Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Ekki er búist við að tyrkneska þingið haldi allsherjaratkvæðagreiðslu um aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu, NATO, fyrir 15. janúar þegar þing kemur saman, að því er heimildarmenn þingsins sögðu við AFP-fréttastofuna í gær.
Utanríkismálanefnd Tyrklandsþings samþykkti á þriðjudag aðild Svíþjóðar og batt þar með enda á 19 mánaða pattstöðu sem hefur valdið mikilli ólgu innan bandalagsins. Umsóknin fer nú fyrir allt þingið, sem telur 600 þingmenn, og Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands skrifar í framhaldinu undir hana.
Svíþjóð ásamt Finnlandi sóttist eftir aðild að NATO eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022. Tyrkland og Ungverjaland voru einu NATO-ríkin sem lögðust gegn umsóknum þeirra. Tyrkland samþykkti að lokum aðild Finnlands en hélt áfram að saka Svíþjóð um að hafa ekki upprætt hópa Kúrda í útlegð í Svíþjóð sem Tyrkir segja hryðjuverkamenn. Svíar brugðust við þrýstingi Tyrkja með hertri löggjöf gegn hryðjuverkum, en Erdogan setti Bandaríkjunum einnig skilyrði um samþykki á beiðni um 40 F-16-þotur og varahluti sem var samþykkt en var þó afar umdeilt í þinginu.