Hlín Árnadóttir fimleikaþjálfari fæddist í Miðtúni í Reykjavík 15. ágúst 1945. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 17. desember 2023. Foreldrar Hlínar voru þau Árni Ingvi Einarsson framkvæmdastjóri Reykjalundar, f. 17. jan. 1907, d. 5. apríl 1979 og Hlín Ingólfsdóttir húsfreyja, f. 22. okt. 1909, d. 8. nóv. 1993.

Systkini Hlínar eru: 1) Auður Árnadóttir, f. 26. júní 1936, d. 13. okt. 2010, 2) Svala Árnadóttir, f. 1. des. 1939, d. 29. sept. 2017, 3) Ingólfur Árnason, f. 7. jan. 1942, 4) Einar Árnason, f. 26. júní 1948 og 5) Páll Árnason, f. 18. júní 1951.

Hlín giftist Katli Oddssyni 25. júní 1966. Fyrstu árin bjuggu þau í Mosfellsbæ og í Hafnarfirði. Árið 1972 fluttust þau í Heiðarlund 4 í Garðabæ þar sem þau bjuggu alla tíð. Ketill fæddist 20. jan. 1941. Foreldrar hans voru þau Oddur Ólafsson, læknir og alþingismaður, f. 26. apríl 1909, d. 19. jan. 1990 og Ragnheiður Jóhannesdóttir Lynge, hárgreiðslukona og húsfreyja, f. 6. sept. 1911, d. 23. feb. 1996.

Börn Hlínar og Ketils eru: 1) Ólafur Ketilsson, f. 28 des. 1966, maki Melissa Guðlaug Haire, börn þeirra eru Egill Gauti og Salka Mist, fyrir á Ólafur Steinunni Jordan, börn hennar eru Korbin, Keanan og Kenadee. 2) Auður Ketilsdóttir, f. 19 júní 1968, maki Sævar V. Úlfarsson, dætur þeirra eru Freyja og Katla. 3) Steinunn Ketilsdóttir, f. 30. júlí 1977, maki Friðrik Freyr Flosason, dóttir þeirra er Halldóra Hlín, fyrir á Friðrik Pétur Eyfjörð. 4) Ketill Árni Ketilsson, f. 25. mars 1979, maki Harpa Lind Hrafnsdóttir, börn þeirra eru Ketill Orri og Guðrún Embla. 5) Hildur Ketilsdóttir, f. 14. maí 1981, maki Ólafur Arnar Ottósson.

Hlín ólst upp á Reykjalundi og gekk í Brúarlandsskóla í Mosfellsbæ og Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Hún fór til Danmerkur til náms fyrst í lýðháskóla og síðan í íþróttaskólann við Sönderborg. Vorið 1965 lauk hún prófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og starfaði sem íþróttakennari við Brúarlandsskóla og Öldutúnsskóla. Hún hóf störf hjá Fimleikafélaginu Björk 1970 og starfaði þar nær óslitið til ársins 2018. Hlín var mikill frumkvöðull og tók stóran þátt í að byggja upp fimleika á Íslandi.

Hlín greindist með Lewy Body-sjúkdóminn í byrjun árs 2019. Útför Hlínar fer fram 29. desember 2023 kl. 13 frá Víðistaðakirkju Hafnarf. Streymi:
https://www.netkynning.is/hlin-arnadottir

Elsku tengdamamma og amma er nú fallin frá eftir erfið veikindi og vonandi er hún nú hvíldinni fegin.

Ég kynntist Hlín fyrir rúmum 20 árum og man hvað ég hugsaði að hún ætti örugglega eftir að vera langlíf, alltaf svo ótrúlega dugleg. Búin að eignast fimm börn, aðalfimleikakennari Hafnarfjarðar og örugglega hálfgerð amma allra stúlkna í Björkunum. Svo var hún líka svo heilsusamleg. Á borðum með matnum var salat og grænmeti í öll mál sem kom bæði úr garðinum og gróðurhúsinu hjá Katli, mér til mikillar undrunar því ég var vön dósamat með lambalærinu.

En því miður gat Hlín ekki komið í veg fyrir þennan hræðilega sjúkdóm sem Lewy Body er með mataræði og hreyfingu. Þau fjögur ár sem hún var veik þá var hún algjör hetja enda sá mesti nagli sem ég hef hitt. Alltaf fyrst á fætur, byrjuð að græja og gera og síðust að sofa. Kannski hefði hún þurft að hvíla sig meira í lífinu.

En eftir situr svo mikið þakklæti, þakklæti fyrir alla þá hjálp sem hún veitti okkur hvort sem var með framkvæmdir á heimilinu en þó sérstaklega með börnin okkar. Þeim fannst hvergi betra að vera en hjá ömmu í pössun og Heiðarlundur stóð þeim ávallt opinn og þar voru þau umvafin kærleika og hlýju. Hlín var einstaklega góð með börn, hún var svona amma sem settist á gólfið með þeim og lék sér við þau. Alltaf átti hún góð ráð fyrir mig sem reynslulausa móður en gætti þess alltaf að leiðbeina okkur nýbökuðum foreldrum með nærgætni og mildi.

Hlín á stóran þátt í því hversu börnin mín eru vel heppnuð. Þau eru bæði einstaklega umhyggjusöm og dugleg og áhrif hennar fannst mér endurspeglast í kortaskrifum dóttur minnar til ömmu sinnar í fermingarfræðslu þar sem hún skrifaði: „Þú ert svo hugulsöm, falleg og skemmtileg. Ég er svo þakklát fyrir þig.“

Takk elsku Hlín fyrir að passa svona vel upp á börnin mín, ég trúi að þú munir halda áfram að vaka yfir þeim. Góða ferð í sumarlandið, þú er sjálfsagt komin í faðm systra þinna. Kysstu mömmu frá mér ef þú hittir hana.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Knús og kossar, þín tengdadóttir,

Harpa Lind.

Það var erfitt að heyra að elskuleg frænka mín og nafna væri látin. En um leið fann ég fyrir þakklæti fyrir að hafa þekkt þig og vita að þú ert frjáls frá fjötrum veikindanna.

Það er mér mikil gæfa að hafa umgengist og notið samverustunda með þér, elsku frænka mín, gæfa, góðmennska, dugnaður og hlýja var það sem einkenndi þig. Eftir að amma dó tókst þú það upp eftir henni að kalla mig nöfnu og sýndir stórt hjarta sem veitti mýkt þegar við hittumst fram á síðustu stundu. Það voru margar góðar stundir sem stórfjölskyldan átti saman, m.a. í Húsafelli þar sem þú hoppaðir og skoppaðir um með okkur krökkunum eins og enginn væri morgundagurinn. Þið pabbi voruð mjög náin systkin alla ævi. Eins og þú sagðir: „Það kom oft fyrir að hann stríddi en samt gat ég ekki verið óvinur stóra bróður míns, sem var einstakur.“

Ég mun minnast þín elsku nafna með virðingu, þökk og söknuði í hjarta, hvíl þú í friði.

Ég þakka allt frá okkar fyrstu kynnum

það yrði margt, ef telja skyldi það.

Í lífsins bók það lifir samt í minnum

er letrað skýrt á eitthvert hennar blað.

Ég fann í þínu heita stóra hjarta

þá helstu tryggð og vináttunnar ljós.

Er gerir jafnvel dimma vetur bjarta

úr dufti lætur spretta lífsins rós.

(Margrét Jónsdóttir)

Elsku Ketill, Óli, Auður, Steinunn, Ketill Árni, Hildur og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, megi minning um einstaka konu lifa í hjörtum okkar.

Pabbi og mamma, Ingi og Krissa senda hjartans kveðjur og þakklæti til þín og fjölskyldunnar.

Kærleikskveðja,

Hlín Ingólfsdóttir.

Með söknuði og þakklæti kveðjum við elsku Hlín mágkonu og vinkonu okkar. Hlín var leikfélagi Ólafs frá barnæsku. Þau ólust upp hlið við hlið á hlaðinu hjá Vinnuheimili berklasjúkra á Reykjalundi. Mikill samgangur og kærleikur var milli heimilanna. Hlín var ástríðufullur fimleikaþjálfari og fimleikadómari. Hún var mjög fær kennari og leiðbeinandi og umhyggjusöm við fólkið sitt. Heimilið í Heiðarlundinum var hlýtt og opið. Við grínuðumst með að það væri ein aðalfélagsmálastofnun Garðabæjar þegar flestir voru þar samankomnir. Hún var einörð og fylgin sér, en yfirveguð og róleg. Fólki leið vel í návist hennar. Óteljandi samverustundir, heimsóknir og móttökur eru þakkaðar, samvera á sumrin í Kaldbaksvík, Borgarfirði eða Vopnafirði og öll jólaböllin. Allar ljúfu minningarnar verma og eiga þátt í þeirri gæfu að geta horfið á lendur hugans þar sem Hlín er glæsileg og hraust og allt leikur í lyndi. Þannig minnumst við okkar kæru vinkonu. Innilegar samúðarkveðjur til Ketils, barnanna og fjölskyldna þeirra og allra sem elskuðu Hlín og sakna hennar.

Blessuð sé minning Hlínar Árnadóttur.

Ólafur og Kristín.

Elsku Hlín fimleikamamma mín.

Þegar við Steinunn kynntumst sjö ára í Hofsstaðaskóla eignaðist ég ekki bara góða vinkonu heldur fékk ég að kynnast þér og ykkur öllum í Heiðarlundinum. Þú umvafðir okkur hlýju og gafst okkur tækifæri á að skapa og vera frjálsar í dansi og leik ásamt því að vera með reglu og festu. Það var gott að hafa fimleikaþjálfara sem var strangur en samt svo hlý og góð og til staðar bæði í sigrum og tapi. Fyrir utan fimleikana var Heiðarlundurinn athvarf þar sem var gott að vera og spjalla í eldhúsinu. Við Steinunn fengum tækifæri til að dansa og setja saman tónlist í stofunni þar sem við færðum til húsgögn til að hafa nóg pláss. Þú veittir okkur tækifæri til að sýna það sem við skópum á sýningu Bjarkanna, 17. júní, skólaskemmtunum og fleiri stöðum og það var mikils virði.

Takk fyrir okkar samveru í lífinu.

Þín verður sárt saknað.

Ragnheiður Þórdís Ragnarsdóttir.

Hún Hlín var góð manneskja. Eiginkona eins af mínum bestu vinum. Barnsmóðir hans. Húsfreyja hans. Ástkona hans. Félagi hans.

Ungir héldum við brott af heimaslóðum. Brott frá foreldraumhverfi. Brott frá æskuslóðum. Aðeins 15 til 16 ára gamlir. Brott til gerólíks umhverfis þar sem við saman tókum hver við öðrum. Vinir. Félagar. Þar sem við tókum við uppeldishlutverki hver með öðrum og hver fyrir annan. Mynduðum tengsl, sem aldrei slitna. Bjuggum til minningar, sem aldrei fyrnast. Eignuðumst félaga, sem aldrei glatast. Jafnvel þótt hver og einn haldi sinn æviveg, sem er gerólíkur við unglingsárin. Þegar við áttum við sameiginlega vegferð, sameiginlega lífsreynslu og við sameiginleg vandamál að etja.

Svo tók sjálft lífið við. Þar sem hver og einn fetar sinn veg. Stofnar sitt eigið heimili. Velur sér sinn lífsförunaut. Myndar sína eigin fjölskyldu. Sín eigin tengslanet. Sinn eigin samtíma. Sinn eigin samfaranaut í lífinu. Vinur minn Ketill hana Hlíf sína. Vinur minn Guðmundur Karl Jónsson hana Rannveigu sína. Vinur minn Sigurður Karl Sigurkarlsson hana Svölu sína. Og hverju breytti það? Engu. Söm var nándin. Söm er vináttan. Söm er væntumþykjan nema hvað nýir vinir hafa bæst við. Vinir, sem við verjum. Vinir, sem okkur verja. Vinir, sem skilja okkur marga eina eftir. Eina – með okkur hinum.

Hlín vil ég þakka. Margar heimsóknir til hennar til þess að virða vinskap okkar Ketils. Margar samverustundir með henni þakka ég. Guð blessi þig.

Sighvatur Björgvinsson.

Ég var snemma, rétt sex ára gömul, orðin hálfgerður heimalningur í Heiðarlundinum. Ég man hvað mér fannst Hildur heppin að eiga mömmu sem var alltaf heima þegar við komum heim úr skólanum. Þegar þangað var komið var oftast setið í eldhúsinu og spjallað um daginn og veginn. Iðulega á meðan Hlín braut saman þvottinn. Ég fékk það snemma á tilfinninguna að þessi stóra fjölskylda í Heiðarlundinum væri eitthvað sem ég vildi tilheyra og þar var Hlín hjartað og sálin í öllu.

Eins og gefur að skilja voru fimleikar mikið til umræðu á heimilinu og systurnar oft að gera æfingar í stofunni undir handleiðslu Hlínar. Í minningunni var Heiðarlundurinn eins og umferðarmiðstöð fyrir vini og kunningja systkinanna. Húsið iðaði af lífi og unga fólkið sóttist í það að hafa Hlín með í því sem það tók sér fyrir hendur. Hún einfaldlega breiddi út faðminn fyrir okkur heimalningana og varð sjálfkrafa ein af hópnum. Alltaf stóð heimili hennar opið fyrir alla sem þangað vildu sækja. Þegar ég hugsa til baka þá sé ég glöggt að það sem hún gaf okkur á þeim tíma var í raun það dýrmætasta sem maður getur gefið öðrum. Það er tími og athygli. Hún var með einstaklega góða nærveru, ráðagóð, heil í gegn og hlý.

Þegar við Hildur komumst á unglingsárin voru símtölin æði mörg heim þar sem ég bað um að fá að gista í Heiðarlundinum enda gilti þar örlítið betri útivistartími en þekktist. Hlín var jú eldri en tvævetur þegar kom að því að ala upp unglinga og vissi að best væri einfaldlega að treysta unga fólkinu. Þær voru margar næturnar þar sem hún beið pollróleg í legusófanum fyrir framan sjónvarpið eftir okkur. Fegin að við hefðum skilað okkur heilar heim og gerði ekki veður út af því þó að við hefðum stundum farið örlítið fram yfir tilsettan tíma. Eftir framhaldsskóla fór heimsóknunum í Heiðarlundinn eitthvað að fækka. Þó átti ég nokkur góð gamlárskvöld með fjölskyldunni sem eru mér sérstakalega minnisstæð og var þá alltaf mikið fjör. Einnig mætti ég í nokkur ár heim í Heiðarlundinn í febrúar fyrir árshátíð Orators þar sem hún greiddi á mér hárið í anda „sixtís“. Mér þótti verulega vænt um þær samverustundir okkar og fannst ég alltaf sætasta stelpan á ballinu með greiðsluna hennar Hlínar.

Það er nokkuð síðan ég sá hana síðast en ég man það þó eins og það hafi verið í gær. Hildur var búin að vara mig við og ég sá þess strax merki að Hlín var komin inn í skelina sína. Það kom þó ekki að sök. Þegar augu okkar mættust leit hún á mig með fallega brosið sitt og breiddi út hlýja faðminn, „Erna mín“. Önnur orð voru óþörf. Þéttingsfast faðmlagið nægði mér og mun lifa sem dýrmæt minning um ókomna tíð.

Katli, systkinunum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Minning um einstaka konu lifir í hjörtum okkar.

Erna Sigríður.

Hlínsa var nágranni minn í æsku. Við ólumst upp á Reykjalundi í Mosfellssveit. Hlínsa var þremur árum eldri en ég og vildi ekki leika við mig, þess vegna lék ég mér alltaf við Einsa bróður hennar. Við vorum jafnaldrar og brölluðum ýmislegt saman.

Mikið var um að erlendir gestir kæmu að skoða Reykjalund eða Vinnuheimilið á Reykjalundi. Í apríl 1956 komu svo dönsku konungshjónin, Friðrik IX og Ingrid, í heimsókn ásamt forsetahjónunum okkar. Þetta var mikill viðburður og öllu var til tjaldað, meira að segja var lagður sérstakur vegur, Kóngsvegur, þannig að ekki þurfti að láta þetta tigna fólk keyra í gegnum Álafosskvosina.

Þegar þetta tigna fólk steig út úr bifreiðum sínum á hlaðinu við Stórahúsið á Reykjalundi vorum við Hlínsa þar, báðar klæddar í upphlut, hvor með sinn blómvöndinn handa drottningu og forsetafrú.

Þegar þær höfðu tekið við blómvöndunum stigum við þrjú skref aftur á bak og eitt skref til vinstri. Við máttum nefnilega ekki snúa rassinum í frúrnar. Ég var ánægð með okkur en Hlínsa var miður sín, hún hafði stigið á tær kóngsins, en honum var bara skemmt. Þrátt fyrir miklar æfingar með upprúlluðum dagblöðum í staðinn fyrir blómvönd þá steig Hlínsa á tær kóngsins, það gleymdist að reikna með kóngsa.

Hlínsa giftist Kedda bróður mínum og við urðum mágkonur, SÍBS-brúðkaupið og hjónabandið heppnaðist vel! Enda þau bæði úrvalsfólk.

Takk fyrir samfylgdina.

Þín

Guðríður Steinunn (Systa).

Kæra Hlín okkar Árnadóttir lést síðastliðinn sunnudag, 17. desember 2023. Hlín hafði stórt Bjarkarhjarta og gerði óendanlega mikið fyrir félagið, þjálfara og nemendur félagsins, fimleika- og íþróttahreyfinguna alla. Hlín var fyrirmynd fyrir alla í íþróttahreyfingunni og ástríðan sem hún hafði fyrir fimleikum mun lifa í hreyfingunni um ókomna tíð.

Fimleikafélagið Björk vill þakka henni fyrir allt sem hún hefur gert fyrir félagið og mun minning hennar lifa í okkar Bjarkarhjörtum.

Hlín fæddist 15. ágúst 1945 í Reykjavík. Hún fór ung að árum til Danmerkur í nám, fyrst í lýðháskóla og síðan í íþróttaskólann við Sønderborg. Vorið 1965 lauk hún prófi frá íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og hóf kennslu strax um haustið.

Hlín hóf störf hjá Fimleikafélaginu Björk haustið 1970 og þjálfaði hjá félaginu þar til fyrir nokkrum árum, samtals í 50 ár. Í upphafi kenndi hún eingöngu frúarleikfimi en í kjölfarið var stofnaður stúlknaflokkur. Hlín náði ótrúlegum árangri með nemendur sína í gegnum árin þrátt fyrir litla aðstöðu til að byrja með. Hlín þjálfaði marga Íslands- og bikarmeistara og hafa margir nemendur hennar keppt fyrir Íslands hönd. Hún gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd Fimleikafélagsins Bjarkar sem og hjá Fimleikasambandinu og Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar. Á löngum starfsferli hjá Fimleikafélaginu Björk hefur aðstaða félagsins breyst mikið og er það ekki síst Hlín að þakka þar sem hún barðist alla tíð fyrir velferð félagsins. Hlín var í byggingarnefnd fyrir íþróttamiðstöðinni Björk og að lokum tókst að koma upp fyrsta sérhæfða fimleikahúsi landsins.

Hlín hafði mikinn metnað og áhuga fyrir góðu grunnhópastarfi sem skilaði sér svo í góðum grunni iðkenda fyrir áframhaldandi fimleikaþjálfun eða jafnvel annarri íþróttaiðkun. Á síðasta ári var Hlínarmótið sett af stað, innanfélagsmót grunnhópa sem félagið mun halda áfram að halda um ókomna tíð til heiðurs ógleymanlegri konu.

Minning Hlínar mun lifa áfram í okkar Bjarkarhjörtum. Minningabók hefur verið komið fyrir í anddyri Bjarkarhússins og hvetjum við þá sem þekktu til hennar eða vilja minnast hennar að skrifa nokkur orð um hana. Minningabókin verður að lokum afhent fjölskyldu Hlínar.

Hvíl í friði elsku Hlín.

Fyrir hönd Fimleikafélagsins Bjarkar,

Hlín Benediktsdóttir.