Slater Verslunin, saumastofan og skrifstofan eru á 165 Howard Street.
Slater Verslunin, saumastofan og skrifstofan eru á 165 Howard Street. — Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfsmenn skosku Herrafataverslunarinnar Slater hafa haldið upp á 50 ára afmælisár hennar í ár. Verslunin hefur alltaf verið í sömu byggingunni í miðbæ Glasgow, er á öllum hæðum utan jarðhæðar og auk þess eru 26 aðrar verslanir í Bretlandi

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Starfsmenn skosku Herrafataverslunarinnar Slater hafa haldið upp á 50 ára afmælisár hennar í ár. Verslunin hefur alltaf verið í sömu byggingunni í miðbæ Glasgow, er á öllum hæðum utan jarðhæðar og auk þess eru 26 aðrar verslanir í Bretlandi. Hún komst fljótlega í heimsmetabók Guinness sem stærsta herrafataverslun í heimi. „Íslendingar eru langfjölmennastir erlendra viðskiptavina okkar frá byrjun,“ segir George Ferguson framkvæmdastjóri.

Ralph Slater hóf reksturinn snemma árs 1973 en Paul, sonur hans, tók við eftir fráfall hans 1997. Fyrstu árin var verslunin eins og vörulager. Alla tíð hefur verið lögð áhersla á hagstætt verð og veldið verið byggt upp jafnt og þétt með öflugu starfsfólki. Þar á meðal nokkrum Íslendingum.

Gréta Strange, sem bjó með George Hunter Young, breskum eiginmanni sínum, og tveimur börnum þeirra skammt frá Glasgow, vann í Slater 1990 til 1993, en áður hafði hún meðal annars starfað í tískufataversluninni Karnabæ/Bonaparte í Reykjavík í mörg ár. Íslenskir háskólanemar unnu hjá Slater um helgar á undan henni og síðar. „Þegar ég sá í auglýsingu að starfsmann vantaði á laugardögum stökk ég til og sótti um, því vinnutíminn hentaði mér vel, verandi með tvo grislinga heima,“ segir Gréta. Þegar ekkert bólaði á svari hafi hún mætt á staðinn til að forvitnast um stöðuna. „Á meðan ég beið eftir manninum, sem sá um ráðningar, gekk virðulegur eldri maður framhjá mér og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Ég sagði honum sem var að ég væri að leita mér að vinnu, hefði sótt um enda með reynslu, en ekki fengið svar. Vildi vita hvort ég fengi starfið áður en ég leitaði annað. Í því kom maðurinn sem ég beið eftir. Virðulegi herrann, sem reyndist vera eigandinn, sagði hinum að ráða mig og þetta gekk því fljótt og vel fyrir sig.“

Verslunarferðir og Gréta

Ferðaskrifstofur á Íslandi auglýstu sérstakar verslunarferðir til Glasgow, þar sem bent var á gott verð hjá Slater, og landsmenn létu ekki segja sér það tvisvar. Þeir komu ekki að tómum kofunum og Gréta sá til þess að þeir færu klyfjaðir út úr búðinni. „Ég byrjaði á laugardögum en mátti auk þess mæta þegar ég vildi og ekki leið á löngu þar til ég var alltaf í vinnunni daginn eftir flug frá Íslandi.“

Þegar byrjað var að bjóða upp á pakkaferðir frá Íslandi til Edinborgar var skoðunarferð í Slater í pakkanum í samvinnu við verslunina. „Snemma morguns sendi Slater rútu á hótelin, þar sem Íslendingarnir bjuggu, og þegar hún kom til okkar tók ég á móti þeim, var svo til taks í búðinni og kvaddi þá, þegar rútan kom til að sækja þá klukkan fimm.“ Hún leggur áherslu á að enginn hafi þurft að fara tómhentur heim. „Þarna var og er allt til alls og við vorum til dæmis með 33.000 jakkaföt á lager.“ Oft hafi konur verið einar á ferð til að kaupa föt fyrir eiginmanninn. Þá hafi þær bara bent á einhvern starfsmann sem líktist manninum og jafnvel fengið hann til að máta.

Enn þann dag í dag er Íslendingum gjarnan heilsað á íslensku og Quality Street-konfekt er áfram í boði á hverju borði. „Molarnir voru hugsaðir fyrir konurnar á meðan karlarnir mátuðu fötin,“ segir Gréta. „Ég kenndi starfsmönnum nokkur orð og þeir notuðu þau óspart, buðu góðan daginn á íslensku og spurðu svo brosandi: Jakkaföt, buxur, skyrtur?“ Stöðugt hafi verið kallað á sig í hátalarakerfinu til að aðstoða hér og þar. „Ég sagði við Ralph Slater að ég þyrfti að vera á hjólaskautum.“ Gott og skemmtilegt hafi verið að vinna hjá fyrirtækinu. Um 80% kúnna hennar hafi verið Íslendingar og hún hafi ekki aðeins staðið vaktina í búðinni heldur séð um pantanir frá Íslandi. „Slater sendi mig til Íslands til að kynna fyrirtækið og ég fann vel að störf mín voru vel metin, nema kannski hjá fataverslunum á Íslandi!“