Jón Þ. Hilmarsson
Jón Þ. Hilmarsson
Dómstólar verða að gæta þess í meðferð dómsmála að sértæk tilvik í einu máli verði ekki algild til skaða.

Jón Þ. Hilmarsson

Hæstiréttur sló tvær slæmar feilnótur með skattadómum árin 2005 og 2015 um meint hlunnindi. Þar með voru teknar úr sambandi tilteknar lagagreinar tekjuskattslaga og rofnaði þar með áralangt samræmi laganna og framkvæmd þeirra. Dómstólar verða að gæta þess í meðferð dómsmála að sértæk tilvik í einu máli verði ekki algild til skaða við úrlausn annarra keimlíkra eða ólíkra mála. Hin neikvæðu áhrif dómanna duldust fáum sem sinna skattskilum og lék ríkisskattstjóri þar stærsta hlutverkið í framkvæmdinni í framhaldinu.

Í skjóli þessa rofs gat ríkisskattstjóri skilgreint að eigin geðþótta og útvíkkað fyrirbrigðið hlunnindi og gengið jafnvel lengra en dómarnir gáfu tilefni til. Ríkisskattstjóri hefur vísað grimmt til feilnótna Hæstaréttar í „rökstuðningi“ sínum við skattlagningu hlunninda þar sem ekki fæst fullur stuðningur að réttum lögum.

Bagalegast var þó í reynd að hluti skattþegna fékk ekki lengur varist með lagatextanum þótt honum hafi ekki verið breytt. Dómarnir ollu ekki óvissu heldur bjuggu til þá vissu fyrir ríkisskattstjóra að hann gæti með fyllstu hörku krafið einstaka skattþegna aukalega um milljónir króna vegna meintra hlunninda. Ríkisskattstjóra og einstökum starfsmönnum hans var gefinn laus taumurinn og afleiðingarnar geta einstakir skattþegnar vitnað um.

Ef einkahlutafélag með einum hluthafa nýtir sannanlega bifreið í þess eigu til helminga á móti eiganda sínum þá er samt enginn afsláttur gefinn af skattlagningu hlunninda eigandans. Í mörgum tilfellum hafa félög selt út akstur bifreiða, sem eru þar með samnýttar, og bifreiðin þannig tekjuaflandi í rekstri félags. Aksturstekjur eru að sjálfsögðu að fullu skattskyldar hjá einkahlutafélögum með 20% tekjuskatti. Eigandi félagsins er hins vegar metinn hafa full hlunnindi af sömu bifreið og er væntanlega skattlagður um að lágmarki 35% af þessum „tekjum“ sínum. Ríkissjóður hefur þannig tvískattað eiganda félagsins sem nemur helmingsafnotum sem hann naut ekki en hann er á sama tíma handhafi skattlagðra aksturstekna félagsins.

Í tilteknum úrskurði ríkisskattstjóra segir:

Ekki er efast um að umrædd bifreið félags gjaldanda hafi verið nýtt í þágu félagsins líkt og fram kemur í svörum gjaldanda og félags hans. Gjaldandi og félag hans þykja ekki hafa sýnt fram á að umráð gjaldanda yfir bifreiðunum hafi verið takmörkuð með einhverjum sannanlegum hætti en framkomnar skýringar um að einkaafnot hefðu í raun verið mjög takmörkuð hefur ekki þýðingu við þá skattlagningu sem hér um ræðir enda verið að skattleggja umráð.

Hér er engin óvissa í boði ríkisskattstjóra, aðeins ýtrasta áþján, í þeirri mynd að allar sannanir og lagarök eru fánýt enda búið að gelda annars viðeigandi lagagreinar. Félag sem er lögskráður eigandi bifreiðar og nýtur tekna af henni telst ekki hafa umráð eða not af bifreiðinni að neinu leyti. Framkvæmd ríkisskattstjóra og viðhorfum til eigin verka er rétt lýst í eigin umsögn hans hér að framan.

Ef eigendur einkahlutafélags eru tveir eða fleiri þá geta þeir gert með sér fullgildan samning um takmörkuð einkaafnot sem sambærilegt félag með einum eiganda getur ekki. Félag með einn hluthafa í samkeppni við félög með fleiri en einn hluthafa situr ekki við sama borð hvað þetta viðfangsefni snertir.

Það er einnig athyglisvert að samkvæmt hlunnindareglum ríkisskattstjóra er hægt að leggja á hlunnindi af einni eða fleiri bifreiðum eða þannig séð óendanlegum fjölda.

Í mjög nýlegum úrskurði ríkisskattstjóra fellur einyrki eigandi félags á því að játa akstur milli heimilis og vinnustaðar til að verja bifreið félagsins spjöllum en vegalengdin er 50 metrar, annað ekki. Verðmiðinn á þessum metrum er eigandanum á eftirlaunum fimm milljónir í viðbótartekjuskattsstofn, jafnvel þótt hann ætti nýrri bifreið til einkanota allan tímann.

Því hefur í raun verið svo fyrir komið að ríkisskattstjóra hefur verið falið síðasta úrskurðarvald um hlunnindi, í raun alvald, og skálkaskjólið er eitt gallað dómafordæmi og lögin aukaatriði. Réttaröryggið er eftirlátið ríkisskattstjóra, yfirskattnefnd er ófær um að beita gagnrýninni hugsun og dómstólar ekki ýkja áhugasamir um skattalegt réttlæti. Úrslit málsins liggja því í raun fyrir áður en það byrjaði enda hafa lögin verið sundur slitin.

Ef allt þetta er ekki þríeinn siðferðilegur slappleiki þá er hann trúlega ekki til.

Höfundur er endurskoðandi.