Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir fæddist á Akureyri 31. mars 1959. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Reykjavík 15. desember 2023. Foreldrar hennar voru Jónheiður Eva Aðalsteinsdóttir, f. 26. apríl 1929, d. 2018, og Sigurgeir Sigurpálsson, f. 12. júlí 1929, d. 2012.

Hún var næstyngst í hópi sjö systkina, hin voru: Aðalsteinn, f. 1949, Indíana, f. 1950, d. 1950, Páll, f. 1952, Hanna Indíana, f. 1954, Svanhildur, f. 1957, og Sigurgeir Heiðar, f. 1967.

Halla Sólveig kynntist ung sínum eftirlifandi eiginmanni, Val Knútssyni, f. 1. desember 1959, og giftist honum 4. júní 1982. Foreldrar hans: Ingibjörg Sigfúsdóttir, f. 1944, og Knútur Valmundsson, f. 1938, d. 2023.

Börn Höllu Sólveigar og Vals eru: 1) Elvar Knútur, f. 1979, maki Anna Margrét Eggertsdóttir, f. 1980, og eiga þau þrjá syni, Ara Steinar, Atla Hrafn og Kára. 2) Sigurgeir, f. 1984, maki Helga Helgadóttir, f. 1985, þau eiga tvær dætur, Sólveigu Katrínu og Steinunni Söru. 3) Ingibjörg Lind, f. 1987, maki Magnús Ágústsson, f. 1987, þau eiga tvo syni, Val Jóel og Ágúst Örn. 4) Sigrún Eva, f. 1999, maki Stefán Bjarki Tulinius, f. 1999.

Halla Sólveig ólst upp á Eyrinni og í Þorpinu á Akureyri í stórum systkinahópi og samheldinni fjölskyldu og átti heima þar alla tíð utan námsára Vals, en þá bjuggu þau í Reykjavík.

Hún lauk námi frá verslunardeild Gagnfræðaskólans á Akureyri sem var á þeim tíma samsvarandi prófi úr Verslunarskóla Íslands. Hún var bankastarfsmaður og starfaði lengst af í Íslandsbanka. Á sínum yngri árum æfði hún og keppti í handbolta fyrir Íþróttafélagið Þór og starfaði um árabil í stjórn Fimleikafélags Akureyrar.

Halla Sólveig verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 29. desember 2023, kl. 13.

Ég kynntist Sollu minni sumarið eftir að við kláruðum grunnskólann. Við urðum strax náin og fljótt kom í ljós að við áttum mjög vel saman, vorum lík en um leið ólík og bættum hvort annað upp. Áhugamálin voru sameiginleg, handboltinn, útivist og íslensk náttúra. Við ferðuðumst um landið um leið og hún fékk bílpróf, útilegur í Vaglaskógi tvö saman, því við vorum hvort öðru nóg. Á þessum árum lögðum við grunn að ævilöngu sambandi, fallegu, yndislegu og ástríku.

Þegar ég horfi til baka yfir þau 50 ár sem eru liðin er mér efst í huga þakklæti fyrir að fá að deila ævinni með jafn yndislegum vini og hún er. Hún gaf mér lífið og fékk mig til að sjá það góða og fallega við að lifa í núinu.

Hún lifði fyrir fjölskylduna. Elvar Knútur fæddist viku eftir útskrift mína frá MA en þá höfðum við stofnað okkar fyrsta heimili. Eftir að hafa flust til Reykjavíkur og búið þar í fjögur ár kom Sigurgeir. Solla mín vann þann tíma hjá Útvegsbankanum og sá okkur farborða, eins og alltaf. Akureyri togaði í okkur, við fengum bæði góð atvinnutilboð fyrir norðan og við fluttum aftur heim. Þar var fjölskyldan og þar vildum við vera. Inga Lind fæddist næst og við vorum fimm saman í 12 ár, eða þar til sólargeislinn okkar Sigrún Eva kom í heiminn. Þvílík gleði og þvílík ást og umhyggja sem mamma Solla veitti okkur, ástríkt heimili með röð og reglu þar sem öll fengu að njóta sín.

Við höfðum bæði beðið dálítið eftir barnabörnunum en þegar þau komu blómstraði amma Solla í nýju hlutverki og þau upplifðu þessa einstöku ástúð, væntumþykju og hlýju sem amma veitti. Að koma í Sunnuhlíðina til ömmu, fá að skríða upp í ömmu holu að morgni dags, að leika með allt dótið úr geymslunni og fá ís og nammi. Svo var farið í útilegur með ömmu og afa í hjólhýsinu. Allt þetta og meira til var einstök upplifun sem þau munu minnast um alla tíð.

Solla mín elskaði að ferðast. Í seinni tíð höfum við notið þess að ferðast vítt og breitt um landið sem og heiminn. Langoftast tvö saman, séð framandi slóðir og upplifað framandi menningu. Hjólaferðirnar með frábærum vinum gáfu einstakar ánægjustundir.

Ég þakka þó mest fyrir gæðastundirnar sem við áttum heima í Sunnuhlíð. Sitjandi saman á sumarkvöldi úti á svölum, njóta veðurblíðu, við stofugluggann á vetrarkvöldum og dást að bænum okkar, Vaðlaheiðinni og stjörnunum. Hæst skora þó morgunstundirnar, að elda grautinn og leggja á borðið. Setjast svo á rúmstokkinn, vekja þig með kossi og bjóða þér góðan dag og segja þér hvað ég elska þig; grauturinn er tilbúinn.

Ég sá kveðjustundina engan veginn fyrir á þessum tímapunkti. Amma í blóma lífsins, yndisleg og allt í senn blíðlynd, glaðlynd og góðviljuð gagnvart öllum sem á vegi hennar urðu. Takk fyrir að vera þú og fyrir allt sem þú gafst mér og okkar yndislegu fjölskyldu. Elskum þig að eilífu …

… því eins og segir í ástarljóði Jónasar, Ferðalokum:

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda sem unnast

fær aldregi

eilífð að skilið.

Ástarkveðja,

þinn

Valur.

Elsku mamma var einstök. Hún var hlý, brosmild og gaf mikið af sér. Ekki aðeins gagnvart okkur systkinunum heldur öllu hennar samferðafólki. Hennar verður saknað meira en orð fá lýst. Það er okkur óskiljanlegt að mamma hafi þurft að kveðja. Við trúum því varla ennþá og er sorgin yfirþyrmandi og söknuðurinn mikill. Hugur okkar leitar ósjálfrátt til mömmu í hversdeginum því það er svo ótal margt sem minnir okkur á hana, ekki síst nú í desember. Þrátt fyrir að hafa alltaf haft mikið fyrir stafni þá naut hún jólanna því það var tími sem fjölskyldan kom saman. Tími þar sem við gerðum hlé á ati hversdagsins og nutum samvista hvert við annað. Fjölskyldan var mömmu nefnilega allt og við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera samheldin og náin. Það er ekki síst mömmu að þakka því hjá henni var fjölskyldan alltaf í forgrunni. Hún var okkur öllum fyrirmynd fyrir það eitt að hafa verið eins og hún var. Umhyggjusöm mamma og amma sem gerði allt fyrir börnin sín og barnabörn.

Við minnumst mömmu okkar sem var hamingjusöm og ástfangin. Samband mömmu og pabba hefur alla tíð verið einstakt. Mamma og pabbi voru búin að vera saman í næstum hálfa öld eða síðan þau voru unglingar. Alltaf jafn hamingjusöm, alltaf jafn ástfangin. Það virtist ekkert sjálfsagðara en að þau ættu eftir önnur 50 ár saman. Svo verður því miður ekki. En þau 50 ár sem mamma og pabbi áttu saman einkenndust af ást og hamingju enda ræktuðu þau sambandið af mikilli alúð. Það er ekki sjálfsagt að vera hamingjusamur og ástfanginn í hálfa öld. Þau ferðuðust víða innanlands og erlendis með fjölskyldu og vinum og sinntu áhugamálum. Þau kunnu að lifa lífinu og nutu hvers einasta dags saman.

Brotthvarf mömmu mun ekki draga úr samveru fjölskyldunnar heldur þvert á móti. Við höfum aldrei þurft jafn mikið hvert á öðru að halda og einmitt núna. Við höfum hvert annað og það er ekki síst fyrir tilstilli mömmu. Mamma lagði mikið upp úr samveru með fólkinu sínu og mikilvægi þess að treysta fjölskylduböndin. Það munum við gera. En það eru tímamót hjá okkur öllum, því miður. Mamma hefur ávallt verið svo stór hluti af okkar lífi. Við getum enn sem komið er ekki fyllilega gert okkur grein fyrir því sem koma skal. Hvernig hversdagurinn verður án þess að geta leitað til mömmu. Eins erfitt og það er að horfa fram á veginn, vitandi að mamma verður ekki með okkur í raunheimum, þá veitir það ákveðna huggun að hugsa til baka. Það er erfitt að vera þakklátur akkúrat núna þegar mamma er nýlega fallin frá, en við gerum okkur grein fyrir því hve lánsöm við erum fyrir að hafa átt einstaka móður. Elsku pabbi er sömuleiðis lánsamur að hafa átt einstakan lífsförunaut í mömmu. Við ætlum að vera þakklát fyrir það, þó okkur finnist ósanngjarnt og sárt að mamma sé farin. Elsku mamma, við söknum þín. Þú verður alltaf hjá okkur.

Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind og Sigrún Eva.

Solla tengdamóðir mín var með einstaklega góða og notalega nærveru. Öllum leið vel í kringum hana og ég man ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann skipt skapi, hvað sem gekk á eða jafnvel þótt húsið hafi oft verið fullt af fólki, fullorðnum jafnt sem börnum. Þegar ég og Inga Lind vorum að kynnast fann ég strax fyrir því hjá tilvonandi tengdaforeldrum mínum að ég væri velkominn, þessa hlýju og væntumþykju. Það var líka sérstaklega gott að koma norður til Sollu og Vals í Sunnuhlíðina, en annarri eins gestrisni hef ég ekki kynnst. Eiginlega var boðið upp á veisluborð í hvert mál, sama hvort það voru bara við Inga Lind í heimsókn með strákana okkar eða öll systkinin með öll sín börn. Maður fann alltaf fyrir ást og hlýju, vissi að maður væri velkominn, og yfirleitt var búið að fylla ísskápana með einhverju sem ég hafði minnst á í framhjáhlaupi að mér þætti gott, jafnvel mörgum árum áður. Solla elskaði börnin sín og barnabörnin svo mikið að það var nánast áþreifanlegt. Ég hef undanfarna daga hugsað um að lífið sé stundum óskiljanlegt og ósanngjarnt, en ég ætla frekar að hafa þessa skilyrðislausu ást Sollu sem fyrirmynd í mínu lífi.

Magnús Ágústsson.

Nú eru 19 ár síðan Elvar minn kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Strax við fyrstu kynni var auðséð hversu samheldin Solla og Valur voru sem hjón og börnunum sínum góðar fyrirmyndir.

Solla var sönn fjölskyldumanneskja. Hún lagði mikið upp úr samverustundunum og var ævinlega umhugað um að öllum liði vel. Strákarnir okkar hafa alltaf beðið með eftirvæntingu að komast í notalegheitin hjá ömmu og afa í Sunnuhlíðinni. Þau hafa verið þeim svo hlý og góð og áhugasöm um allt sem þeir taka sér fyrir hendur. Solla var góð tengdamamma og reyndist mér ætíð vel. Það var auðvelt að tala við hana og við tvær gátum rætt allt milli himins og jarðar, hversdagslega hluti eða alvarlegri mál. Hún var ávallt tilbúin til að hlusta og miðla af reynslu sinni þegar við átti. Sá eiginleiki hefur komið að góðum notum í starfi hennar í bankanum. Það er næsta víst að ófáir viðskiptavinirnir hafa séð eftir Sollu þegar hún lét af störfum, enda var hún einstaklega indæl og þægileg í samskiptum. Það var líka stutt í húmorinn hjá Sollu og við hlógum mikið saman.

Solla var svo sannarlega glæsileg kona. Árin virtust ekki setja mark sitt á hana eins og okkur hin. Hún var alltaf svo smekklega til fara, með dökka hárið fallega greitt og neglurnar oftar en ekki lakkaðar. Hún var fagurkeri sem vildi hafa huggulegt í kringum sig og ber heimili þeirra hjóna þess glöggt merki. Solla var líka dásamlega pjöttuð og lítið gefin fyrir sull og óhreinindi. Við göntuðumst með það í fjölskyldunni að börnin þeirra Sollu og Vals væru öll með minnst þrjár tegundir af ofnæmi því heimilið var alltaf svo hreint.

Solla var meðvituð um heilsusamlegt líferni og mataræði. Hún stundaði reglulega hreyfingu og nú síðustu ár áttu hjólreiðar allan hug þeirra hjóna. Solla og Valur kunnu að njóta lífsins og höfðu unun af að ferðast, jafnt innanlands sem utan. Í gegnum árin hafa þau farið víða um heim, og þá voru þau líka dugleg að ferðast um landið með hjólhýsið í eftirdragi. Síðastliðin sumur hafa Ari og Atli farið með ömmu og afa í útilegu í Ártún þar sem þau stjönuðu við þá í hvívetna. Þeim varð tíðrætt um hversu góður maturinn hafi verið og að amma hafi reitt fram hverja veislumáltíðina á fætur annarri í útilegunni. Solla var algjör töfrakona í eldhúsinu. Nú á jólum verður mér hugsað til þess hvernig hún töfraði fram ótal smákökusortir, bollur, snúða, kökur, heilu máltíðirnar og eftirrétti að því er virtist fyrirhafnarlaust. Ég bæði furðaði mig á og dáðist að því hvernig hún fór að þessu. Svo var hún líka nýjungagjörn og óhrædd við að prófa nýjar uppskriftir. Það var ófáum sinnum sem við bárum saman bækur okkar, skiptumst á uppskriftum og ræddum um mat.

Mikið óskaplega eigum við eftir að sakna Sollu. Mér þykir óendanlega sárt til þess að hugsa að börnin okkar fái ekki að alast upp með hana innan seilingar en á sama tíma er ég þakklát fyrir þann gæðatíma sem við fengum með henni, og að við eigum ótal góðar minningar um Sollu til að hlýja okkur við.

Takk fyrir allt og allt, elsku Solla mín.

Anna Margrét.

Elsku systir. Mig setti hljóðan þegar ég fékk símtalið um að þú hefðir mjög óvænt kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu. Nú sit ég hér með tárin í augunum og er að rifja upp allar góðu minningarnar sem ég á um þig.

Það er margs að minnast. Efst í huga mér er vinátta okkar sem var alltaf eins og best verður á kosið. Fyrir mér þá vorum við alltaf mjög náin og kannski höfum við verið svolítið lík á margan hátt. Ofarlega í huga mér eru allar ánægjulegu samverustundirnar sem við áttum saman. Hvort sem við vorum á Spáni eða annars staðar í heiminum, útilegurnar alveg ógleymanlegar og hjólaferðirnar erlendis sem voru frábærar ekki síst vegna samveru við ykkur hjónin. Að ég tali nú ekki um allar ánægjulegu stundirnar sem við áttum saman á ykkar fallega heimili þegar við ræddum um daginn og veginn á léttum nótunum. Það var oft stutt í grínið hjá þér, þú gast hlegið að hlutunum og séð skemmtilegu hliðarnar á málunum.

Þú varst mjög umhyggjusöm gagnvart öllum, passaðir upp á að allir í kringum þig hefðu það sem best. Ég er orðinn sjötugur og við að fara út að ganga með gönguhópnum okkar og þú sagðir: „Palli minn, ertu nógu vel klæddur?“ Eða þegar við vorum erlendis og þú sagðir: „Ertu búinn að bera á þig sólarvörn?“ og „ertu að drekka nóg vatn?“ Alltaf að hugsa um aðra af einskærri umhyggju. Og þú varst alltaf að spyrja um börnin okkar og fjölskyldur, vildir fylgjast vel með þeim.

Nú reyni ég að brosa í gegnum tárin þegar ég minnist þín.

Þegar ég keyrði ykkur á flugvöllinn átti ég svo sannarlega ekki von á öðru en þið kæmuð heim eftir viku eins og til stóð. En það fór nú á annan veg. Ég veit að velferð fjölskyldu þinnar skipti þig mestu máli í lífinu og nú sitja þau og sakna. Elsku Valur og fjölskyldan öll, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð í ykkar mikla missi og sorg.

Takk fyrir allt og allt, elsku Solla systir.

Mér þykir óendanlega vænt um þig og þín verður sárt saknað.

Páll (Palli bróðir).

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Með sorg í hjarta kveð ég elsku hjartans fallegu systur mína. Solla var ekki bara systir mín, hún var líka mín besta vinkona. Við vorum mjög nánar og á milli okkar var órjúfanlegur strengur.

Það er erfitt að koma því í orð hvernig tengingin var milli okkar systra. Ég fann á mér þegar hún ætlaði að hringja og öfugt og þegar við hugsuðum hvor til annarrar. Það var eins og þessi tenging styrktist bara með árunum.

Það er margs að minnast en við leiðarlok er mér efst í huga þakklæti fyrir allt sem Solla var mér og gaf mér. Hún var góðhjörtuð, fyndin, hjálpsöm og gjafmild. Heil í gegn. Það er ekki sjálfgefið að hafa fengið að verða samferða henni í gegnum lífið.

Solla var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt og hélt í höndina á mér í gegnum erfiða tíma. En við sem eftir sitjum huggum okkur við minningarnar og góðu stundirnar sem við áttum með henni. Samverustundirnar hjá mömmu og pabba í Hraungerði það sem við fjölskyldan komum saman, hláturinn og grínið.

Valur og Solla eiga eitt það fallegasta samband sem ég þekki til. Börnin þeirra fjögur bera þess merki að vera alin upp á góðu og ástríku heimili enda öll sérlega vel gerð.

Ég á eftir að sakna elsku systur minnar óendanlega mikið. Þetta er nokkuð sundurleit minningargrein en ætli hún endurspegli ekki huga manns þessa dagana.

Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind og Sigrún Eva, megi Guð veita ykkur styrk og vaka yfir ykkur. Solla okkar verður alltaf með okkur.

En samt er hún þarna,

hljóðlát bak við

stjörnuþokurnar

Og þarf ekki

að láta sanna

tilvist sína

(Gyrðir Elíasson)

Þín systir,

Svanhildur
Sigurgeirsdóttir.

Ég sit hér með sorg og söknuð í huga og reyni að koma tilfinningum og minningum í orð um hjartkæra mágkonu mína Höllu Sólveigu Sigurgeirsdóttur, Sollu, sem lést langt fyrir aldur fram 15. desember sl. eftir stutt en snörp veikindi. Ég kynntist Sollu þegar Valur bróðir minn og hún rugluðu saman reytum fyrir nærri 50 árum. Valur og Solla voru strax ákaflega samrýmd og samtaka í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og innan fjölskyldunnar eru þau alltaf nefnd bæði í einu hvort sem vísað er til annars eða beggja. Solla var falleg og glæsileg kona, fagurkeri, vingjarnleg, glaðvær, hljóðlát, hjartahlý, þolinmóð og hafði einstakt lag á börnum. Þrátt fyrir rólegt fas var stutt í grallarann og hláturinn í Sollu og keppniskonuna sem kom sterkt fram þegar spilaður var kani og fleiri borðspil og einnig þegar kom að íþróttum og þá sérstaklega handbolta og fótbolta og Þór á Akureyri var annað liðið.

Solla æfði sjálf og keppti í handbolta með Þór á unglingsárum og fram undir tvítugt eða þar til hún og Valur eignuðust sitt fyrsta barn, Elvar Knút. Solla og Valur æfðu og kepptu bæði í handbolta undir merki Þórs á Akureyri áður en þau fluttu til Reykjavíkur þegar Valur hóf í nám við HÍ.

Valur og Solla fluttu aftur heim til Akureyrar 1985 og áttu heimili þar síðan. Solla var einstaklega þægileg og gestrisin heim að sækja. Ég minnist ótal heimsókna okkar fjölskyldunnar til þeirra á ferðum okkar til Akureyrar vetur sem sumar og var ávallt vel tekið á móti okkur. Einnig minnist ég frábærrar dvalar í sumarbústað við Lagarfljót og ferðar um Austurland með allan krakkaskarann sem og skemmtilegra stunda hjá foreldrum okkar Vals þegar við hittumst í Skurup í Svíþjóð með okkar fjölskyldur.

Solla og Valur eignuðust fjögur börn, Elvar Knút, Sigurgeir, Ingu Lind og Sigrúnu Evu, sem eru stolt foreldra sinna. Barnabörnin eru orðin sjö og eru Val og Sollu afar kær.

Það er ótrúlegt og erfitt og mun taka tíma að meðtaka það að Solla sé ekki lengur annar hlutinn af sterkum bakhjarli og þátttakandi í daglegu lífi fjölskyldunnar.

Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur, ykkar missir er mikill. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Við kveðjum Sollu með miklum söknuði og þökkum fyrir samfylgdina í gegnum liðin ár.

Sigmar (Simmi),
Svandís og fjölskylda.

Ég trúi því ekki að ég sé að reyna að skrifa minningargrein um þig á þessum tímapunkti, elsku frænka og vinkona, það var erfitt símtalið sem ég fékk um að þú værir látin eftir svona stutt veikindi. Ég sit og hugsa um þig og vil ekki og get ekki trúað því að þetta sé í raunverulegt.

Við vorum mjög nánar alla okkar æsku saman í bekk, fyrst í Oddeyrarskóla, síðan Glerárskóla og útskrifuðumst að lokum sem gagnfræðingar úr gagganum. Við fermdumst saman og fórum í útilegur, það var svo gaman að vera unglingur og leika sér.

Eftir skólagöngu okkar minnkuðu samverustundirnar en alltaf heyrðum við hvor í annarri þótt stundum liði alltof langt á milli. Í veikindum mínum fyrir nokkrum árum sýndir þú mér svo mikla umhyggju, hringdir og tékkaðir á mér og hvattir mig áfram með jákvæðni, þessi símtöl og spjallið okkar er mér svo dýrmætt.

Fyrir um tveimur árum sendir þú mér svo fallega mynd af okkur saman þar sem við erum ca. tíu ára gamlar og skrifaðir með að þú hefðir verið að fletta í gömlum myndum frá mömmu þinni og fundið þessa flottu mynd af okkur vinkonunum og frænkum og þér þætti svo vænt um hana og já þessa mynd er ég búin að skoða aftur og aftur síðustu daga, og já, hún er yndisleg.

Þegar við settumst niður yfir kaffibolla var alltaf eins og við hefðum hist í gær höfðum svo mikið að tala um og gleymdum tímanum. Svo dásamlegar stundir sem hefðu mátt vera svo miklu fleiri. En við höldum alltaf að við höfum nægan tíma og ætlum að gera hlutina seinna.

Elsku Solla, takk fyrir heimsóknina núna í nóvember, dásamlegt kvöld og mikið spjallað, ræddum um fjölskylduna, börnin okkar og barnabörn. Þú kvaddir með því að segja nú yrðum við að fara að vera með árgangshittinga að minnsta kosti á fimm ára fresti, því við vitum aldrei hvenær okkar síðasti árgangshittingur er þar sem við erum farin að eldast.

Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill og megi allir englar vaka yfir ykkur Takk fyrir allt elsku frænka og vinkona þín verður sárt saknað.

Helga Eymundsdóttir.

Kær vinkona, Halla Sólveig, er látin, allt of snemma. Við erum búin að vera vinir síðan við vorum unglingar og að eiga svona trausta og góða vini eins og þau hjón, Sollu og Val, er ómetanlegt. Við vorum saman í grunnskóla, Oddur, Valur og Solla, og Magga small svo inn í hópinn. Við höfum farið í margar hjólaferðir til útlanda, hjólað hér innanlands, farið saman í útilegur og brallað ýmislegt saman. Magga og Solla gengu oft saman og fóru í kaffi hvor til annarrar. Þar voru málið rædd af einlægni og vináttu. Oft var glatt á hjalla hjá þeim, því Solla er einlæg, góður hlustandi, full af húmor og með góða frásagnarhæfileika. Hún sá alltaf jákvæða hlið á öllu. Til dæmis þegar sonur okkar skírir yngstu dóttur sína Hallveigu var Solla ekki lengi að segja að hún hefði fengið nöfnu. Solla var alltaf glöð og hafði sérstaklega góða nærveru.

Fjölskyldan er dýrmæt og það er óhætt að segja að hún var Sollu mikils virði, og þeim hjónum. Samband þeirra við börnin var afskaplega gott og kærleiksríkt. Barnabörnin voru ekki svikin af því að eiga svona afa og ömmu.

Núna þegar Solla er lögð af stað í ferðina miklu sitjum við hér eftir með sorg í huga og ótal spurningar. En eins og stendur í Hávamálum: „En orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur“ þá mun Solla lifa áfram í hjörtum okkar og við munum ylja okkur við góðar minningar um kæra vinkonu.

Kæri Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva, tengdabörn og barnabörn, orð mega sín lítils, en okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð og góðar vættir verndi ykkur og styrki. Munið G.Æ.S.-ina hennar Sollu.

Margrét Harpa og Oddur Helgi.

Það er svo sannarlega rétt, að morgundeginum getur enginn gengið vísum að.

Sumir eru teknir frá okkur alltof snemma – í blóma lífsins, einmitt þegar þeir ætla að fara að njóta til fulls. Hvernig var hægt að ímynda sér að þú værir á förum? Maður trúir þessu bara ekki. Þú sem áttir svo margt eftir að gera, ferðast, hjóla og ganga með Vali þínum og fjölskyldunni sem var þér svo kær. Þið voruð bara að skreppa suður, en þú áttir svo ekki afturkvæmt.

Hvernig er hægt að hugsa það til enda að eiga ekki eftir að sjá þig aftur, að heyra ekki; „er einhver þarna“, þegar þú gekkst inn á baklóðina hjá okkur og komst inn á pallinn þangað sem við hjónin sátum á góðviðrisdegi. „Lóðin er mjög falleg hjá ykkur núna,“ sagðir þú eftir að hafa gengið um, settist svo og spjallaðir um alla heima og geima … „mig langaði bara að koma við og fá smá kaffisopa“, sast og spjallaðir í góða stund, svo ljúf og glöð. Og við hlógum saman öll þrjú. Yndislegar minningar.

Það var ótrúlega ánægjulegt að ferðast með ykkur, hvort sem var í sólarferðum og hjólaferðum erlendis eða hjólhýsaferðum um Ísland. Þú varst einstaklingur sem gaman var að vera með hvar sem var, hlusta á þig segja frá, svo einlæg og trú í þinni glaðværð og gríni. Og víst er hugurinn undarlega tómur þegar aldrei heyrist aftur þessi rómur.

Og svo þessi umhyggja sem umlukti alla. Alltaf varstu að fylgjast með öðrum, hvernig þeir hefðu það, hvort eitthvað væri hægt að gera, eða að leiðbeina manni til betri vegar, meira öryggis, betri heilsu. Þú varst einstaklingur sem gerðir aðra að betri manneskjum með nærveru þinni og við hin erum ríkari fyrir vikið.

Þú varst ekki orðin tíu ára þegar ég kynntist þér fyrst. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að verða þér samferða þennan spöl á lífsins vegi elsku Solla mín – en nú get ég því miður ekki lengur sagt þér það augliti til auglitis eins og áður, sagt þér hvað mér þótti undur vænt um þig. Þetta er skarð sem erfitt verður að fylla, svo mikið er víst. En lífið heldur áfram og við verðum að lifa með þessum sára missi.

Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Ingibjörg Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur ykkar, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi allar góðar vættir vernda ykkur og styrkja í því erfiða verkefni sem fram undan er.

Takk fyrir allt sem þú varst mér og mínum elsku Solla mín.

Aðalbjörg
María (Adda).

Við kveðjum í dag fyrrverandi samstarfsfélaga og góðan félaga, hana Höllu Sólveigu eða Sollu eins og hún var alltaf kölluð.

Solla starfaði hjá Íslandsbanka í hartnær 40 ár, en hún hóf fyrst störf hjá Útvegsbankanum árið 1978.

Viðskiptavinir Sollu vildu engan hitta nema hana enda var hún með einstaka þjónustulund og tók öllum vel og með jákvæðu viðmóti. Það að hún fékk mest af heimaföndruðum gjöfum frá viðskiptavinum segir allt sem segja þarf.

Skipulag og samviskusemi einkenndi störf Sollu hjá bankanum og hún tók ávallt virkan þátt í félagsstarfi starfsmanna. Solla hafði góðan húmor og var einkar góður persónuleiki. Hún lætur eftir sig mikið ríkidæmi í börnunum sínum og barnabörnum, en Solla var mikil fjölskyldukona og undi sér best með sínu fólki.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Sollu og starfa með henni og sendum Val og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd samstarfsfélaga í útibúi Íslandsbanka á Akureyri,

Jón Birgir Guðmundsson og Ólöf Heiða Óskarsdóttir.

Elsku Solla.

Fallega, ljúfa og hægláta Solla sem vildi öllum svo vel og hugsaði svo einstaklega fallega um stóru fjölskylduna sína.

Ég var ekki byrjuð í skóla þegar ég flutti í Steinahlíðina og við Inga Lind urðum bestu vinkonur. Ég varð fljótt daglegur gestur á heimili Sollu og Vals. Gestur er í raun alls ekki rétt orð því ég varð strax hluti af fjölskyldu þeirra. Þeirra heimili varð mitt annað heimili og þau mínir aðrir foreldrar. Alltaf stóðu dyrnar opnar fyrir mér og gera það enn í dag.

Mér er svo sérstaklega minnisstætt þegar Sigrún Eva fæddist. Við vinkonur vorum á tólfta ári og óskaði ég þess heitt að eignast líka lítið systkini. Þegar komið var með Sigrúnu Evu heim af fæðingardeildinni sagði Solla við mig að ég mætti eiga hana með þeim, ég mætti eiga litlu tána hennar. Svona var Solla, alltaf að hugsa um aðra. Þessi minning yljar.

Þrátt fyrir að hafa hitt Sollu og Val sjaldnar síðustu ár þá veit ég að þau fylgdust alltaf vel með mér og mínum úr fjarska. Það var alltaf gott að hitta þau og fá innilegt Solluknús. Ég mun sakna þess.

Missir okkar allra sem þekktum Sollu er mikill. Mestur þó Vals, barna og barnabarna hennar.

Elsku Solla, takk fyrir allt.

Ég mun passa Ingu Lind og strákana fyrir þig.

Þín

Kristín Hólm.