Sigursæl Ásdís Karen Halldórsdóttir kveður Val eftir þrjá meistaratitla í röð en hún hefur skorað 30 mörk í 139 leikjum fyrir Val og KR í efstu deild.
Sigursæl Ásdís Karen Halldórsdóttir kveður Val eftir þrjá meistaratitla í röð en hún hefur skorað 30 mörk í 139 leikjum fyrir Val og KR í efstu deild. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnukonan Ásdís Karen Halldórsdóttir samdi á dögunum við norska úrvalsdeildarfélagið Lilleström. Hún hefur verið í stóru hlutverki hjá Val, sem er Íslandsmeistari síðustu þriggja ára. „Ég er með umboðsmann og hann fékk fyrirspurnir um mig

Noregur

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Knattspyrnukonan Ásdís Karen Halldórsdóttir samdi á dögunum við norska úrvalsdeildarfélagið Lilleström. Hún hefur verið í stóru hlutverki hjá Val, sem er Íslandsmeistari síðustu þriggja ára.

„Ég er með umboðsmann og hann fékk fyrirspurnir um mig. Við skoðuðum hvað var í boði og ég ræddi við einhver félög. Það var áhugi frá nokkrum stöðum og mér fannst þetta mjög spennandi um leið og þetta kom upp. Eftir nokkur samtöl við þjálfarann og íþróttastjórann fékk ég á tilfinninguna að þetta væri rétta skrefið,“ sagði Ásdís um félagaskiptin við Morgunblaðið.

Ásdís, sem er 24 ára gömul, er uppalin hjá KR og hefur leikið hér á landi allan ferilinn, ásamt því að leika tvo vetur í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hún kom heim þaðan árið 2020 og var markmiðið ávallt að spila vel á Íslandi og halda síðan í atvinnumennsku.

„Ég er búin að vera hugsa um þetta í svolítinn tíma. Ég fór út til Bandaríkjanna í háskólaboltann árið 2018 og kom aftur heim árið 2020. Þá var markmiðið að koma heim, spila vel og fara síðan út í atvinnumennsku.

Þetta hefur verið draumur hjá mér frá því ég var lítil. Ég er að uppfylla drauminn með þessu og líka að prófa eitthvað nýtt. Mig langar líka að gera þetta 100 prósent. Til þess er maður í þessu. Mér finnst ég eiga meira inni og ég ætla að leggja allt í þetta,“ sagði Ásdís ákveðin.

Margt sem heillaði

Lilleström hafnaði í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og var aðeins fjórum stigum á eftir meisturum Vålerenga þegar upp var staðið. Ásdís vill berjast um titla hjá nýja félaginu, en á sama tíma verða betri leikmaður.

„Þetta er eitt sigursælasta liðið í Noregi. Þær eru búnar að vinna deildina sjö sinnum og þetta er lið með góða sögu. Að sama skapi er þetta félag sem þróar leikmenn. Það fær til sín unga og efnilega leikmenn og gerir þá betri. Það snýst ekki allt um að bara vinna titilinn þarna. Ég get séð þetta félag þróa mig sem leikmann og ég get orðið betri þarna og verið í titilbaráttu á sama tíma. Ég vildi fara í lið sem er að berjast um titla. Það er mjög heillandi að vera í toppbaráttu, frekar en að fara í leiki og sjá hvað gerist,“ sagði hún.

Mjög faglegt umhverfi

André Bergdølmo, sem lék á sínum tíma 63 landsleiki fyrir karlalið Noregs, er þjálfari Lilleström. Ásdísi líst vel á nýja þjálfarann sinn og umhverfið hjá Lilleström.

„Mér leist mjög vel á þjálfarann þegar ég ræddi við hann. Hann tók við fyrir síðasta tímabil og var valinn þjálfari ársins og er gamall norskur landsliðsmaður. Það var margt sem heillaði við þetta félag og svo er umhverfið mjög faglegt. Svo er þetta í Osló og það heillaði líka,“ sagði hún.

Betri samningur en hjá Val

Ásdís fékk þriggja ára samningstilboð en eftir að hún ráðfærði sig við umboðsmanninn sinn var tekin ákvörðun um að stytta samninginn um eitt ár og semja til tveggja ára.

„Ég horfi svolítið á þetta þannig að ég vil fara út, standa mig vel og sjá hvað gerist. Ég tók þessa ákvörðun í samráði við umboðsmanninn. Ef þau eru ánægð með mig og ég vil vera lengur þá verður samningurinn framlengdur. Ef staðan er önnur er auðveldara að fara ef samningurinn er til tveggja ára,“ útskýrði hún.

Ásdís viðurkenndi að hún væri komin á betri samning hjá Lilleström en hún var á hjá Val. Þá heillar tilhugsunin um að geta einbeitt sér alfarið að fótboltanum, en hún flytur ein til Noregs.

„Ég var svo sem ekki komin langt í samningsviðræðunum við Val svo ég veit ekki alveg hvað mér hefði verið boðið þar. En peningurinn er ekki stóra ástæðan fyrir félagaskiptunum. Ég vildi taka næsta skref á ferlinum, en það er svolítill munur.

Það eru náttúrulega allir atvinnumenn hjá svona félagi og maður fær uppihald, húsnæði og það er allt til alls ofan á fínan samning. Ég mun búa ein, eins og ég vildi, því það auðveldar að fá heimsóknir. Ég er með kærasta, sem flytur reyndar ekki með mér, en það verður léttara að fá hann í heimsókn þegar ég bý ein,“ sagði Ásdís.

Minna menningarsjokk

Ásdís er eilítið stressuð en einnig spennt að standa á eigin fótum erlendis, en hún fékk slíka reynslu þegar hún var í skóla í Texas. Hún á ekki von á lífið í Osló verði mjög frábrugðið því á Íslandi, ólíkt því sem hún kynntist vestanhafs.

„Það er smá stressandi en ég held að ég sé miklu betur undirbúin fyrir það núna en ég var þegar ég fór til Bandaríkjanna. Þá var ég bara 18 ára. Noregur er líka miklu líkari Íslandi og verður mun minna menningarsjokk en Suðurríkin í Bandaríkjunum. Þetta var alveg smá sjokk. Umhverfið og svo að upplifa hvernig fólk hugsar þarna. Það er allt öðruvísi en á Íslandi. Ég sé samt alls ekki eftir því, því þetta var geggjuð upplifun,“ sagði hún.

Hugsa aðeins um landsliðið

Ásdís hefur haft nóg að gera á Íslandi, því hún hefur verið í þungu háskólanámi meðfram fótboltanum, en fær nú meiri tíma til að sinna íþróttinni sinni.

„Þetta verða samt ákveðin viðbrigði því ég er búin að vera í skóla heima og ég verð ekki lengur að mæta í skólann. Nú æfir maður fyrri partinn, fær endurheimt og svo er matur og síðan fer maður heim. Álagið ætti að vera mun minna.“

Ásdís Karen er með einn skráðan A-landsleik hjá KSÍ, með B-landsliðinu gegn Eistlandi sumarið 2022, en hún lék á sínum tíma 31 leik fyrir yngri landsliðin. Ásdís hefur verið í hópi A-landsliðsins en á enn eftir að leika sinn fyrsta alvörulandsleik.

„Auðvitað er ég aðeins að hugsa um landsliðið með að fara út. Ég er samt fyrst og fremst að fara út með það í huga að standa mig vel og svo kemur hitt vonandi með. Ég get ekki verið að hugsa of mikið um það samt, en auðvitað vil ég vera í landsliðinu eins og allar knattspyrnukonur. Það yrði mikill plús ef ég myndi fá að spila með landsliðinu,“ sagði Ásdís Karen.

Erfitt að fylgjast með KR

Ásdís er uppalin hjá KR, en hefur síðustu þrjú ár orðið Íslandsmeistari með erkifjendunum í Val.

„Maður er auðvitað Valsari þegar maður er í Val en þegar maður er uppalinn einhvers staðar fer það aldrei alveg úr manni,“ sagði Ásdís og hélt áfram:

„Það er samt erfitt að tala um þetta, því það er svo mikill rígur þarna á milli. Ég tengdist Val mjög sterkum böndum núna, enda búin að kynnast mörgu mögnuðu fólki. Ég hef elskað að vera þarna og það er ótrúlega gott að vera í Val og ég er þakklát fyrir minn tíma þar,“ sagði hún.

Frá því að Ásdís yfirgaf Vesturbæjarfélagið hefur gengið ekki verið upp á marga fiska. Botninum var náð í ár þegar liðið féll annað árið í röð og leikur því í 2. deild á næstu leiktíð.

„Auðvitað er það erfitt að fylgjast með þessu. Ég fór í Val frá KR árið 2018 og ég hef alltaf vonast til að KR gengi vel. Ég skipti því ég vildi taka næsta skref og vera á toppnum hjá félagi eins og Val.

Ég vona innilega að kvennafótboltinn hjá KR, sem er mér næstur, fari að ná sér á strik. Ég hef líka trú á því. Það er komið gott fólk í þetta núna. Pálmi (Rafn Pálmason) er búinn að taka við og ég hef trú á því verkefni. Vonandi sjáum við KR aftur í efstu deild eftir tvö ár,“ sagði Ásdís Karen.