Konráð Rúnar Friðfinnsson
Konráð Rúnar Friðfinnsson
Biblían er ekkert fornrit heldur leiðsagnartæki sem virkar fyrir hverja manneskju sem vill nota hana í daglegu lífi. Hér er leyndardómur á ferð.

Konráð Rúnar Friðfinnsson

Kristni heldur velli vegna þess að á bak við kristna trú er afl öllum öðrum öflum öflugra sem ekkert hér í heimi mun geta sigrast á né heldur ráðið við. Margir hafa í gegnum tíðina viljað sigra afl kirkju og kristinnar trúar en geta ekki vegna þess að eins og fyrr greinir hafa þeir ekki nægt afl í verkið sem til sigurs leiði. Hann sem stendur að baki kirkjunni er öllu öðru sterkari. Eins og segir:

Mattheusarguðspjall 16. 17-19: Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ – Hér sjáum við myndina af hvernig þetta virkar í guðsríkinu á jörð, að menn eru settir yfir kirkjuna en starfa í nafni Jesú Krists. Allt trúað fólk sem fyllt er heilögum anda hefur játað mátt og megin Jesú og að hann sé sá sem stýri og stjórni kirkju sinni, samkvæmt vilja Jesú Krists eins.

Leiðsögubók hafa menn sér til halds og traust til eflingar eigin trú. Sumt fólk segir Biblíuna gamla bók og úrelta sem fráleitt henti nútímafólki en útskýrir ekki hver munur sé á nútímafólki og kynslóðum sem horfnar eru af yfirborði jarðar. Þá og nú bara fólk! Röng er því fullyrðingin um að Biblían sé úrelt rit. Rétt er að bókin er fyrir margt löngu skrifuð en samt ný og fersk, sem fólk viðurkennir sem daglega notar sína Biblíu. Þetta fólk viðurkennir fráleitt einhverja gamla bók heldur bók sem gildir hér og nú og skilar þeim ágæta árangri að trú fólks vex á Jesú Krist og gerir líf þess betra.

Biblían er ekkert fornrit heldur leiðsagnartæki sem virkar fyrir hvern þann sem vill nota hana í daglegu lífi. Sé þetta niðurstaða einnar manneskju segir hún við hana: „Jesús lifir. Hér er leyndardómur á ferð:“

Lúkasarguðspjall. 10. 41-42: En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ – Kristin trú er þetta góða hlutskipti.

Þessi árin er nokkuð harkalega ráðist á Orð Guðs og að því vegið. Engin nýlunda þó, heldur sýnir og sannar að hér eru ósýnileg öfl sem takast á og að margt gerist í hinu ósýnilega og bara stundum einnig í sýnilega veruleikanum.

Fólk með skilning, trúað fólk, fær pata af þessu gegnum trú sína og skilur betur hví ráðist er á Biblíuna. Veit af eigin reynslu að Orðið heldur utan um trú fólks og gefur henni nauðsynlega næringu beint upp úr Orði Guðs. Veit að til að slá allt þetta niður þarf fyrst að slæva trú í hjarta einstaklings, svæfa hana og helst eyða henni út og gera manninn aftur berskjaldaðan með enga sjáanlega vörn í sér lengur af trú sinni. Með trúna vikna burt úr hjartanu er ljóst að trúin er ekki lengur nokkur hindrun illum öflum sem áfram fá valsað þar um að vild. Vond býtti! Trú sem Kristur gefur er hverju illu afli öflugri og hrekur allt óvinarins veldi burt af þessu svæði og hinu svæðinu og í ljós kemur raunverulegt átakasvæði mannlegrar tilveru.

Birtingarmyndir ills afls eru hvert sem við horfum. Það birtist í brotnu lífi einstaklings, fólki á vergangi, fólki við dauðans dyr vegna ofdrykkju eða fíkniefnaneyslu, fólki sem líður illa, fólki í alvarlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Þessu stríði eiga menn í frá degi til dags. Dag einn hverfur sumt fólk inn í skin kirkju og byrjar frá þeim tíma að meta rétt kirkjulegt starf og fær að sjá með eigin augum mátt upprisu Jesú Krists á lífið.

Kirkjan er starfandi afl og sterkara öllu illu afli. Til þess líka dó Kristur og reis upp frá dauðum og færði byggjendum jarðarinnar boðskap um sigur yfir öllu óvinarins veldi.

Þarna birtist í hnotskurn afl kirkju og mikilvægi fyrir einstakling að sækja kirkju og tilheyra kristnum söfnuði með virkt starf. Trúarganga einstaklings þarf á söfnuði að halda og að vita að Kristur gerði allt fullkomið vegna hvers og eins okkar til að við nýttum verk hans í fyrst og fremst trú okkar á hann og förum þessa leið vegna okkar sjálfra, vitandi um eigin breyskleika sem sífellt vill taka fram fyrir hendur vilja Guðs sem ganga með Jesú byggir utan um og styrkir. Skiptin verða æ sjaldgæfari sem við ljáum máls á nokkru nema vilja Guðs í eigin lífi. Er enda mín kristna trú fyrir mig og þín kristna trú fyrir þig.

Hið illa fer ennþá mikinn hér á meðal okkar og þyrlar upp kynstrunum öllum af ryki í kringum sig en hefur ekki erindi sem erfiði vegna starfandi kirkju og trúar sem starfar í hjörtum einstaklinga. Í sannleika.

Sigur Krists er endanlega innsiglaður og birtingarmyndir alls konar. Mörgum hrýs hugur við þeim en ekki okkur sem vitum hvað bærist í eigin hjarta og vitum um upprisinn Jesú. Viðurkennum að á þetta geti verið harkalega ráðist og trúin augljóslega nauðsynleg til áframhaldandi göngu með Jesú. Höldum trúnni áfram.

Höfundur er ellilífeyrisþegi.