Aðalsteinn Jónsson fæddist í Hafnarfirði 2. okt. 1928. Hann lést 6. desember 2023. Foreldrar hans, jafnan kennd við Gróf, voru Jón Jónsson, f. 12.8. 1879, d. 26.10. 1936 og Guðfinna Margrét Einarsdóttir, f. 10.11. 1888, d. 5.8. 1982.

Ólst Aðalsteinn upp í samheldnum hópi 12 systkina. Hann varð stúdent frá MR 1950 og efnaverkfræðingur frá Strathclye-háskóla í Glasgow 1956. Hann giftist eftirlifandi konu sinni Patriciu Ann Mackenzie, f. 7.1. 1933, 17.9. 1955. Þau fluttu til Hafnarfjarðar 1956 og til Akureyrar árið 1958, þar sem honum var falið að hefja málningarframleiðslu í Sjöfn. Þar bjuggu þau til 2014 og ólu upp börn sín sex. Fyrir átti Aðalsteinn dótturina Eygló með Arnfríði Guðjónsdóttur, f. 1.11. 1932, d. 20.6. 2009. Afkomendurnir telja 23 barnabörn og 18 barnabarnabörn.

1) Eygló, f. 1953, maki Þórarinn Óðinsson, f. 1953. Börn: a) Anna Marín, f. 1981, m. Róbert Óskar Sigurvaldason. Börn: Róbert Thór, f. 2006, Óliver Thór, f. 2014. b) Margrét Jóna, f. 1984, m. Jonathan Michael Perkins. Börn: Evan Thor 2016, Chloe Lilja, f. 2019. c) Brynja Dröfn, f. 1987, m. Jóhann Birkir Jónsson. Dóttir: Birta Kristín, f. 2014.

Börn Aðalsteins og Patriciu:

2) Svanhvít MacKenzie, f. 1956, m. Júlíus Birgir Kristinsson, f. 1954. Börn: a) Egill, f. 1979, m. Lára Kristín Kristinsdóttir. Synir: Aðalsteinn Kjaran, f. 2015, Júlíus Kristinn, f. 2017. Stjúpsonur: Patrekur Hrafn Barðason. b) Edda Mackenzie, f. 1981. c) Kristinn, f. 1986. d) Svanhvít, f. 1988.

3) Ívar, f. 1957, m. Ingibjörg Rósa Sigurjónsdóttir. Börn með Kristínu Þórarinsdóttur, f. 1960: a) Andri, f. 1988, m. Unnur Sól Ingimarsdóttir. Dóttir: Vilma Rún, f. 2019. b) Þorbjörg Ída, f. 1990, m. Brynjarr Pétur Clausen. Barn með Ingibjörgu Rósu: c) Svanborg Alma, f. 2012.

4) Ásdís Elva, f. 1959. Börn með Skeggja G. Þormar, f. 1957: a) Patricia Anna, f. 1987, m. Hannes Árdal. Börn: Guttormur Geir, f. 2016, Elva Margrét, f. 2018, Ágúst Ari,f. 2021. b) Hanna Soffía, f. 1989, m. Kristinn Ingi Halldórsson. Börn: Vetur Ingi, f. 2022, Katrín Valentína, f. 2023. c) Ívar, f. 1996,

5) Margrét, f. 1961, m. Örn Ragnarsson, f. 1959. a) Aðalsteinn, f. 1986, m. Ragnhildur Friðriksdóttir. Börn: Arndís Anna, f. 2017, Edda Margrét, f. 2019. b) Anna Ragna, f. 1987. c) Árni, f. 1992, m. Elínborg Llorens Þórðardóttir. d) Atli, f. 1993, m. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir.

6) Auður, f. 1961, m. Friðjón Bjarnason, f. 1958. Börn: a) Inga Birna, f. 1987. Sonur með Sveinbirni Blöndal Guðlaugssyni: Birkir Atli, f. 2015. b) Elva, f. 1990, m. Filip Thelin. c) Ágúst, f. 1997, m. Elín Sveinsdóttir.

7) Jón Georg Aðalsteinsson, f. 1965, m. Hilma Sveinsdóttir, f. 1966. Börn: a) Jökull, f. 1993, m. Tanja Huld Leví Guðmundsdóttir. b) Aðalsteinn, f. 1996, m. Snjólaug Heimisdóttir. Sonur: Heimir Jón, f. 2023. c) Sölvi, d. 2004.

Útförin verður frá Fríkirkjunni Hafnarfirði 28. desember 2023 kl. 13.

Elsku pabbi.

Undarlegt – þetta er víst í fyrsta skipti sem ég skrifa þér.

Tilefnið er þakklæti. Þakklæti fyrir allt sem þú gafst mér og okkur systkinunum. Sá má kallast heppinn sem fær að alast upp í jafn glöðum og samheldnum systkinahópi og ég. Þið mamma bjugguð okkur indælt heimili, öryggi og skjól. Í Hrafnagilsstræti og síðar Birkilundi var einatt fjör og kátt á hjalla, leikir og bras, hlegið og sungið en líka á stundum þráttað og skammast eins og gengur. „Never a dull moment!“ Þarna mótaðist mynstur jákvæðni, gleði, samskipta og samheldni sem reynst hefur okkur systkinunum dýrmætt veganesti allar götur síðan.

Þú, í takt við tíðarandann, varst fyrirvinnan, höfuð fjölskyldunnar og fyrirmynd í svo ótal mörgu. Vinnusemi, þrautseigju, frumkvæði, áræðni, hugrekki, metnaði, gagnrýnni hugsun, íþróttum og leikfimi, húmor og frásagnarlist. Þú varst frumkvöðull í atvinnurekstri, blóma- og kartöflubóndi, golfari, gleðimaður, söngvari og sjarmatröll.

Varst kallaður Alli í Gróf fyrir sunnan og Alli í Sjöfn fyrir norðan en e.t.v. hefði Alli Lax verið það nafn sem hæfði þér best. Í þá daga var laxagengd mun meiri en í dag og upplifðum við feðgar stórkostleg veiðiævintýri sem ekki gerast lengur. Ég minnist þín úti í hyl upp að mitti, með flugustöngina í hægri og línuna í vinstri. Einbeittur með grænu upplituðu veiðihúfuna hvessa augun, taka inn iðandi straumfallið, ljómandi birtuna, æsandi sporðaköstin, mófuglasönginn, ilminn af lynginu, náttúruna – algleymið. Svo eftir löndun, gleðina á andlitinu, sögurnar um þann sem slapp, snafsinn og sönginn fram eftir nóttu. Og hvað sem allri gleði leið, alltaf varstu mættur fyrstur út í á að morgni.

Aldrei man ég eftir pabba mínum koma laxlausum í hús þótt allir aðrir væru með öngulinn í rassinum. Og í golfi, sem sönnum veiðimanni sæmir, fannst honum meira vert um allar kúlurnar sem hann veiddi upp úr skurðinum á þriðju, heldur en golfskorið.

Já, fyrir snáða að vaxa úr grasi var margt að líta upp til og læra af svo „stórum“ föður. Að þeim fjársjóði hef ég búið alla tíð og reynt að miðla við uppeldi minna eigin sona. Fyrir það segi ég takk, pabbi minn. Megi bera vel í veiði í hyljunum fyrir handan.

Þinn sonur,

Jón Georg (Nonni).

Sæll vinur, sagði Alli glaðlega þegar við sáumst í fyrsta skipti í eldhúsinu í Birkilundinum fyrir um 45 árum er hann skaust eftir hressingu fyrir þau Pat. Hafandi átt fimm dætur í MA virtist hann ekki kippa sér upp við það þótt menntaskólastrákur kæmi í heimsókn. Eftir að við Magga ákváðum svo að halda út í lífið saman fjölgaði að sjálfsögðu samverustundum og kynnin styrktust. Við urðum vinir.

Alli var fæddur og uppalinn í Gróf á Öldugötunni í Hafnarfirði og gjarnan kallaður Alli í Gróf. Hann var næstyngstur tólf systkina. Eins og víða á þessum tíma var þröngt í búi og allir þurftu að leggjast á eitt í lífsbaráttunni. Föður sinn missti hann 8 ára gamall. Fjölskyldan var samrýnd og hjálpaðist að með dugnaði og glaðværð. Þá eiginleika tók Alli með sér frá æskuheimilinu og hélt þeim alla tíð.

Hann lagði hart að sér, duglegur og áræðinn í vinnu og námi. Eftir stúdentspróf frá MR lauk hann námi í efnaverkfræði í Glasgow. Það var flott að koma heim með menntunina en allra best var að með honum kom hin yndislega Pat. Þau fluttu til Akureyrar 1958 þar sem hann hóf störf hjá Efnaverksmiðjunni Sjöfn og varð forstjóri fyrirtækisins frá 1969 til starfsloka. Smám saman varð Alli í Gróf Alli í Sjöfn.

Alli stundaði íþróttir á yngri árum og fylgdist ávallt vel með og hafði ákveðnar skoðanir á frammistöðu þátttakenda. Hann stóð jafnan fast á sínu svo maður hugsaði sig gjarnan um tvisvar áður en maður gaf sig í miklar rökræður við hann. Alli var veiðimaður og naut sín sérstaklega vel við stangveiði og átti ófáar stundir við árbakkann. Þau Pat áttu sérstaklega fallegan garð í Birkilundinum sem þau sinntu af alúð og þar ræktaði Alli einhverjar þær bestu kartöflur sem mér skilst að ræktaðar hafi verið. Hann var alltaf að.

Alli hafði einstaklega fallega tenórrödd og söng með Karlakórnum Geysi á Akureyri og oft einsöng með kórnum. Hann var í Geysiskvartettinum og söng einsöng við ýmis tilefni og athafnir.

Ég minnist tengdaföður míns með mikilli hlýju. Honum var annt um fjölskylduna sína, börnin voru sjö og hann var vafalaust minnugur sinna æskudaga og lagði sig fram um að allir mættu njóta sín í lífi og starfi. Hann var glaðvær og naut sín í góðra vina hópi en aldrei betur en þegar fjölskyldan kom saman. Þær eru ófáar minningarnar um það þegar fjölskyldan kom í heimsókn í Birkilundinn og móttökurnar einstaklega hlýjar, veislumatur hjá Pat og Alli skenkti í glös og bauð upp á sérblandaðan drykk efnaverkfræðingsins þar sem ekki var svo sem verið að títra í glösin og við kölluðum Birkilundarblöndu. Alltaf gleði og húmorinn fínn, glettni við börnin sem alltaf fengu athygli og gátu valsað um og flest var leyfilegt þótt stundum þykknaði aðeins upp ef t.d. bolti gerðist of nærgöngull við rósirnar. Svo var gjarnan sungið og Alli stjórnaði og við löngu búin að sjá að það væri best fyrir alla.

Alli naut þeirrar gæfu að hafa Pat sér við hlið, hann lifði langa og góða ævi. Ég kveð með virðingu, hlýju og þakklæti fyrir mig og mína. Vertu sæll vinur.

Örn Ragnarsson.

Aðalsteinn Jónsson, Alli í Gróf, Alli í Sjöfn hefur sungið lokatóninn á þessari jarðvist. Minningar eru margar og sterkar, svolítið eins og tenórrödd hans, há og tær.

Vinnusemi er eitt af því sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka, hvort sem það tengdist starfi hans sem forstjóri Sjafnar á Akureyri eða áhugamálum sem voru nokkur; söngur, veiði, golf, garð- og kartöflurækt eða bygging og viðhald á fjölskylduhúsinu. Það er stundum sagt að góður veiðimaður sameinist náttúrunni og David Attenborough hefði átt að taka Alla fyrir í einhverjum þættinum því næmni hans fyrir „hvar laxinn lægi“ var engu lík, sama hver áin var.

Ég komst að því að kartöflur voru hans ær og kýr, þegar hann, sármóðgaður, horfði á mig yfir eldhúsborðið í Birkilundi taka til við að skræla nýupptekið smælkið, úr hans eigin garði. Þær voru enda ræktaðar af efnaverkfræðilegri nákvæmni í bland við reynslu og innsæi svo úr varð hin fullkomna kartafla, stærð, form, bragð, mjölinnihald og hýði. Allt passaði!

Alli hafði einnig áhuga á íslensku máli og ef upp kom umræða um tungumálið átti hann það til að hverfa í smá stund, koma svo aftur með lesgleraugun á nefinu horfandi yfir þau á okkur unga fólkið með orðabók Máls og menningar opna í fanginu tilbúinn með útskýringar á því sem ekki hafði fengist botn í. „Merkilegt“ heyrðist þá gjarnan eða „vissirðu þetta Nonni?“.

Alli er sá síðasti að kveðja úr stórum samheldnum systkinahópi úr Hafnarfirði. Hann skilur eftir sig stóran og samheldinn systkinahóp, börn sín, og fjölskyldur þeirra sem ég er þakklát fyrir að fá að vera hluti af.

Hvíl í friði, takk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Hilma.

Afi Alli var merkilegur maður með áhugaverða sögu fyrir margar sakir sem margir eru betri til frásagnar um en við. Afa þótti fátt skemmtilegra en að vera með fólkinu sínu. Hann sýndi okkur systkinunum alltaf mikla væntumþykju og áhuga og var alltaf opið hús á heimili þeirra ömmu í Birkilundinum, hvort sem við komum með fjölskyldunni, vinum okkar eða með hundinn. Það var aldrei vandamál. Áramótin á Króknum koma sterkt upp í hugann þegar við rifjum upp sögur af afa. Hans mikla sönggleði vó þar þungt og hafa orðið til skemmtilegar áramótahefðir hjá okkur út frá því. Samband okkar við afa var mikið til á léttu nótunum og flugu oft nokkrir ódýrir brandarar á milli þegar við hittumst.

Við minnumst afa með miklum hlýhug, kærleik og þakklæti.

Aðalsteinn, Anna Ragna, Árni og Atli.

Margs er að minnast eftir áratuga vináttu við Aðalstein Jónsson. Fyrstu kynni okkar voru í Menntaskólanum í Reykjavík, en síðan tók við nám okkar beggja erlendis. Aðalsteinn valdi sér nám í efnaverkfræði í Skotlandi og undirritaður náttúrufræði. Aðalsteinn varð síðan forstjóri Efnaverksmiðjunnar Sjafnar á Akureyri til starfsloka. Í Skotlandi kynntist hann konuefni sínu, henni Patriciu, og settust þau að á Akureyri og þar ólu þau upp barnahópinn sinn. Var oft glatt á hjalla á því heimili og gleðilegt að fá að fylgjast með öllum þessum myndarlegu einstaklingum. Vegna ferða minna um landið leiddist ég oft í heimsókn til þeirra fyrir norðan. Tengdist ég því börnum þeirra böndum sem ekki rofna.

Aðalsteinn var afbragðs tenórsöngvari og var m.a. félagi í hinum fræga Geysiskvartetti á Akureyri, ásamt hinum ýmsu kórum sem þar störfuðu. Árlega þegar við skólasystkinin komum saman var það ekki spurning að hann myndi taka lagið og fyrir valinu urðu oftar en ekki hinir frægu skosku söngvar sem gerðu mikla lukku. Söngurinn var hans mál.

Sameiginleg áhugamál okkar vinanna voru mörg, m.a. hinar ýmsu íþróttagreinar. Síðustu árin gátum við spjallað endalaust um þessi mál og höfðum sterkar skoðanir og ánægju af. Við Inga Lára áttum margar ánægjulegar utanferðir með vinum okkar Alla og Pat, oftar en ekki með golfsettið í farteskinu, en þau hjónin voru mjög fær í þeirri íþrótt.

Eftir að Alli og Pat fluttu „hingað suður“ varð samgangurinn meiri og árin liðu með öllu því sem því fylgdi. Aðalsteinn tapaði heyrninni of fljótt og háði það honum. Það var því honum erfitt að vera í fjölmenni síðustu árin, en tími okkar saman var dýrmætur. Við munum halda sambandinu við okkar elskulegu og skemmtilegu Pat, sem nú sér á eftir eiginmanni sínum, eins lengi og við höfum tækifæri til.

Góður vinur er borinn til grafar í dag. Við hjónin þökkum samfylgdina og óskum honum Guðs blessunar. Elsku Pat og börnum þeirra færum við innilegar samúðarkveðjur.

Inga Lára og Ingvi Þorsteinsson.

Góður vinur er nú fallinn frá, Aðalsteinn Jónsson sem allir þekktu sem Alla í Sjöfn, en þar réð hann ríkjum um áratugaskeið. Vegir okkar lágu saman er Alli og Pat fluttu í Löngumýrina og settust að í næsta húsi við okkur Þorvald árið 1957. Þar með hófst vinskapur sem hefur haldist allar götur síðan. Börnin voru á svipuðum aldri og þótt þeim fjölgaði örar hjá vinum okkar komu örverpin sama árið og brölluðu þeir drengir ýmislegt saman á sínum yngri árum. Þegar þrengsla fór að gæta í húsunum í Löngumýrinni var farið í húsbyggingar í nýjum hverfum bæjarins sem þá risu hratt. Aðeins lengra var á milli húsa en áfram dafnaði vinskapurinn. Vinahópurinn var stór og gleðin réð ríkjum í alls kyns félagsstörfum og frístundum. Alli og Lilli voru félagar í lionsklúbbi og sungu saman í Karlakórnum Geysi. Þar söng Alli oft einsöng, auk þess að vera félagi í Geysiskvartettinum þar sem hans fallega tenórrödd naut sín vel. Ósjaldan sungum við Alli tvísöng, bæði með Geysi, á skemmtunum í bænum og í nærliggjandi sveitum. Í frækinni kórferð til Ítalíu árið 1974 sungum við Alli dúettinn Schenkt man sich Rosen in Tirol á heimaslóðum læriföður okkar Sigurðar Demetz. Seinna sungum við saman í kór eldri borgara, Í fínu formi.

Margir voru veiðitúrarnir í Laxá í Aðaldal og upp á Arnarvatnsheiði og lentu menn í ýmsum ævintýrum í þeim ferðum. Seinna stofnuðu félagarnir útgerð og reru til fiskjar út á fjörð. Bátinn skírðu þeir Patrúnu í höfuðið á okkur eiginkonunum. Það kom fyrir að hlé væri gert á veiðunum og báturinn stóð þá uppi á túni við Kotárgerði. Þá sögðu gárungarnir að nú væru þeir félagarnir á túnfiskveiðum. Það má því segja að þeir hafi verið frumkvöðlar í veiði á þeirri tegund hér um slóðir. Þeir ræktuðu líka kartöflur heima við sín hús og oft var tekið spjall í bílskúrum beggja þar sem dreypt var á dropa og vindlareykurinn fyllti rýmið.

Um miðjan aldur bættist golfið við áhugasviðið. Spilað var vítt og breitt um landið og farið í golfferðir til Ameríku og Evrópu.

Þegar Alli og Pat fluttu suður til að vera nær börnum og barnabörnum minnkaði samgangurinn. Lilli lést árið 2018 en vinskapurinn við þau hjónin hélst sem áður og fastur liður í ferðum mínum suður hefur verið heimsókn til þeirra í Garðabæinn. Nú eru þeir félagarnir báðir fallnir frá, fengið hvíldina eftir langa og viðburðaríka ævi.

Hugur minn er hjá Pat og öllum hennar afkomendum. Megi minningin um mætan vin verma um ókomin ár.

Guðrún Margrét Kristjánsdóttir.

Fallinn er frá athafnamaður sem lét verkin tala. Við fyrstu kynni mín af Alla kom fram kraftur hans og athafnasemi, maður sem var áræðinn og metnaðarfullur í lífi og starfi. Í starfi sínu lagði hann sig allan fram um að efla það fyrirtæki sem hann var í forsvari fyrir, Efnaverksmiðjuna Sjöfn, til að leggja fram sinn skerf í uppbyggingu öflugs atvinnulífs á Akureyri og til að skapa atvinnu og lífsviðurværi fyrir fólk á svæðinu. Sýn Alla var sú að atvinnufyrirtækin ættu að sinna almannahagsmunum ásamt því að vera arðbær. Hann var skapmikill ef svo bar undir, fylginn sér og lagði sig fram um að koma málum fram þótt það kostaði átök. Alli lærði frá barnæsku að láta ekki erfiðleika stoppa sig, var sá eini í 12 systkina hópi sem lauk háskólanámi og naut til þess stuðnings systkina sinna og velvildarmanna. Hann var félagslyndur, góður íþróttamaður og ákafur laxveiðimaður.

Í gegnum áratugina varð ég þess áskynja að á bak við harða skel sem lífsbaráttan frá barnæsku hafði búið til var blíð sál sem kom einna mest fram á seinustu æviárum Alla. Þessi hlið hans kom einnig fram í söng hans. Alli hafði einstaklega fallega tenórrödd sem naut sín vel þar sem hann söng á samkomum fjölskyldunnar, í Karlakórnum Geysi og Geysiskvartettinum. Mér finnst líklegt að Alli hefði getað orðið atvinnusöngmaður hefði hann kosið þá leið í lífinu. Hann valdi hins vegar þá leið sem talin var praktískari á hans tíma, menntaði sig sem efnaverkfræðingur og iðkaði sönglistina í frítíma sínum.

Ég þakka samfylgdina sem tengdasonur og ævarandi góðrar móttökur þegar við Svana komum í heimsókn með barnahópinn. Far þú í friði á nýjar veiðilendur.

Júlíus (Júlli).