn og mjög flókinn á köflum en þó alltaf skýr og með afbrigðum vel fléttaður saman. Í anda þess sem Theodor Adorno segir um expressionismann er hér lengst af ekkert sem hlekkjar tónskáldið við form eða hefðbundið tónmál. Hér er Schönberg heiðraður og Alban Berg en Atli er í sínum eigin ham. Í enda verksins vísar hann greinilega í þjóðararfinn þar sem við erum allt í einu stödd í ísköldum moldarkofanum – þar sem Atli leikur sér með – nei, ekki legg og skel – heldur kvarttóna. Þetta er uppáhaldskvartett Helgu Þóru, 2. fiðlu-parturinn er magnaður og við höfum kallað kvartettinn þann súrrealíska. Við frumfluttum hann í brjáluðu veðri í Hafnarborg í byrjun árs 2015 en þá hafði tónleikum okkar þegar verið frestað einu sinni vegna veðurs. Á sömu tónleikum var frumfluttur fyrsti kvartett Unu, Þykkt (Opacity), auk verka Giacinto Scelsi og Naomi Pinnock.“

Brot úr texta í bæklingi sem fylgir útgáfunni.