Orka Norska fiskiskipið Nesejenta siglir meðal vindmylla á Hywind Tampen í Norðursjó. Áhrif orkuframleiðslunnar á nytjastofna eru óþekkt.
Orka Norska fiskiskipið Nesejenta siglir meðal vindmylla á Hywind Tampen í Norðursjó. Áhrif orkuframleiðslunnar á nytjastofna eru óþekkt. — Ljósmynd/Anne Christine Utne Palm
Þekking vísindamanna á áhrifum vindmyllugarða til hafs á lífverur hafsins er mjög takmörkuð. Geta því sérfræðingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar (Havforskningsinstituttet) ekki svarað spurningum sjómanna um hvaða mögulegu neikvæðu afleiðingar vindmyllugarðar hafa í för með sér fyrir nytjastofna

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Þekking vísindamanna á áhrifum vindmyllugarða til hafs á lífverur hafsins er mjög takmörkuð. Geta því sérfræðingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar (Havforskningsinstituttet) ekki svarað spurningum sjómanna um hvaða mögulegu neikvæðu afleiðingar vindmyllugarðar hafa í för með sér fyrir nytjastofna.

Norskir sjómenn og útgerðir hafa um nokkurt skeið lýst verulegum áhyggjum af áformum um uppbyggingu vindorkuvera í norskum sjó. Síðast í október mótmæltu Fiskebåt, hagsmunasamtök norskra útgerða, sérstaklega úthafsskipa, fyrirhugaðri uppbyggingu vindmyllugarðs á svokölluði Golíat-svæði út af Finnmörku. Í bréfi til olíu- og orkumálaráðuneytis Noregs útskýrðu samtökin hvernig svæðið er mikilvæg hrygningarslóð fyrir loðnu. Afleiðingar þess að trufla göngur loðnunar gætu meðal annars verið neikvæðar fyrir þorskstofninn og tilheyrandi veiðar, var fullyrt í bréfinu.

Vísindamenn telja hins vegar fátt hægt að fullyrða um afleiðingar vindmyllugarðanna. „Við vitum of lítið í dag um hvernig vindorkuframleiðsla á hafi mun hafa áhrif á fiskveiðar. […] Okkur skortir þekkingu á hvaða áhrif til dæmis hávaði, rafsegulgeislun frá strengjum og minni vindur eða breytt straummynstur mun hafa,“ skrifar vísindamaðurinn Anne Christine Utne Palm hjá Havforskningsinstituttet í færslu á vef stofnunarinnar.

Fáar rannsóknir

Palm hefur farið fyrir vinnu við gerð sérstakrar skýrslu þar sem markmiðið var að lýsa hvaða afleiðingar vindmyllugarðarnir Hywind Tampen, Sørlege Nordsjø II og Utsira Nord munu hafa á nýtingu sjávarauðlindarinnar á grundvelli núverandi þekkingar, auk þess að skrásetja hvaða upplýsinga og gagna þurfi að afla til grundvallar frekari þekkingu.

Starfsmenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar ræddu við sjómenn sem stunda veiðar á þessum svæðum til að safna gögnum um veiðireynslu þeirra. Fengust meðal annars upplýsingar um árstíðir, veiðisvæði, hvaða tegundir veiðast, hafstrauma og annað sem tengist sjósókn á þessum þremur svæðum.

„Á heimsvísu eru mjög fáar rannsóknir sem skoða áhrif vindmyllugarða á hafi á fiskveiðar og af þeim sem til eru, að því er við komumst næst, hefur engin nýtt aflagögn,“ segir Palm.

Vitað er að vindmyllur hafa áhrif á sjávarvistkerfið á þeim afmörkuðu svæðum þar sem þeim er komið fyrir. Mismunandi tegundir verða fyrir mismiklum áhrifum af hljóðmengun, segulsviði og breyttum straumi. „En við vitum ekki hversu stórt svæði verður fyrir áhrifum og hvort þau áhrif sem sjást staðbundið geti leitt til áhrifa á heila stofna og á stærri svæðum. Hversu mikil uppbyggingin er mun auðvitað spila inn í þetta. […] Líklegt er að sumar tegundir njóti góðs af uppbyggingu [vindmyllugarða] á meðan aðrar verða fyrir neikvæðum áhrifum,“ útskýrir Palm.

Niðurstaða samantektar vísindamanna norsku hafrannsóknastofnunarinnar var að ekki væri mögulegt að svara þeim spurningum sem sjómenn beina til stofnunarinnar um möguleg áhrif vindmyllugarða. „Til þess að fá svar við því hver áhrif vindorkuvera á hafinu verða, verðum við að gera frumathuganir yfir nokkur ár og yfir fleiri árstíðir. Við verðum að fylgjast með því hvernig fiskur, umhverfið og vistkerfið þróast í gegnum uppbyggingu og rekstur [vindmyllugarðanna].“

Engar rannsóknir á áhrifum vindmyllugarða á sjávarvistkerfi eða nytjastofna hafa verið framkvæmdar á Íslandi.