Íslensk þýðing Fyrirtækið Hetju Myndasögur hefur samtals gefið út og þýtt á íslensku tíu Marvel-bækur.
Íslensk þýðing Fyrirtækið Hetju Myndasögur hefur samtals gefið út og þýtt á íslensku tíu Marvel-bækur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég tel gríðarlega mikilvægt að aðdáendur myndasagna hafi aðgang að góðu efni á íslensku. Ég held að það sé líka mjög gott fyrir yngri lesendur að hafa valkostinn og fjölbreytnina þegar kemur að lesefni, líkt og að geta valið milli Andrésar…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Ég tel gríðarlega mikilvægt að aðdáendur myndasagna hafi aðgang að góðu efni á íslensku. Ég held að það sé líka mjög gott fyrir yngri lesendur að hafa valkostinn og fjölbreytnina þegar kemur að lesefni, líkt og að geta valið milli Andrésar Andar, Tinna, Lukku-Láka og svo að hafa Marvel-myndasögurnar til staðar,“ segir Bjarni Gautur Eydal Tómasson, ritstjóri hjá Hetju Myndasögum, en fyrirtækið hefur frá árinu 2018 þýtt Marvel-myndasögur á íslensku við góðar undirtektir.

Að baki fyrirtækinu standa fimm til sex aðilar að sögn Bjarna, allt ungir Íslendingar sem eru annaðhvort að læra grafíska hönnun eða að læra að verða þýðendur. Þá hafa þeir stundað nám í háskólanum eða í Danmörku og eiga það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á myndasögum.

„Með okkur starfar hópur ungs hugsjónafólks sem vill stuðla að því að börn og aðrir lesendur geti kynnst ævintýraheimi Marvel með því að lesa um hann á íslensku. Við ákváðum líka að gera eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður og erum að gefa út bækurnar í réttri tímaröð,“ segir hann.

Völdu þekktar sögupersónur

Marvel-myndasögur voru fyrst gefnar út árið 1939 og spannar saga þeirra því næstum heila öld. Enn er verið að skapa og skrifa svo margir eiga kannski erfitt með að átta sig á hvernig og hvar á að byrja þegar kemur að því að lesa um Marvel-heiminn. „Hugmyndin kviknaði í raun þannig að okkur langaði að byrja á upphafssögunum. Við reyndum því að velja sögur með persónum sem fólk hafði áhuga á eins og Hulk og Spiderman. Sagan um Hulk er frá árinu 2009 og fjallar um það hvernig Hulk verður til en í Spiderman-bókinni er um að ræða sögu frá 1962 og 1994 um það hvernig Spiderman varð til. Þannig voru sögurnar valdar, við vildum reyna að raða þessu upp eins og Marvel var búið að hugsa hvernig ætti að lesa sögurnar,“ segir Bjarni og bætir við að hver ofurhetja eigi sér um 200 myndasögur og því sé úr nægu að moða. „Ef maður er ekki búinn að gera heimavinnuna þá er mjög erfitt að átta sig á hvar maður á að byrja. Við notuðum því netið og fundum aðra aðila sem höfðu í raun unnið þessa heimavinnu fyrir okkur og reyndum svo að púsla þessu saman.“

Hluti af menningu Íslendinga

Þá hefur fyrirtækið gefið út samtals tíu Marvel-bækur ásamt einni íslenskri bók. „Við gáfum líka út bókina Mola sem er algjörlega upprunaleg saga eftir Óla Hrafn. Hún er svona súrrealísk og öðruvísi myndasaga,“ segir Bjarni og tekur fram að Marvel-heimurinn sé hluti af menningu Íslendinga þar sem flestir þekki sögurnar og persónurnar úr myndunum og bókunum.

„Ég ólst til dæmis upp við það að geta farið í Perluna og keypt mér tímarit en vandamálið var samt sem áður að þetta voru tímarit sem verið var að þýða á þeim tíma og sögur sem var bara verið að gera þannig að þú varst ekki með neinn upphafsreit. Þú þurftir bara að detta inn í einhverja sögu sem mér fannst dálítið erfitt. Ég held að Íslendingar hafi alist upp við það að þekkja þessar persónur og myndirnar eru stór hluti af okkar menningu. Því held ég að það sé mjög gott að geta farið út í búð og gripið þessar sögur og skilið betur hvað persónurnar standa fyrir.“

Sporna við fordómum

Að sögn Bjarna er Marvel þekkt fyrir að hafa myndlíkingarnar þannig að þær sporni við fordómum. „Sögur eins og X-MEN eru myndlíkingar fyrir fordóma og kannski ákveðin leið fyrir samfélagið að spegla sig í en ég held að Marvel geri þetta sérstaklega vel,“ segir hann og bætir við að bókunum hafi verið mjög vel tekið. „Í flestum tilfellum höfum við bara fengið jákvæða gagnrýni frá lesendum.“

En verða gefnar út fleiri Marvel-bækur í íslenskri þýðingu?

„Það eru ekkert allir sem hafa áhuga á að lesa á íslensku, eða bara almennt á að lesa, en eins lengi og fólk kaupir bækurnar þá höldum við áfram,“ svarar Bjarni að lokum.