Guðmundur Kr. Jónsson fæddist í Reykjavík 2. október árið 1937. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 16. desember 2023.

Foreldrar Guðmundar voru Jón Guðmundsson frá Blesastöðum, f. 14. mars 1911, d. 13. febrúar 2003 og Guðrún Ásgeirsdóttir frá Eiði, Hestfirði, f. 4. nóvember 1912, d. 11. júlí 2000. Guðmundur var næstelstur sex systkina, en hin eru: Þórarinn Ingi, f. 1935, d. 2017, Ásgeir, f. 1942, Sigurður, f. 1945, Bryndís, f. 1949 og Valgeir, f. 1954.

Guðmundur, eða Diddi eins og hann var oftast kallaður, bjó á Blesastöðum á Skeiðum fyrstu ár ævi sinnar, en flutti með foreldrum sínum í Hveragerði árið 1940 og bjó þar til æviloka, þ.e. í áttatíu og þrjú ár.

Hann kvæntist Valgerði Magnúsdóttur, f. 17. júní 1941, þann 10. október 1959. Foreldrar Valgerðar voru hjónin Guðrún Lovísa Hannesdóttir frá Bakka í Ölfusi, f. 1912, d. 1992 og Magnús Guðmundsson frá Reykjavík, f. 1905, d. 1983. Stjúpfaðir Valgerðar var Þorvaldur Sæmundsson, f. 1915, d. 1988.

Guðmundur og Valgerður eignuðust þrjár dætur: Guðrúnu Hönnu, f. 1960, Hafdísi Ósk, f. 1962, og Höllu, f. 1969. Guðrún Hanna er gift Runólfi Þór Jónssyni, eiga þau fimm börn og 15 barnabörn. Hafdís Ósk er gift Björgvini Ásgeirssyni, eiga þau fjögur börn og átta barnabörn. Sambýlismaður Höllu er Kent Lauridsen, eiga þau tvær dætur og tvö barnabörn.

Guðmundur byrjaði ungur að vinna við smíðar og útskrifaðist sem trésmiður úr Iðnskólanum á Selfossi árið 1959. Hann byggði sér ungur hús við Heiðmörk 53 í Hveragerði, þar sem hann og Valgerður hófu sinn búskap. Fimm árum síðar byggði hann við Heiðmörk 59, þar sem þau bjuggu í tuttugu og þrjú ár, eða þar til þau fluttu í Borgarhraunið, þar sem þau bjuggu í þrjátíu ár. Fyrir fimm árum fluttu þau svo í Lækjarbrún 36, þar sem þau hafa búið síðan.

Guðmundur vann meðal annars í Trésmiðju Hveragerðis, byggði og rak verkstæði með föður sínum og Ásgeiri bróður sínum um tíma, vann við að byggja Hveragerðiskirkju, en faðir hans var byggingarmeistari að kirkjunni. Hann var gjaldkeri sóknarnefndar í nokkur ár. Auk þess sem Guðmundur byggði mörg hús í Hveragerði í gegnum tíðina, byggði hann sér sumarbústað í Fljótshlíðinni. Hann vann einnig við byggingarframkvæmdir í Sigöldu, sem og við uppbyggingu í Vestmannaeyjum eftir gos, en lengst vann hann þó á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, eða í u.þ.b. fjörutíu ár.

Guðmundur var lengi í slökkviliði Hveragerðis, sat í byggingarnefnd Hveragerðis um tíma og lagði sitt af mörkum við uppbyggingu golfvallar í Hveragerði. Hann stundaði lengi skíðamennsku, spilaði badminton, fór í sleðaferðir um hálendið og spilaði golf í nokkur ár eða á meðan heilsan leyfði.

Sökum heilsubrests var Guðmundur um nokkurra mánaða skeið í dagdvöl á Bæjarási í Hveragerði, eða þar til hann lagðist inn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem hann lést eftir nokkurra vikna dvöl.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Hveragerðiskirkju í dag, 28. desember 2023, klukkan 14.

Elsku pabbi kvaddi þennan heim hinn 16. desember sl. Eftir sitjum við dætur hans, með hjörtun stútfull af þakklæti og minningar streyma fram. Það var alltaf gaman þar sem pabbi var. Hann spilaði rommí við okkur, kenndi okkur að tefla, spilaði badminton með okkur og fór ófáar ferðir með okkur á skíði. Framan af var farið í Flengingarbrekku, en þar sem það voru bara til ein skíði stóðum við aftan á hjá pabba til að byrja með. Eftir að allir fengu skíði var heilu helgunum oft varið á skíðum, ýmist í Hveradölum, Hamragili eða Bláfjöllum og síðar í Kerlingarfjöllum. Við fengum alltaf góða þjónustu í skíðaferðunum, þurftum ekki að hafa eins mikið fyrir hlutunum og hann þurfti á sínum unglingsárum. Hann húkkaði sér gjarnan far með vöru- eða mjólkurbílum til að koma sér á æfingar eða til að keppa á skíðum. Hann lét það ekki aftra sér þó að óvíst væri með far til baka, kom sér bara heim sjálfur, skíðandi eða gangandi með skíðin á öxlinni.

Eitt árið byggði hann kofa handa okkur. Það var með kofabygginguna eins og annað sem pabbi snerti á, vandvirknin svo mikil að það hefði mátt búa í kofanum. Pabbi hafði gaman af allri ræktun, ræktaði m.a. gulrætur og kartöflur, bæði heima við og á Bakka hjá Berta frænda. Á haustin var engin miskunn þegar kom að upptöku, stungugaffli, trékössum og nesti komið fyrir í bílnum, ekið niður í Ölfus og úr varð góð samvera. Einnig áttum við oft ágætar samverustundir þegar pabbi dreif okkur með sér upp í kirkju til þess að raða sálmabókum og þrífa, þá var hann í sóknarnefnd og verkefni meðlima ærin, regluleg þrif á kirkju og „handrukkun“ á sóknargjöldum, svo eitthvað sé nefnt.

Pabbi lék stórt hlutverk í lífi okkar, var svo óendanlega hjálpsamur. Það var eins og það væru hans bestu stundir þegar hann gat rétt okkur hjálparhönd, hvort sem það var að passa börn, hjálpa til í sauðburði, aðstoða við flutninga, mála íbúðir eða byggja fyrir okkur íbúðarhús. Allt þetta gerði hann af miklu kappi og ekki síst með svo mikilli gleði.

Pabbi var stundum í sveit hjá afa sínum á Blesastöðum og sagði afa sinn hafa kennt sér að vinna, enda var pabbi alla tíð vinnusamur maður, hljóp ætíð við fót og bjó yfir mikilli seiglu. Hann var þekktur fyrir vandvirkni og virtist ávallt hafa brennandi áhuga á öllum verkefnum sem hann tók að sér, hvort sem það var fyrir fjölskyldu, vini og samfélag eða vinnuveitendur. Má þar m.a. nefna uppbyggingarstarf við Hveragerðiskirkju á sínum tíma, þar vann hann ófáar stundir í sjálfboðavinnu. Sama var upp á teningnum þegar uppbygging golfvallar Hvergerðinga stóð yfir. Með sömu seiglu byggði hann sér sumarbústað í Fljótshlíðinni þar sem hann og mamma áttu margar góðar stundir.

Fyrir rúmum tveimur árum greindist pabbi með heilabilun, „vascular dementia“. Þegar sjúkdómurinn ágerðist annaðist mamma hann af mikilli ástúð og umhyggju en síðustu mánuðina var hann í dagdvöl á Bæjarási í Hveragerði, eða þangað til hann lagðist inn á HSU, þar sem hann lést.

Hvíl þú í friði elsku pabbi.

Guðrún Hanna,
Hafdís Ósk og Halla.

Diddi var sá fyrsti sem sýndi mér eftirtekt og athygli þegar ég var kynntur fyrir tengdafjölskyldunni. Settist mér við hlið á einni minni vandræðalegustu stundu og sýndi mér myndir af fjallstindum, giljum og jöklum. Þrátt fyrir örnefnaflauminn hafði ég lítinn áhuga á viðfangsefninu og enn minni þekkingu þrátt fyrir að ég jánkaði við hverri mynd fyrir sig. En mikið var ég feginn að fá félagsskapinn á þessari stundu, félagsskap sem breyttist fljótt í náinn vinskap.

Allt í fari Didda var eftirsóknarvert. Hann var blíður og góður, glaður og jákvæður, fastur fyrir og ákveðinn, eintak sem erfitt var annað en að falla fyrir og líta upp til. Þegar ég rifja upp ótæmandi pyngju minninga þá þykir mér vænst um þá þegar hann birtist óvænt fyrir utan heimilið okkar einn daginn eftir að einhverjar hremmingar höfðu átt sér stað. Þar stóð hann tárvotur, horfði djúpt í augun mín í þó nokkra stund, tók loks utan um mig og sagði: Þetta verður allt betra, vittu til. Settist svo undir stýri og keyrði til baka til Hveragerðis. Eftir þessa stuttu en áhrifaríku heimsókn eignaðist ég afa.

Við félagarnir áttum svo eftir að bralla ýmislegt saman, oft þá tengt því að hann fyrir sína einstöku greiðvikni, var að aðstoða okkur hjónin við eitthvað og þá tengt smíði. Hann byggði fyrir okkur hjónin sviðið fyrir brúðkaupsveisluna okkar. Þakskegg á fyrsta húsið. Sólpall fyrir utan það næsta. Parketlagði þau bæði og setti upp hurðir og glugga svo einhver verkin séu nefnd. Í flestum ef ekki öllum þessum verkum fékk ég hlutverk handlangara og er nokkuð viss um að verri handlangara hafði Diddi aldrei kynnst. Þar reyndi á óþrjótandi þolinmæði Didda sem, furðulegt nokk, var þrjótandi meðan á smíðum stóð. Eitthvert skiptið fékk ég yfir mig gusu af heldri manna fúkyrðum þegar ég gerði mig líklegan til að klippa band sem notað hafði verið sem viðmið. Ég var spurður hvort ég væri ekki örugglega í lagi þar sem bandið hafði verið í eigu Didda frá því fyrir aldamót og átti hann kvittunina til sönnunar. Var hnúturinn leystur og gengið frá bandinu sem bar þess ekki merki að vera rúmlega tveggja áratuga gamalt. Þrátt fyrir að ég væri vonlaus sem handlangari og skilningsleysi mitt á fullkomnunaráráttu Didda, þá var í öllum okkar verkum hlegið mikið og hlegið hátt. Það tók mig smástund, en ég áttað mig loks á að ég var ekki fenginn fyrir verkvitið heldur fyrir félagsskapinn. Mikið sem við skemmtum okkur!

Það er mikil synd að þurfa að kveðja þig en svo mikil upphefð að hafa fengið að kynnast þér.

Handlangarinn þinn,

Friðjón Þórðarson.

Í dag fylgi ég tengdapabba mínum síðasta spölinn, sem eru þung spor fyrir mig.

Ég kom inn í hans fjölskyldu fyrir um 42 árum þegar ég og Guðrún Hanna dóttir hans fórum að skjóta okkur saman og ekki leið á löngu þar til við Diddi náðum mjög vel saman, en ekki er ég viss um að honum hafi í fyrstu litist vel á þennan gosa sem dóttir hans var komin með upp á arminn.

Hjálpsemi hans var einstök og ég efast um að við hefðum komið upp okkar fyrsta húsi ef ekki hefði komið til hans dugnaður og vinnuframlag. Mér þótti þetta vinnuframlag á þeim tíma stundum ganga fram úr hófi og spurði hann þá einu sinni hvort það væri ég eða hann sem væri að byggja þetta hús? Þá gerði hann nokkuð sem ég sá hann síðar oft gera, hann sló á lær sér og hló eins og enginn væri morgundagurinn.

Virðing mín fyrir þessum manni óx síðan stanslaust gegnum árin. Hann var alltaf fyrstur að hlaupa til ef eitthvað bjátaði á og betra hjartalag hjá einhverjum er sjálfsagt vandfundið.

Ég verð að segja frá því þegar ég gerði hann og hans fjölskyldu alveg kjaftstopp en það var einhvern tímann á fyrstu sambúðarárum okkar Guðrúnar Hönnu en þá í matarboði var boðið upp á ís eftir matinn og þessi nýi tengdasonur sagði „nei takk.“ Það hefði mátt heyra saumnál detta í töluverðan tíma á eftir og var ég farinn að spá í hvað ég hefði gert af mér en gerði mér síðar ljóst að á þessum bæ var barist hart um hverja ísskeið og að einhver hafnaði ís hafði þeim hjónum aldrei dottið í hug að gæti gerst.

Það er stórt skarð hoggið í mitt hjarta eftir fráfall hans en ég veit samt með vissu að vel verður tekið á móti honum í sumarlandinu. Hvíl í friði kæri tengdapabbi.

Þinn tengdasonur,

Runólfur Þór.

Fölskvalaust augnaráðið, fallegt brosið og faðmurinn mikið stór. Smitandi hláturinn með tilheyrandi bakföllum, allir jafnir, allir velkomnir. Styrk var höndin og endalaus þolinmæðin. Allir hans eiginleikar eftirsóknarverðir og yfirbragðið gaf til kynna að hann sigldi öruggur í sína átt. Fortíðin liðin, fjölskyldan í fyrsta sæti, áfram gakk með faðminn opinn og ekkert múður. Ljúfsárt að það hafi verið á þessum degi fyrir 48 árum að við hittumst fyrst. Þar lyfti afi mér í fyrsta skipti. Undir erfiðum kringumstæðum, eflaust, en með opinn faðminn þá og alla tíð síðan. Í dag lyfti ég honum í fyrsta skipti. Undir erfiðum kringumstæðum, vafalaust, en betri fyrirmynd, faðmlög og fararnesti í gegnum lífið er erfitt að hugsa sér.

Afi kenndi mér að elska, faðma og treysta. Þar til ég hitti hann síðast voru grunngildin æfð. Hann kenndi mér líka að fara í kollhnís, hjóla og skíða. Ekkert af þessu reyndist létt. Afastelpan var nefnilega ekki skaplaus. Þolinmæði og þrautseigja afa voru með eindæmum og ófá skiptin sem þau komu í ljós. Til dæmis þegar hann kenndi mér að skíða. Fjölskyldan var ræst snemma að morgni helgi eftir helgi. Amma smurði nesti og afi hlóð bílinn. Brunað í Bláfjöll, dagpassi fyrir alla og upp í brekku. Ég stóð ekki lengi í lappirnar og skemmst frá því að segja að óhemjan orgaði að því marki að aðrir fjölskyldumeðlimir földu sig í brekkunni. Afi stóð hins vegar keikur mér við hlið, hlustaði þolinmóður á hvernig þetta væri allt honum að kenna, hlóð bílinn og keyrði heim. Undir það síðasta vorum það aðeins við tvö sem lögðum í leiðangur. Niðurstaðan sú sama, ævintýrið hófst og endaði fyrir hádegi, nestið borðað heima.

Og svo kom snjallræðið. Nú fórum við í rútu. Dagpassi keyptur, upp í brekku, dottið og heimferð heimtuð. Rólega útskýrði afi fyrir mér að rútan gengi aðeins einu sinni á dag svo nú hefði ég valið um að standa í lappirnar eða liggja í snjónum það sem eftir lifði dags. Lexían lærð.

Ævintýri okkar afa voru þó ekki einskorðuð við skíðamennsku, kollhnísa og hjólaferðir. Hann leiddi mig upp að altarinu, hélt börnunum mínum undir skírn og byggði húsin mín. Kletturinn minn gætti þess að ég kæmist í frí, til náms eða vinnu. Hann minnti mig reglulega á lífsins gildi og þegar honum fannst nóg um fróðleiksfýsnina í námi eða framapotið í starfi birtist hann óvænt og minnti mig á að það þyrfti líka að hugsa um börnin og smyrja nestið fyrir eiginmanninn. Skilaboðin skýr. Fjölskyldan í fyrsta sæti, alltaf. Ef ég ætti að lýsa æviskeiði afa kemur orðið farsæld efst í huga. Hann elskaði okkur öll en engan eins og ömmu. Hjónaband þeirra til 64 ára einfaldlega öðrum til eftirbreytni. Hundrað prósent verkaskipting, eftirréttaskipting og samstaða. Einkunnarorð hans skipulag, heiðarleiki, festa og dugnaður. Mitt fyrsta símtal alla tíð, hvort sem það snerist um lífsins sigra eða ósigra. Á ögurstundum þar sem engin útgönguleið var í sjónmáli, eitt símtal, málið dautt. Afi með mér í liði, þetta verður allt í lagi. Grunngildin voru sannarlega mikilvæg. Lexíurnar sem lærðust á fjöllum ekki síður, enga uppgjöf og áfram gakk. Dálæti mitt á þessum einstaka manni hefur alla tíð verið algert og nú kominn tími til að stelpuskottið standi upp úr snjónum, fjölskyldan í fyrsta sæti, áfram gakk með faðminn opinn og ekkert múður – rétt eins og afi kenndi mér.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þín

Hrefna Lind.

Elsku hjartans afi minn og besti vinur er fallinn frá. Það er erfitt að setjast niður og byrja að skrifa því orðin virðast svo agnarsmá þegar ég hugsa til þess hvaða hlutverki hann hefur gegnt í lífi mínu alla tíð. Á svona stundu horfir maður yfir farinn veg og minningar þjóta í gegnum hugann. Mínar fyrstu æskuminningar eru með afa. Afi var alltaf að, duglegri og þolinmóðari mann var erfitt að finna. Þó mikið væri að gera kom það aldrei í veg fyrir að ég mætti skottast með honum. Þegar hann málaði grindverkið við bílastæðið lét hann mig hafa vatn og pensil og ég fékk að mála bílskúrshurðina. Við áttum margar góðar stundir í gróðurhúsinu á Heiðmörkinni og í Borgarhrauninu og á smíðaverkstæðinu hans var einstaklega gaman að vera. Alls staðar fann hann verkefni við hæfi fyrir litlar hendur. Við afi áttum einstakt samband og þurftum ekki alltaf orð til að skilja hvort annað, augnaráðið, handabandið eða faðmlagið sagði oft allt sem segja þurfti.

Afi var einstakur mannvinur og lét sig alla varða. Hann vissi hvað var í gangi hjá hverjum einasta afkomanda, hvort sem það voru dætur hans, barnabörn eða barnabarnabörn. Hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða og oft á tíðum var hann mættur án þess að hafa verið beðinn að koma, hann vissi hvað stóð til og hvað þyrfti að gera. Honum fannst ákvarðanir hjá mér stundum taka of langan tíma, eins og þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn sagði hann strax: Valgý Arna, þú þarft að finna hlið sem passar fyrir þrepin niður í stofu. Ég fór því að skoða hvað væri í boði þar sem gatið var extra breitt en afa fannst þessar vangaveltur taka allt of langan tíma og mætti einn daginn með heimasmíðað hlið og festi það upp. Þetta var ekki flókið verkefni að hans mati og þurfti að gerast fljótt svo allir væru öruggir.

Afi átti einstakt samband við börnin mín, lék við þau, leyfði þeim að dunda með sér úti í skúr, sýndi þeim golfbílinn og spilaði fótbolta við þau úti í garði fram eftir öllu. Í fótboltanum var ekkert gefið eftir, kastaði sér á eftir boltanum þrátt fyrir að vera að nálgast áttrætt. Börnin ylja sér við þessar minningar í dag.

Það er skrítið að upplifa svona mikla sorg á sama tíma og þakklæti fyrir að afi hafi ekki þurft að glíma lengur við hinn erfiða sjúkdóm sem heilabilun er, en hann greindist fyrir rúmum tveimur árum. Einnig er ég þakklát fyrir að hann hafi ekki þurft að dvelja lengur á spítala, því hann vildi vera hjá ömmu öllum stundum, hún var veröldin hans. Samband ömmu og afa var einstakt, meiri ást og hlýju var erfitt að finna. Alveg fram á síðustu stundu ljómaði afi þegar amma birtist og verður ást þeirra og kærleikur mitt leiðarljós í lífinu.

Ég veit að þú munt vaka yfir ömmu á meðan þú bíður hennar, þangað til munum við passa upp á hana fyrir þig. Elsku hjartans afi minn, mikið er ég þakklát fyrir allar stundirnar með þér og dekurhelgin okkar hlýjar mér um hjartarætur. Takk fyrir allt, ég elska þig.

Þín

Valgý Arna.

Þeim fer fækkandi okkar góðu vinum. Nú síðast hann Diddi vinur okkar sem við höfum þekkt frá því við vorum börn. Við ólumst upp saman í Hveragerði og Diddi og Nonni voru saman í bekk allan barnaskóla, gagnfræðaskóla og iðnskóla. Við Valgý kona hans vorum líka skólasystur og vinkonur alla okkar skólagöngu. Enduðum saman í herbergi í Lindinni á Laugarvatni.

Þau bjuggu alltaf í Hveragerði en við fluttum í bæinn og alltaf var komið við hjá þeim þegar við komum í Hveragerði.

Diddi var sérstaklega hjálpsamur maður, var alltaf kominn til að hjálpa til ef við þurftum og það var ekki sjaldan sem hann var kominn með verkfærin sín ef hann vissi að aðstoðar væri þörf. Honum féll aldrei verk úr hendi, vildi alltaf klára sitt verk sem fyrst og oft hlógum við að honum þegar hann kom á Sunnuhvol, því hann hljóp alltaf út að hliði þegar hann fór. Alltaf nóg að gera hjá Didda.

Margt var brallað á okkar yngri árum, farið saman í útilegur og fleira. Annars var alltaf mikið að gera hjá Didda því hann fór að byggja sér hús ungur að aldri og mátti ekkert vera að því að skemmta sér. Við eignuðumst elstu börnin okkar með þriggja daga millibili svo það má segja að þá hafi alvaran tekið við og hlutirnir breyst, en alltaf sama góða vináttan.

Diddi valdist til forystu á mörgum sviðum. Hann var ásamt pabba sínum yfirsmiður Heilsustofnunar og kirkjunnar, hann var í stjórn golfklúbbs Hveragerðis og fleira.

Ég held að hann hafi verið einn af elstu íbúum Hveragerðis sem hafa búið þar samfleytt eða í 86 ár.

Við samhryggjumst Valgý, dætrum og þeirra fjölskyldum.

Blessuð sé minning Didda.

Inga Dóra og
Jón H. Eggertsson.

„Sæll, það er Diddi.“

Þannig byrjaði símtalið alltaf þegar Diddi hringdi og oftast var honum mikið niðri fyrir. Við Diddi unnum saman í 19 ár á Heilsustofnun, hann sem yfirsmiður, ég sem garðyrkjustjóri. Mikið og gott samstarf var hjá okkur sem aldrei bar skugga á. Það var engin lognmolla kringum hann enda gengu verkin undan honum. Hann sagði okkur stundum sögur af sjálfum sér sem ungum dreng og taldi að hann hefði verið settur á ofvirknilyf hefðu þau verið til í þá daga eins og nú. Honum var mikið skemmt þegar hann sagði frá, hló hátt og skellti sér á lær. Ofvirkni er auðvitað ekkert annað en ofurdugnaður sem þarf að fá útrás. Innan við tvítugt byrjaði hann að byggja sitt eigið íbúðarhús þar sem hann byrjaði búskap með henni Valgý sinni. Samband þeirra var alla tíð mjög ástríkt og samheldið svo eftir var tekið.

Verkin hans Didda má víða sjá. Hann tók þátt í byggingu kirkjunnar í Hveragerði ásamt föður sínum og fleirum, sem hefur sjálfsagt ekki alltaf verið auðvelt með þeirri tækni sem þá var. Á engan er hallað þó ég segi að hann eigi hvað mestan þátt í uppbyggingu golfvallarins í Gufudal. Á þeim árum var hann rokinn af stað með traktor og vagn upp eftir, strax eftir vinnu, setti menn í verkefni og allir tóku til óspilltra málanna. Það var ekkert verið að tvínóna eða hanga fram á skófluna, Diddi var nefnilega búinn að skipuleggja verkin áður en hann mætti. Þessi drifkraftur einkenndi hann alla tíð. Á Hælinu, eins og við sögðum alltaf, tók hann við af Jóni föður sínum sem yfirsmiður og einkenndi vandvirkni öll hans störf. Diddi labbaði aldrei milli húsa, hann hljóp við fót. Þegar von var á steypubílnum og allt var tilbúið hljóp hann alltaf nokkra hringi kringum mótin til að athuga hvort ekki væri örugglega allt eins og það átti að vera. Hann var snyrtimenni, reglusamur, nákvæmur og vanafastur. Góð er sagan af því þegar hann fann ekki bíllyklana. Var margoft búinn að fara í vasann á buxunum og skildi ekkert í þessu, en var svo spurður hvort þeir gætu ekki verið í hinum vasanum. Nei, hann væri ekki vanur að setja þá þar en gáði samt, jú þar voru þeir og hann skildi bara ekkert í þessu. Hvort sagan er sönn er ekki vitað en góð er hún.

Diddi hafði gaman af garðrækt, það sá ég þegar ég kom og klippti stundum hjá þeim limgerðið. Garðurinn var einstaklega vel hirtur eins og allt annað hjá þeim úti og inni. Hann var strax byrjaður að raka eftir klippinguna. Einhverju sinni var hann eitthvað slæmur í baki og spurði Valgý hvort hún gæti hjálpað sér. „Auðvitað hjálpa ég þér Diddi minn,“ svaraði hún. Svona var það á þessum bæ.

Í hartnær 30 ár höfum við hist í byrjun þorra og borðað saman þorramat, við þessir svokölluðu útimenn á Hælinu sem þá unnu saman, píparar, rafvirki, smiðir og garðyrkjumenn. Þetta hafa verið sannkallaðir gleðifundir, sögur sagðar og mikið hlegið. Nokkrar menningar- og fræðsluferðir svokallaðar fórum við og það var nú heldur betur gaman. En nú er skarð fyrir skildi, Diddi, okkar góði félagi, er allur, 86 ára gamall. „Sólskinsdögum síst má gleyma“ orti Jóhannes úr Kötlum. Við sem eftir lifum rifjum upp og þökkum góðar minningar og sögur og skellum okkur á lær.

Hjörtur Benediktsson.

Þögn ríkir, þjóni þér góðar vættir,

þökkum fyrir þín gengnu spor.

Þú komst og alla aðra bættir,

efldir oss vilja, kjark og þor.

Það var á vordögum 1992 að hópur manna kom saman til að undirbúa gerð golfvallar í Gufudal við Hveragerði. Þar fór samhentur hópur af stað í stórt og mikið verkefni. Einn af styrku stoðunum í þessum hópi hefur nú verið kallaður burt til æðri staða. Guðmundur Kr. Jónsson, alltaf kallaður Diddi innan vinahópsins, var ávallt vakandi yfir þeim verkefnum sem hann tók að sér, gekk fram af einurð og einstakri skipulagningu á verkþáttum líðandi stundar. Hann gekk til verka með glettið bros og blik í auga. Að gera upp hrunið fjós og hlöðu og breyta því í golfskála, það var bara verkefni. Ónýtir gluggar, ónýt gólf, ónýtar hurðir, þetta var bara verkefni. Þau voru ófá sporin hans Didda upp í dal til að bæta og laga.

Diddi var kjörinn í stjórn Golfklúbbs Hveragerðis á fyrstu starfsárum hans. Þar fór ábyrgðarfullur maður sem hélt vel á spöðunum; „ekki bruðla með lítil fjárráð klúbbsins, það þarf að skila árinu með góðri niðurstöðu.“

Diddi var jafnan sá er skipulagði verkefnin sem framundan voru. Hann sá um að gera innkaupin og hafa verkfæri tilbúin þegar vinnufúsar hendur mættu á staðinn. Hann var jafnan fremstur í flokki með að koma verkefnum á koppinn og ganga þannig frá að sómi væri að. Alltaf að ganga frá eftir sig og hafa enga lausa enda að dagsverki loknu.

Félagar í Golfklúbbi Hveragerðis gerðu Didda að heiðursfélaga fyrir hans mikla framlag til uppbyggingar golfsins í Gufudal því þar lagði hann mikið af mörkum.

Leiðir okkar Didda lágu saman um miðjan áttunda áratuginn. Þá var hann yfirsmiður á Heilsustofnun NLFÍ, sá um öll innkaup er vörðuðu byggingar og viðhald og kom hann því oft í litlu byggingarvörubúðina í Hveragerði með þeim orðum að ef það er hægt að versla á sama verði í Hveragerði og í „bænum“ þá að sjálfsögu verslar maður í heimabyggð! Vinskapur okkar efldist síðan mjög þegar við vorum báðir komnir í stjórn GHG og þurftum að bera saman bækur okkar um innkaup og verkefni fyrir golfvöllinn og klúbbinn.

Diddi var gjaldkeri klúbbsins á fyrstu árum hans og byggði þann grunn sem ég tel að klúbburinn hafi risið upp af til þess góða félagsskapar sem nú nýtur allra þeirra mörgu verka og ráðlegginga sem Diddi stóð að á fyrstu árum góðs félagsskapar.

Því miður varð Diddi að draga sig frá golfleiknum nú seinni árin en gaman var að vera með honum á púttvellinum í Hamarshöllinni sem því miður er ekki lengur til staðar. Þar kom keppnisskapið og áhuginn fram því ef hann missti af holu kom stórt Aahh með umvöndunarsvip á golfleikinn.

Einstakur félagi er nú burtkallaður og hópurinn í golfinu í Gufudal hefur misst einn af sínum styrku frumkvöðlum. Það er von mín að hann hafi verið þess meðvitaður hvað við félagarnir mátum hann mikils þó það væri ekki hans stíll að upphefja sjálfan sig á neinn hátt, alveg sama hversu miklu hann kom í verk með sinni einstöku framgöngu til orðs og æðis.

Hans verður nú sárt saknað sem góðs vinar og trausts félaga í Golfklúbbi Hveragerðis.

Ég og Dúfa vottum fjölskyldu hans, vinum og venslafólki okkar einlægustu samúð og þökkum um leið þann tíma sem okkur hlotnaðist að hafa hann á veraldarvegi okkar.

Minningin um einstakan dreng lifir áfram í hjörtum okkar.

Kristinn G. Kristjánsson,
fv. formaður GHG.