Ankara Utanríkismálanefnd Tyrkja samþykkti aðild Svía á þriðjudag.
Ankara Utanríkismálanefnd Tyrkja samþykkti aðild Svía á þriðjudag. — AFP/Adem Altan
Ekki er búist við að tyrkneska þingið haldi allsherjaratkvæðagreiðslu um aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu, NATO, fyrir 15. janúar þegar þing kemur saman, að því er heimildarmenn þingsins sögðu við AFP-fréttastofuna í gær

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Ekki er búist við að tyrkneska þingið haldi allsherjaratkvæðagreiðslu um aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu, NATO, fyrir 15. janúar þegar þing kemur saman, að því er heimildarmenn þingsins sögðu við AFP-fréttastofuna í gær.

Utanríkismálanefnd Tyrklandsþings samþykkti á þriðjudag aðild Svíþjóðar og batt þar með enda á 19 mánaða pattstöðu sem hefur valdið mikilli ólgu innan bandalagsins. Umsóknin fer nú fyrir allt þingið, sem telur 600 þingmenn, og Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands skrifar í framhaldinu undir hana.

Svíþjóð ásamt Finnlandi sóttist eftir aðild að NATO eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022. Tyrkland og Ungverjaland voru einu NATO-ríkin sem lögðust gegn umsóknum þeirra. Tyrkland samþykkti að lokum aðild Finnlands en hélt áfram að saka Svíþjóð um að hafa ekki upprætt hópa Kúrda í útlegð í Svíþjóð sem Tyrkir segja hryðjuverkamenn. Svíar brugðust við þrýstingi Tyrkja með hertri löggjöf gegn hryðjuverkum, en Erdogan setti Bandaríkjunum einnig skilyrði um samþykki á beiðni um 40 F-16-þotur og varahluti sem var samþykkt en var þó afar umdeilt í þinginu.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir