Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Að syngja Drottni lofsöng í kroppsins kirkju.

Einar Ingvi Magnússon

Samfélag kristinna manna átti sér í upphafi meðal annars nafnið Vegurinn, en það var samfélag trúaðra sem fylgdu Jesú frá Nasaret og ganga vildu með Guði og góðum englum til hins himneska föðurlands að jarðlífi loknu. Stundum voru þeir nefndir Nasarenar.

Þeir áttu sér leiðbeiningar frelsara síns og fyrstu lærisveina hans, sem urðu að þeirri handbók til himna sem við þekkjum í dag undir heitinu Nýja testamentið.

Óvinir Drottins hafa einsett sér að gera sem minnst úr hinu guðlega veganesti mannkynsins með vantrúarfortölum og andstyggð í garð guðsorða og helgra dóma. Tíðarandinn og ósiðlegar tískustefnur halda mörgu fólki í æðisgenginni lúxusdýrkun og taumlausum losta í holdsins lystisemdir.

En okkur eru gefnar ráðleggingar í bók bókanna: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo þér getið lært hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Róm. 12:2) „Okkur ber að temja skilningarvitin til að geta greint gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:14)

Það er ekki beinlínis eins og menn séu villtir í ógöngum, heldur þekkja þeir einfaldlega ekki annað. Þeir aka um á hraðskeiðum bílum, en til að komast hvert? Þeir eiga stóra flatskjái, en til að sjá hvað? Þeir hafa fengið sér öflug hljómflutningstæki, en til að heyra hvað? Uppeldi sitt hafa þeir fengið frá öðrum bókmenntum en heilögum ritningum.

Þeir eru hálærðir úr háskólum veraldarsamfélagsins, en hvað hafa þeir lært og til hvers? Ritað er: „Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka.“ (Efesusbréfið 2:10)

Engu skiptir hversu miklu menn sanka að sér gjaldmiðlum og fasteignum í jarðvistinni. Allir halda þeir héðan blásnauðir eftir sitt stutta æviskeið á jörð, jafnvel ríkustu menn. Sumir eru undir skiladaginn búnir, aðrir ekki. Útskrift okkar úr skóla lífsins býr okkur að einhverju leyti undir tilveruna sem bíður okkar eftir skólavist jarðlífsins, því jarðvistin er ekki allt sem er, því „föðurland vort er á himni“. (Fil. 3:20)

Menn voru skapaðir til allt annarrar iðju en söfnunar veraldarglingurs. Þeir voru skapaðir til andlegra kærleiksiðkana og lofgjörðar. Lærum af skógarþröstunum, sem syngja sína messugjörð á hverjum morgni á vorin. Horfum til hæstu trjánna, sem teygja sig til himins, og fallegu blómanna, sem opna krónur sínar á móti sól. „Vér erum musteri heilags anda“ segir í heilagri ritningu. (1. Kor. 4:16) Hjarta okkar ætti því að vera altari þess helgidóms og hver fruma líkamans að syngja Drottni lofgjörð í kroppsins kirkju.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.