Verðlaunahafinn Ólafur Jóhann var hinn hógværasti og sagðist vona að verðlaunin trufluðu hann ekki frá störfum.
Verðlaunahafinn Ólafur Jóhann var hinn hógværasti og sagðist vona að verðlaunin trufluðu hann ekki frá störfum. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Á forsíðu Morgunblaðsins 15. janúar árið 1976 var aðalfréttin um harða jarðskjálfta sem höfðu riðið yfir Kópasker og lýsingar á þeim ásamt myndum voru fyrirferðarmiklar á forsíðunni.

Baksvið

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Á forsíðu Morgunblaðsins 15. janúar árið 1976 var aðalfréttin um harða jarðskjálfta sem höfðu riðið yfir Kópasker og lýsingar á þeim ásamt myndum voru fyrirferðarmiklar á forsíðunni.

Á forsíðunni var einnig minni frétt þess efnis að Ólafur Jóhann Sigurðsson hefði hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabækurnar Að laufferjum og Að brunnum. Verðlaunaupphæðin var ein milljón og 400 þúsund krónur.

Í rökstuðningi úthlutunarnefndarinnar sagði: „Í ljóðrænni list og boðskap Ólafs Jóhanns Sigurðssonar sameinast norræn hefð og ljóðagerð skáldsins um hinn flókna vanda mannsins í nútímanum. Þessum vanda lýsir skáldið í ljóðum sínum sem tragískri andstæðu náttúrunnar og hins tæknivædda þjóðfélags.“

Ólafur Jóhann varð fyrstur Íslendinga til að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun en fimm árum síðar hlaut vinur hans Snorri Hjartarson sömu verðlaun fyrir ljóðabókina Hauströkkrið yfir mér.

Aldrei hugsað um verðlaun

Morgunblaðið birti viðtal við verðlaunahafann sem var hinn hógværasti. „Ég bjóst alls ekki við þessu. Ég hef verið að hugsa um allt aðra hluti en þessa verðlaunaveitingu að undanförnu – fyrst og fremst um landhelgisdeiluna, afkomu þjóðarinnar og landskjálftana fyrir norðan,“ sagði Ólafur Jóhann.

Spurður hvers virði verðlaunin væru honum svaraði hann: „Ég hef aldrei verið að hugsa um verðlaun eða neins konar viðurkenningu þegar ég skrifa. Ég vona bara að þetta verði ekki til þess að trufla mann frá störfum, en ég vona líka að þetta verði til þess að ég geti beitt áhrifum mínum til að sem flestir Íslendingar fái aukin tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri.“

Spurningu blaðamanns um það hverja bóka sinna hann teldi besta svaraði Ólafur Jóhann svo: „Ég veit það ekki, það er sín ögnin af hverju í flestum bókum, en ég er sæmilega ánægður með Vorkalda jörð, Bréf séra Böðvars, sögu, sem heitir Hreiðrið, og svo sumar af smásögum mínum, en Litbrigði jarðarinnar virðist hafa náð mestri hylli almennings.“

Brot úr viðtali við Ólaf Jóhann var á forsíðu með mynd af honum og að hætti blaðamennsku þessara tíma var framhald viðtalsins birt aftar í blaðinu, nánar tiltekið á síðu 27, ásamt mynd af skáldinu með eiginkonu sinni og yngri syni þeirra, Ólafi Jóhanni. Einnig var birt mynd af ábúðarfullri úthlutunarnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, en af Íslands hálfu sátu í nefndinni Ólafur Jónsson og Vésteinn Ólason.

Hrós og afundnar setningar

Morgunblaðið gerði svo enn betur við skáldið og birti áberandi grein á blaðsíðu fimm undir fyrirsögninni Trúnaður við eigin tilfinningar. Þar skrifaði Jóhann Hjálmarsson grein um Ólaf Jóhann og innan um hrós var að finna nokkrar ansi afundnar setningar. Jóhann minnir á að skáldsögur Ólafs Jóhanns hafi náð meiri útbreiðslu en ljóðin, sem hann segir fáa aðra en ljóðræna sælkera þekkja.

Jóhann gefur sterklega í skyn að Ólafur Jóhann hafi hreppt verðlaunin vegna þjóðernis síns, það hafi verið komið að Íslandi. Hann segir: „Löngum hefur verið fundið að því að bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafi ekki verið veitt íslenskum höfundi. Ekki er ólíklegt að Ólafur Jóhann hafi notið þess þegar dómnefndarmenn greiddu atkvæði. Þeir hafi hugsað sem svo að rétt væri að beina nú sjónum manna í eitt skipti að íslenskum höfundi. Ég kem ekki auga á að ljóð Ólafs Jóhanns hafi svo mikla verðleika fram yfir aðrar bækur, sem komið hafa til álita áður af Íslands hálfu. Ekki er heldur líklegt að Ólafur Jóhann Sigurðsson skari fram úr höfundum eins og til dæmis Svíanum Werner Aspenström og Dananum Thorkild Björnvig svo að tveir séu nefndir, sem ásamt honum komu til greina að þessu sinni. Ef til vill er þýðing Inge Knutssons frábær. Um það get ég ekki dæmt fyrr en ég hef lesið hana.“

Um verðlaunaverkin segir Jóhann: „Sé litið á Að laufferjum sem fyrri hluta bókar, Að brunnum sem síðari hluta, dæmist fyrri hlutinn forvitnilegri. Í honum er meiri fjölbreytni. Síðari hlutinn er aftur á móti samstæðari. Það er eins og átökum skáldsins sé lokið, þau ljóð, sem varð að yrkja, séu komin til skila... Því er auðvelt að halda fram að ljóðabók eins og Að brunnum sé einhæf og tilbreytingarlítil. En slík skoðun á bókinni þarf ekki endilega að vera neikvæð. Í henni getur falist að skáldið haldi sig innan þeirra marka, sem það setur sér, listræn vinnubrögð þess stefni að fullkomnun ákveðinnar myndar, vissrar tilfinningar. Þannig tel ég að líta eigi á ljóðagerð Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og með það í huga eru ljóð hans óvenjulega hugþekk.“