Quintana „Þótt [Tíkin] sé staðsett á svona óvenjulegum stað og fjalli um óvenjulega persónu þá fjallar hún um eitthvað sem snertir okkur öll.“
Quintana „Þótt [Tíkin] sé staðsett á svona óvenjulegum stað og fjalli um óvenjulega persónu þá fjallar hún um eitthvað sem snertir okkur öll.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Kyrrahafsströnd Kólumbíu er sögusvið skáldsögunnar Tíkin eftir kólumbíska rithöfundinn Pilar Quintana en hún bjó þar í níu ár. Ströndin er afar afskekkt, lokuð af á bak við mikinn fjallgarð. Mjó rönd af frumskógi er klemmd milli sjávar og fjalla.

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Kyrrahafsströnd Kólumbíu er sögusvið skáldsögunnar Tíkin eftir kólumbíska rithöfundinn Pilar Quintana en hún bjó þar í níu ár. Ströndin er afar afskekkt, lokuð af á bak við mikinn fjallgarð. Mjó rönd af frumskógi er klemmd milli sjávar og fjalla.

„Ég vissi alltaf að ég myndi skrifa um staðinn einn daginn en ég vissi ekki hvað. Ég var oft beðin að skrifa í tímarit um hvernig það væri að búa í frumskóginum því það er mjög óvenjulegt að manneskja úr borginni setjist þar að. Ég þurfti að horfa í kringum mig og reyndi að koma því í orð sem ég sá og það hjálpaði mér að átta mig á frumskóginum.“

Þannig hefst svar Quintaka við spurningum mínum um hvernig hugmyndin að Tíkinni varð til. Rithöfundurinn heimsótti Ísland á ferð sinni um Norðurlöndin í haust og settist niður með mér á skrifstofum íslenska útgefanda síns, Angústúru. Tíkin, eða La perra eins og hún heitir á frummálinu, kom út í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar árið 2020.

„Húsið okkar var aðskilið frá bænum af vík sem fylltist af sjó á háflæði á sex tíma fresti. Þegar það var fjara gátum við gengið yfir í bæinn en þegar það var flóð urðum við að synda eða fara með bát,“ heldur Quintana áfram.

Hinn fullkomni glæpur

„Dýr komast ekki þarna yfir svo ég þekkti alla hundana og kettina sem bjuggu á sama kletti og ég. En einn daginn var ég á gangi í frumskóginum og sá hund sem ég hafði ekki séð áður. Ég varð svolítið hrædd og það varð hundurinn líka og við fórum sitt í hvora áttina. Nokkrum dögum síðar gekk ég sömu leið og sá sama hund. Mér sýndist hann vera að fá flogakast því hann lá á jörðinni og hreyfðist ört. En þegar ég kom nær áttaði ég mig á því að hann væri dáinn en það voru svo margir ormar í honum að hann leit út fyrir að vera á hreyfingu. Tveimur dögum seinna fór ég að athuga með hundinn og þá var hann horfinn. Ég spurði mig hver í ósköpunum hefði tekið rotnandi hundshræ. En svo fór ég alveg að staðnum þar sem hundurinn hafði legið og sá að hann var þarna enn þá. Það var ekkert eftir nema beinin og svolítið hár. Og þarna byrjaði rithöfundaheilinn að starfa. Þarna í skóginum gæti maður framkvæmt hinn fullkomna glæp því líkaminn er svo fljótur að hverfa. Ég gæti bara tekið þessi bein og hár og hent þeim eitthvað og enginn myndi nokkurn tíma vita að þessi hundur hefði verið hérna,“ segir Quintana.

„Ég hugsaði um það í mörg ár hvernig ég gæti nýtt þetta í sögu. En svo fann ég söguna þegar ég varð ófrísk og varð að segja vinkonu minni, sem gat ekki eignast börn en hafði alltaf dreymt um það, að ég sem aldrei hafði viljað börn hafði skipt um skoðun og átti mjög auðvelt með að verða ófrísk. Það var erfitt samtal. Hún endaði á að taka að sér hvolp. Maginn á mér stækkaði og hvolpurinn hennar stækkaði. Og ég hugsaði að nú hefði ég fundið söguna, þetta yrði saga um móðurhlutverkið, saga um konu sem gæti ekki eignast börn og tæki að sér hund. Ég sá söguna fyrir mér.“

Spurð hvers vegna hún hafi viljað skrifa um móðurhlutverkið segir Quintana: „Á þessum tíma var #metoo-bylgjan í gangi og ný bylgja femínisma áberandi á samfélagsmiðlum þar sem konur höfðu hátt um að það væri í lagi að konur langaði ekki að eignast börn. Ég var sammála því, konur eiga að mega ráða hvort þær eignast börn eða ekki. En ég hugsaði líka til þeirra kvenna sem ekki geta eignast börn vegna frjósemisvandamála en þrá að eignast börn. Enginn hefur hátt fyrir þær, talar þeirra máli. Mér fannst ég verða að tala um það. Þessa hlið á móðurhlutverkinu sem við tölum ekki um.“

Eðlishvatirnar taka yfir

Quintana bætir við að sér finnist móðurímyndin vera of upphafin. „Móðirin á að vera fullkomin. Móðirin gerir allt fyrir börnin sín og hugsar ekki um sjálfa sig. Það er nánast eins ekki sé litið á mæður sem manneskjur. Móðirin sé sérstök tegund sem hefur engar persónulegar þarfir. Þetta er ekki svona. Við erum manneskjur og fáum enga ofurkrafta þegar við verðum mæður. Við höfum ekki talað nógu mikið um erfiðar hliðar móðurhlutverksins og hvaða áhrif þær hafa á okkur. Sem rithöfundur hef ég áhuga á að varpa ljósi á heildarmyndina.“

Þessu stillir Quintana upp gegnt villtri náttúru frumskógarins. „Ég sé náttúruna sem spegil fyrir mannkynið. Við sem manneskjur höldum að við séum ólíkar náttúrunni og ólíkar öðrum dýrum og stundum höldum við jafnvel að við séum þeim æðri. En ég held við séum það ekki. Við tilheyrum líka náttúrunni. Við erum dýr og við gleymum því. Við höldum að okkar rökhugsun skilji okkur frá öðrum dýrum en ég held það sé ekki þannig. Það er vissulega sérkenni okkar dýrategundar en það fjarlægir okkur ekki frá öðrum dýrum. Eðlishvatir okkar eru greinilegar, þær koma til dæmis í ljós í kynhvötunum og þrá okkar eftir afkvæmum. Við erum dýr þegar við fæðum börn og þegar við gefum þeim brjóst. Og ást okkar á börnum er dýrsleg ást. Þá stýrir rökhugsunin ekki heldur eðlishvötin. Mér finnst gaman að stilla persónunum mínum upp í náttúrunni til að sjá hvernig þær bregðast við út frá eðlisávísuninni,“ segir hún.

Lúmskt ofbeldi kvenna

„Ég kem líka frá landi þar sem hefur lengi ríkt stríðsástand. Í löndum þar sem ríkir stríð þarf fólk að gera andstæðinginn ómennskan. Þú lítur á hann sem skrímsli og þess vegna geturðu drepið hann. Það er fullt af fólki sem lifir venjulegu lífi og hefur ekkert með stríðið að gera en lítur á þá sem eru að berjast sem skrímsli en ég held að hermenn og skæruliðar sem drepa séu í grunninn alveg eins og við. Þeirra innra skrímsli hefur sloppið út. En hvers vegna það hefur gerst, það er góð spurning. Og ég skrifaði Tíkina til að reyna að svara því. Hvað myndi verða til þess að skrímslið í mér slyppi út? Hér er svarið,“ segir hún og bætir við: „Þetta er innra með okkur öllum. Ég er södd og með þak yfir höfuðið, öllum mínum grunnþörfum er svalað. Ég fer út að hlaupa og til sálfræðings. Ég geri allt sem þarf til þess að halda skrímslinu í skefjum.

Við femínistar tölum mikið um ofbeldi karla gegn konum en við tölum ekki nóg um ofbeldi kvenna. Við erum líka færar um hræðilegt ofbeldi. Stundum er það ofbeldi sem konur fremja ekki blóðugt, ekki framið með hnefunum, heldur getur það verið mjög lúmskt. Mig langaði líka að skoða það.“

Titill bókarinnar á frummálinu, La perra, hefur eins og á íslensku tvöfalda merkingu, er orð yfir kvenkyns hund en er líka fúkyrði. „Ég bjóst ekki við því að útgefendurnir myndu gefa út bók undir heitinu La perra. Það var vinnutitillinn minn. En þegar þeir komust að því að ég notaði þann titil þá sögðust þeir elska hann og gáfu hana út þannig. Það var svolítil andspyrna frá lesendum til að byrja með, þeir skildu ekki af hverju bókin héti þessu nafni. En þegar ég svaraði að þetta væri bók sem fjallaði um hund þá áttuðu þeir sig og núna vita flestir að bókin fjallar um hund og eru hættir að hugsa um hina merkinguna. Titillinn hefur misst sitt sóðalega yfirbragð,“ segir Quintana.

„Þegar ég var um tvítugt ætlaði ég mér að verða betri en Gabriel García Márquez en svo byrjaði ég að gefa út og uppgötvaði sannleikann. Márquez var snillingur. Hann var einstakur í sögu bókmennta. Það er mjög erfitt að komast af sem rithöfundur, flestir þurfa að gera eitthvað annað til að sjá fyrir sér. Ég var lengi á þeim stað að mér fannst ég vera heppin ef bókin mín seldist nóg til þess að útgefendur mínir gætu gefið út næstu bók eftir mig,“ segir hún og bætir við að markmiðið hafi verið að skrifa bækur sem vinir hennar væru hrifnir af, sem einhverjir myndu kaupa og hún gæti nokkurn veginn lifað á.

Ísland skrítnasti staðurinn

„Svo skrifaði ég La perra, sem fjallar um svarta konu, fátæka konu, feita konu, konu sem er ekki ung lengur. Hún ekki er það sem maður myndi venjulega kalla heillandi sögupersónu. En það er eitthvað almennt um mennskuna í þessari bók. Þótt hún sé staðsett á svona óvenjulegum stað og fjalli um óvenjulega persónu þá fjallar hún um eitthvað sem snertir okkur öll. Það er kannski þess vegna sem hún hefur verið lesin svona víða.“

Útgáfuréttur bókarinnar hefur verið seldur til margra landa og hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. hin virtu kólumbísku bókmenntaverðlaun Biblioteca de Narrativa.

Tíkin hefur komið út á ýmsum tungumálum en þegar ég er spurð hver sé skrítnasti staður sem bókin hafi komið út á þá hef ég alltaf sagt Ísland af því það er gjörólíkt Kólumbíu. En núna þegar ég er hér þá sé ég að það er ekki svo ólíkt. Við erum báðar frá löndum þar sem náttúran er stöðugt að reyna að drepa þig. Ég held að það móti hver við erum. En í Kólumbíu, og kannski hér líka, þá gleymum við þessu því við búum í stórborgum í vernduðu umhverfi. En ef þú ferð út fyrir það þá ertu einn á báti, í baráttu við náttúruöflin. Mér finnst það stórkostlega heillandi.“