Gasa Svartur reykjarmökkur eftir sprengjuárásir lá yfir norðurhluta Gasasvæðisins í gær, en einnig voru hörð átök í suðri í Khan Younis og Rafah.
Gasa Svartur reykjarmökkur eftir sprengjuárásir lá yfir norðurhluta Gasasvæðisins í gær, en einnig voru hörð átök í suðri í Khan Younis og Rafah. — AFP/Jack Guez
Ekkert lát er á átökunum á Gasasvæðinu og talsmenn ísraelskra stjórnvalda segja að þau geti staðið í marga mánuði. Mannfall eykst stöðugt og heilbrigðisráðuneyti hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasa sagði í gær að tala látinna væri komin yfir 21 þúsund og þar af hafi 195 látist frá öðrum degi jóla

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Ekkert lát er á átökunum á Gasasvæðinu og talsmenn ísraelskra stjórnvalda segja að þau geti staðið í marga mánuði. Mannfall eykst stöðugt og heilbrigðisráðuneyti hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasa sagði í gær að tala látinna væri komin yfir 21 þúsund og þar af hafi 195 látist frá öðrum degi jóla. Talsmenn Ísraelshers segja að tala fallinna hermanna sé nú 164.

Mahmud Abbas forseti Palestínumanna sagði í egypska ríkissjónvarpinu í gær að stríðið nú væri mun verra en stríðið 1948, en þá réðust nokkur Arabaríki inn í nýstofnað Ísraelsríki og 760 þúsund Palestínumenn flúðu eða voru reknir frá heimilum sínum í framhaldinu. Sagði Abbas að Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels ætlaði að „losna við Palestínumenn og palestínsk stjórnvöld“.

Undir það tók forseti Tyrklands í gær og sagði engan mun á gjörðum Netanjahús og Hitlers nema að sá fyrrnefndi væri ríkari. „Allur stuðningur kemur frá Vesturlöndum og Bandaríkjunum.“

Net- og símasamband komst í lag í gær eftir að hafa verið skert á þriðjudag á mið- og suðurhluta Gasasvæðisins, en mannréttindasamtökin Human Rights Watch vara við að síendurteknar truflanir á fjarskiptum séu notaðar sem skjól fyrir grimmdarverk.

Íslamska byltingarvarðliðið í Íran sagði í gær að drápsins á Razi Moussavi, yfirmanni hersins sem féll á jóladag í flugskeytaárás Ísraela nærri höfuðborg Sýrlands, yrði hefnt.

Umdeild auglýsing um „hús á ströndinni“ á Gasasvæðinu hefur vakið mikla reiði meðal Palestínumanna, en vakið von meðal Ísraela sem yfirgáfu svæðið 2005. Auglýsingin er á vegum byggingarfélags sem þekkt er fyrir að reisa heilu hverfin í hvelli í trássi við vilja ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum. Forstjórinn kom fram í ísraelsku sjónvarpi í gær þegar stuðningsmenn Palestínu lýstu hneykslun á því að ætlunin væri að byggja á rústum heimila þeirra.

Í gær handtók ísraelska lögreglan mann sem grunaður er um að hafa vanhelgað grafreit múslíma í austurhluta Jerúsalem með því að hengja upp haus af asna í garðinum.