Vinsældir Bandaríska leikkonan Margot Robbie fór með hlutverk Barbie í samnefndri metsölumynd.
Vinsældir Bandaríska leikkonan Margot Robbie fór með hlutverk Barbie í samnefndri metsölumynd. — AFP/ Justin Tallis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Þorvaldur Árnason framkvæmdastjóri Samfilm, dreifingarhluta Sambíóanna, segir að árið hjá fyrirtækinu hafi á margan hátt verið mjög gott.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Þorvaldur Árnason framkvæmdastjóri Samfilm, dreifingarhluta Sambíóanna, segir að árið hjá fyrirtækinu hafi á margan hátt verið mjög gott.

„Við erum enn ekki komin út úr covid-ástandinu hvað aðsókn varðar en það eru margir ljósir punktar á árinu,“ segir Þorvaldur en eins og áður hefur verið fjallað um dróst aðsókn í bíó mikið saman í faraldrinum vegna samkomutakmarkana.

„Til dæmis komu nokkrar stórar kvikmyndir skemmtilega á óvart á árinu. Þrjár íslenskar myndir hlutu mjög góða aðsókn. Villibráð byrjaði árið með trompi og sló rækilega í gegn. Í febrúar kom svo Napóleonsskjölin, sem gerð er eftir sögu Arnaldar Indriðasonar, og í haust kom myndin Kuldi, byggð á sögu Yrsu Sigurðardóttur. Það hjálpar markaðnum að fá svona sterkar íslenskar myndir.“

Þorvaldur segist hafa velt því fyrir sér í byrjun ársins hvort það væri virkilega þannig að vinsælasta kvikmynd ársins væri strax komin, þ.e. Villibráð. Svo hafi Barbie mætt um sumarið og hlotið metaðsókn um allan heim, þar á meðal hér á landi.

„Barbie varð langstærsta mynd ársins og yfir 80 þúsund manns sáu hana í bíó,“ segir Þorvaldur.

Oppenheimer var frumsýnd sama dag og Barbie og hlaut einnig mjög góða aðsókn. Sýningar á báðum myndum í röð undir heitinu Barbenheimer urðu vinsælar og hlutu mikla athygli á samfélagsmiðlum.

„Þær lyftu hvor annarri upp,“ segir Þorvaldur.

Dune 2 var frestað

Fjölskyldumyndir nutu einnig mikilla vinsælda, myndir eins Super Mario Bros sem varð risasmellur að sögn Þorvaldar og Elemental frá Disney, sem fór rólega af stað en aðsókn jókst smátt og smátt.

Miklar vonir voru að sögn Þorvaldar bundnar við góða aðsókn á Dune 2 á haustmánuðum en vegna verkfalls leikara í Hollywood var frumsýningu frestað til 2024.

„Dune 2 hefði sprengt upp nóvembermánuð en vegna verkfallsins gátu leikarar ekki tekið þátt í kynningu myndarinnar. Því ákvað framleiðandinn að fresta frumsýningunni. Verkfallið hefur líka haft þau áhrif að myndir sem áttu að koma á næsta ári frestast. Það hefur áhrif á bíóheiminn. Það eru því smá vandamál að hrjá okkur ennþá en árið var samt mjög gott í heild þó við séum ekki komin í sömu hæðir og fyrir faraldurinn. Líklega er heildarmarkaðurinn í bíó á Íslandi árið 2023 um ein milljón gesta samanborið við 1.250 þúsund árið 2019.“

Hvað miðasölu varðar þá byrjaði árið með trompi að sögn Þorvaldar.

„Janúar 2023 varð stærsti bíómánuður allra tíma hvað tekjur varðar enda var Avatar: The Way of Water ennþá mjög sterk frá jólunum á undan og Villibráð var frumsýnd í mánuðinum.“

Um markaðinn almennt segir Þorvaldur að Háskólabíó hafi verið lokað á árinu og Borgarbíó á Akureyri þar áður, sem séu afleiðingar faraldursins.

„Ef maður horfir til framtíðar er erfitt að spá hvort markaðurinn hafi fundið jafnvægi eða hvort frekari breytingar séu í farvatninu. Flest bíó hafa haldið velli en covid-árin fóru illa með kvikmyndahúsin. Það er ekki hægt að draga fjöður yfir það.“

Bíóum hefur reglulega verið spáð dauða á síðustu árum og áratugum. Þær spár hafa ekki ræst eins og Þorvaldur útskýrir.

„Auðvitað hefur aukinn aðgangur fólks að efni heima í gegnum streymisveitur haft áhrif á aðsókn, en þá einkum á minni myndir. Fólk velur kannski frekar að sjá þær heima. Þetta eru samt myndir sem margar hverjar hefðu spjarað sig vel í bíó fyrir faraldurinn. En almennt heldur bíó áfram að vera vinsæl afþreying og gott tilefni til að fara úr húsi, sýna sig og sjá aðra. Það er sterk bíóhefð á Íslandi og ég er sannfærður um að bíóhúsin muni halda velli um ókomin ár.“

Sambíóin hafa á árinu lagt áherslu á að bæta bíóupplifunina og auka þannig þjónustuna.

„Fólk er tilbúið að borga fyrir smá meiri lúxus og við viljum halda áfram að auka gæðin.“

Sambíóin opnuðu uppfært Kringlubíó á árinu, þar á meðal lúxussalinn Ásberg. Áfram verður haldið að endurbæta bíóhús fyrirtækisins eins og fjárhagur leyfir eins og Þorvaldur orðar það.

„Við erum búin að að setja legubekki fremst í sal eitt í Egilshöll t.d. Svo vonum við að bíóárið verði gott með tilliti til myndanna sjálfra. Það er þó alltaf erfitt að spá hvað slær í gegn. Það bjóst t.d. enginn við að Barbie yrði sá mikli smellur sem hún varð,“ segir Þorvaldur að lokum.

Tekjuaukning milli ára

Árið í Smárabíó hefur gengið vel að sögn framkvæmdastjórans Konstantíns Mikaelssonar sem tók formlega við rekstri fyrirtækisins 2. janúar sl. eftir kaup á þriðjungshlut í félaginu árið á undan.

„Það er töluverð tekjuaukning frá árinu 2022. Bíóbransinn er á uppleið aftur líkt og í Bandaríkjunum. Aukningin nemur um 20%. Það er mjög jákvætt og gott fyrir landann sem er tilbúinn að fara aftur í bíó eftir faraldurinn,“ segir Konstantín.

Líkt og í Sambíóunum gengu íslensku myndirnar vel á árinu í Smárabíói sem og Barbie og Oppenheimer. Konstantín segir að það skemmtilega við bransann sé hvað erfitt er að spá um vinsældir mynda. „Maður hefur oft nokkuð góða tilfinningu fyrir þessu en svo gerist alltaf eitthvað óvænt,“ segir hann.

Auk Villibráðar, Napóleonsskjalanna og Kulda gekk Á ferð með mömmu vel í Smárabíói að sögn Konstantíns. Hann segir að á næsta ári sé von á Snertingu eftir Baltasar Kormák, sem byggð er á sögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar.

„Hún kemur vonandi næsta vor. Það er verið að vinna í að finna góða dagsetningu fyrir hana. Svo eru fleiri íslenskar myndir væntanlegar. Árið lítur vel út hvað það varðar.“

Aðspurður segir Konstantín að góðar íslenskar kvikmyndir sem höfða til fólks gangi vel. Ekki skemmi fyrir ef myndirnar eru byggðar á vinsælum bókum sem fólk þekkir. Hann er einnig bjartsýnn á komandi tíma.

„Þau bíó sem eru dugleg að uppfæra og betrumbæta hlutina, auka við sjálfvirkni og þægindi munu áfram ganga vel,“ segir Konstantín að lokum.

Samkvæmt væntingum

Sandra Björk Magnúsdóttir, markaðsstjóri Myndforms og Laugarásbíós, segir að bíóárið hafi gengið vel. Sumarið hafi einkum verið sterkt.

„Árið gekk betur en síðustu ár og samkvæmt væntingum,“ segir Sandra.

Líkt og Þorvaldur og Konstantín minntust á komu Barbie og Oppenheimer Söndru á óvart. „Það sýndi sig að það er hægt að frumsýna tvær stórmyndir á sama degi,“ segir hún.

Sandra segir að enn sem fyrr sanni það sig að góð saga skipti máli í bíó.

„Fólk sótti minna í ofurhetjumyndirnar á árinu en Barbie og Oppenheimer sýndu að þegar þú býður upp á eitthvað nýtt og ferskt hjálpar það mikið til.“

Hún segir að næsta ár líti vel út.

„Það eru margar góðar myndir á leiðinni eins og Fullt hús sem Sigurjón Kjartansson bæði leikstýrir og skrifar handrit að. Svo er ég mjög spennt fyrir Argyle, spennugrínmynd frá þeim sömu og gerðu Kingsman-myndirnar. Fyrir fjölskylduna er ný Aulinn ég-teiknimynd á leiðinni. Svo lítur spennudramað Civil War líka mjög vel út.“

Áhyggjur urðu að engu

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdstjóri Bíós Paradísar, og markaðsstjóri bíósins, Ása Baldursdóttir, segja í samtali við Morgunblaðið að árið hafi verið fjölbreytt og gengið vel.

„Við höfðum öll áhyggjur af því eftir faraldurinn að fólk myndi ekki snúa aftur í bíó, að allir væru orðnir of vanir því að sitja í sófanum og streyma myndum. Þær áhyggjur urðu að engu haustið 2022 þegar við settum hvert aðsóknarmetið á fætur öðru,“ segja Hrönn og Ása.

Þær segja að margar aðsóknarmestu myndirnar í bíóinu hafi mallað lengi og unnið á með tímanum. Þar megi t.d. nefna dönsku hrollvekjuna Speak no Evil og myndina Close sem kom í apríl.

„Aðsóknarmesta myndin okkar er pólska myndin The Peasants sem er öll handmáluð. Svo hefur verðlaunamyndin Anatomy of a Fall gengið vel, handhafi Gullpálmans í Cannes. Hana verða allir að sjá,“ segja þær Hrönn og Ása að lokum.