Nýtt ár gengur brátt í garð. Fyrir marga er það hreint og óskrifað blað, uppfullt af tækifærum og væntingum um það sem betur geti farið. Og þótt sagt sé að menn eigi að hafa vit á því að vera í góðu skapi er ekki víst að allir gleðjist yfir árlegum…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Nýtt ár gengur brátt í garð. Fyrir marga er það hreint og óskrifað blað, uppfullt af tækifærum og væntingum um það sem betur geti farið. Og þótt sagt sé að menn eigi að hafa vit á því að vera í góðu skapi er ekki víst að allir gleðjist yfir árlegum hækkunum hins opinbera á gjöldum og ýmsum gjaldskrám.

Hinir svokölluðu krónutöluskattar hækka um 3,5% að þessu sinni. Sú hækkun tekur til útvarpsgjalds, áfengis og tóbaks auk þess sem bensínlítrinn hækkar venju samkvæmt. Grunngjald bifreiðagjalds hækkar langt umfram þetta eða um rúm 30% og munar marga um minna. Þá er kynnt til sögunnar hið nýja kílómetragjald sem getur kostað eigendur rafmagnsbíla um 90 þúsund krónur á ári miðað við meðalakstur.

Þótt fögur fyrirheit séu gefin um að halda skuli aftur af gjaldskrárhækkunum í aðdraganda kjaraviðræðna endurspegla samþykktir sveitarfélaga þau ekki. Sorphirðugjöld voru hækkuð umtalsvert í fyrra og var skýringin fyrirhuguð breyting á sorphirðu. Sama skýring er nú gefin á mikilli hækkun hjá Reykjavíkurborg. Reykvíkingar þurfa líka að sætta sig við hærri aðgangseyri í sund, á listasöfn og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Strætó og pósturinn láta ekki sitt eftir liggja og hækka gjöldin milli ára.

Um áramót verða einnig breytingar á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentu sveitarfélaga. Þetta gerist í kjölfar þess að undirritað var samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í breytingunni felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema sex milljörðum króna árlega frá ríki til sveitarfélaga. Gagnvart einstaklingum verður engin breyting á skattbyrði en algeng útsvarsprósenta verður 14,93% í stað 14,67% áður.