Sigurður Ingvarsson fæddist á Norðfirði 16. ágúst 1934. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík hinn 14. desember 2023. Foreldrar hans voru Friðrikka Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1897 á Krossi í Mjóafirði, d. 1985 og Ingvar Pálmason skipstjóri, f. 1897 á Nesi í Norðfirði, d. 1985.

Systkini Sigurðar voru Auður Halldóra, f. 1921, d. 1925, Auður, f. 1922, d. 2022 og Pálmi Ólafur, f. 1927, d. 2011.

Fyrri kona Sigurðar var Sigrún Valdimarsdóttir bankafulltrúi, f. 9. janúar 1936 í Vík í Mýrdal. Barn Sigurðar og Sigrúnar er Sigurveig Huld, f. 1954, prófessor, maki Sveinn Hjörtur Hjartarson, f. 1952. Börn þeirra eru: a) Hjörtur Friðrik, f. 1973, var kvæntur Ingibjörgu Jóhannesdóttur, f. 1971. Þau eiga Svein Hjört, f. 2005, Jóhannes Erni, f. 2006 og Guðmund Loga, f. 2013. Núverandi maki Hjartar er Sigurlaug Gísladóttir, f. 1976. b) Valdimar Gunnar, f. 1982, maki Stella Vestmann, f. 1982. Þau eiga Lilju, f. 2007 og Bjarna, f. 2013. c) Sigrún Huld, f. 1987, maki Malachi Arunda, f. 1982. Þau eiga Daniel, f. 2019, og Ameliu Huld, f. 2022.

Sigurður kvæntist 25. apríl 1963 Vélaugu Steinsdóttur, húsfreyju og fulltrúa hjá Veðurstofu Íslands, f. 1938 í Meirihlíð í Bolungarvík. Börn Sigurðar og Vélaugar eru: 1) Snorri Þór, f. 1963, prófessor, var kvæntur Soffíu Guðmundsdóttur, f. 1964. Barn þeirra er Einar Logi, f. 1989, maki Eva Fanney Ólafsdóttir, f. 1990. Þau eiga Eddu Þöll, f. 2021. 2) Gunnar Örn, f. 1966, arkitekt, var kvæntur Birnu Sigrúnu Hallsdóttur, f. 1966. Börn þeirra eru: a) Bergsteinn Már, f. 1991. b) Kári, f. 1996. c) Bryndís, f. 2002. Núverandi maki Gunnars er Katrín Sverrisdóttir, f. 1971, barn þeirra er Yrsa Rún, f. 2012. Sonur Katrínar er Aron Luis Gilbertsson, f. 1998. 3) Baldur Bragi, f. 1973, efnafræðingur, maki Fjóla Þorgeirsdóttir, f. 1972. Börn þeirra eru: a) Emil Draupnir, f. 1998. b) María Glóð, f. 2000, maki Ellert Kárason, f. 1998. c) Kai Embl, f. 2007.

Sigurður fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur á fjórða aldursári. Hann varð stúdent frá MR 1955 og hóf síðan nám í byggingarverkfræði við Tækniháskólinn í Karlsruhe, en skipti síðan yfir í landmælingar. Hann vann hjá Landmælingum Íslands og Íslenskum aðalverktökum 1959-1965. Á því tímabili starfaði hann m.a. við landmælingar og kortagerð í Íran (Persíu). Frá 1965 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá I. Pálmasyni hf., fyrst við að selja búnað og veiðarfæri fyrir fiskveiðiskip, en síðan á sviði eldvarna. Árið 1986 tók hann við starfi framkvæmdastjóra hjá Pálmari hf., sem seldi búnað til eldvarna. Því næst gekk hann til liðs við Securitas hf. og starfaði þar sem sölustjóri brunakerfa frá 1989 til 1999. Sigurður var einn af stofnendum Misturkerfa ehf., sem flytur inn og hannar úðaslökkvikerfi, og rak það fyrirtæki frá árinu 2007 til starfsloka.

Sigurður verður jarðsunginn frá Bústaðarkirkju í dag, 29. desember 2023, og hefst athöfnin kl. 13.

Streymt verður frá útförinni, sjá:

https://streyma.is/streymi/

Þá hefur elsku pabbi minn kvatt okkur og er margs að minnast. Starfsferill pabba sýnir glöggt hversu tæknilega sinnaður hann var. Byggingaverkfræði, landmælingar, búnaður fyrir sjávarútveg og síðan það sem hann starfaði að lengst af – eldvarnir. Á sviði eldvarna var hann kominn á sinn heimavöll, seldi og þjónustaði eldvarnabúnað, leitaði uppi og markaðssetti nýjungar til að auka öryggi bæði til sjávar og sveita.

Árið 1983 bætti pabbi við tölvudeild innan I. Pálmasonar hf. og hóf innflutning á Formosa-tölvum. Þarna var ég orðinn 10 ára gamall og gerði mér reglulega ferð úr Hlíðunum yfir í Ármúla að heimsækja pabba í vinnuna. Auðvitað var það líka ætlun mín að komast í tölvu, sem var spennandi fyrir pjakk eins og mig. Pabbi var stórhuga, því hann hafði hug á að setja saman tölvur á Íslandi – mig minnir að vinnuheiti tölvunnar hafi verið Edda64. Það varð ekkert úr því og að endingu hætti hann innflutningi á tölvum og einbeitti sér að eldvörnunum.

Pabbi fór alltaf sínar eigin leiðir. Eitt dæmið er þegar hann leitaði uppi bílasölur á netinu sem voru með gott úrval af þýskum metanbílum. Þá sló hann tvær flugur í einu höggi, hafði samband við mig þar sem ég starfaði á Ítalíu og við hittumst í Frankfurt. Þar tókum við bílaleigubíl og keyrðum suður til Mannheim og keyptum bílinn sem hann hafði áhuga á. Við dóluðum okkur svo á nýja bílnum áleiðis til Rotterdam, með viðkomu í Frakklandi, Lúxemborg og Belgíu. Á ferðalagi okkar skoðuðum við þau söfn sem vöktu áhuga okkar, ræddum saman og tengdumst betur – ég minnist þessarar ferðar oft.

Fyrir um fimm árum fékk pabbi heilablóðfall í kjölfar blóðsýkingar og lamaðist vinstra megin. Um tíma hélt fjölskyldan jafnvel að hans tímin væri kominn. En það var aldeilis ekki – við fengum fimm ár í viðbót. Pabbi var skýr í hugsun og samkvæmur sjálfum sér eftir áfallið. Hann var þakklátur fyrir að komast að á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Starfsfólk Sóltúns á mikið hrós skilið fyrir frábæra umönnun og sagði pabbi oft þegar ég kvaddi eftir heimsókn „hafðu engar áhyggjur af mér, það er vel hugsað um mig“. Við innréttingu á íbúðinni var mikilvægast fyrir pabba að fá uppsetta tölvu með góðri nettengingu. Í frítíma sínum var hann límdur fyrir framan tölvuna og þar var viðfangsefnið oftar en ekki að skoða nýjungar. Umræðuefni í heimsóknum var að fá fréttir af fólkinu sínu, hvernig gengi að gera upp Heiðargerðið, og auðvitað að spjalla um nýjungarnar sem hann var að lesa sér til um á netinu.

Á síðustu dögum pabba sátum við, fjölskyldan hans, á vöktum hjá honum ef kallið kæmi. Á þessum tíma var starfsfólk Sóltúns innilegt, nærgætið og hjálpsamt. Fjölskyldan þakkar þeim innilega fyrir allt það sem þau gerðu fyrir pabba.

Elsku pabbi minn, ég kveð þig með söknuð í hjarta.

Baldur Bragi Sigurðsson.

Elsku pabbi minn, þá er hinsta kveðjustundin runnin upp. Það er söknuður í hjarta og ég er smám saman að átta mig á því að þú sért farinn. Að vera á ferðinni í bænum og geta ekki lengur komið við hjá þér í Sóltúni, þar sem þú dvaldist síðustu árin. Að eiga ekki von á símtali frá þér um kvöldmatarleytið til að hlera hvort allt gangi ekki vel hjá mér og mínum.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þig sem föður. Ég verð þó að játa, að um tíma sá ég ekki hversu lánsamur ég var. Framan af glímdir þú við vanda sem snerti okkur öll, þó að þú værir okkur samt alltaf góður. Að endingu játaðir þú þig sigraðan og leitaðir þér hjálpar. Það var kaldhæðnislegt að um svipað leyti festist ég í sama kviksyndinu og þú hafðir losnað úr. Þegar ég hafði náð mínum botni gat ég blessunarlega leitað til þín og þú hjálpaðir mér að stíga mín fyrstu skref til bata.

Margs er að minnast þessa áratugi sem við áttum saman. Þú hvattir mig ætíð til dáða og studdir mig í því sem ég tók mér fyrir hendur. Þú heimsóttir mig reglulega þegar ég bjó erlendis, sérstaklega ef þú gast orðið að liði. Til að mynda varstu viðstaddur doktorsvörn mína á vesturströnd Bandaríkjanna og komst síðan skömmu síðar aftur til að hjálpa mér að undirbúa flutning heim til Íslands. Ég gleymi aldrei feðgaferðalagi okkar og Einars Loga er við ókum þvert yfir Bandaríkin og þeim ævintýrum sem við lentum í. Ekki er langt síðan við minntumst þess er við urðum næstum bensínlausir fjarri mannabyggðum í þjóðgarði í Utah, þegar húmið lagðist að, og fagnaðar okkar er glitti loks í bensínstöð.

Þú varst alla tíð andlega sinnaður. Ég man eftir því sem ungur piltur að við bræðurnir fengum fyrirmæli um að ónáða þig ekki þegar þú dróst þig í hlé til að sinna innhverfri íhugun. Saman vorum við í samtökum sem byggjast á andlegum grunni og þroskandi vegferð. Þú starfaðir líka að mannrækt í Frímúrarareglunni í rúm 50 ár, þar sem þú varst margheiðraður fyrir störf þín.

Þú mættir ávallt lífinu af hugrekki. Það sást vel þegar þú lamaðist á vinstri hlið fyrir nokkrum árum. Á augabragði var fótunum kippt undan þér, í orðsins fyllstu merkingu. Þér var skiljanlega mjög brugðið við áfallið, enda varstu alltaf á ferðinni. Ég sá sorg þína og von um bata sem aldrei kom. Fátt hefur haft jafn mikil áhrif á mig og að fylgjast með þér sættast við þitt hlutskipti og upplifa breytingarnar á lífsviðhorfi þínu sem fylgdu í kjölfarið. Þú barmaðir þér aldrei vegna örlaga þinna, það bar hvorki á biturð né uppgjöf. Þegar eftirsjá bar á góma sneri hún ætíð að því sem þú hefðir getað gert betur í lífinu. Hin síðustu ár hef ég dáðst að æðruleysinu, kærleikanum og þakklætinu sem þú sýndir öllum í kringum þig.

Það er stutt síðan við ræddum um trú og dauðann, sem þú kallaðir umbreytingu. Þú trúðir því að það yrði tekið vel á móti þér handan við móðuna miklu. Ég þakka þér samfylgdina elsku pabbi. Þú varst mér góð fyrirmynd fram í andlátið og minning þín mun lifa með mér. Vegni þér vel á nýjum slóðum.

Þinn

Snorri Þór.

Þegar ég hugsa til baka kemur sterk minning í hugann. Ég er 10 ára gamall, búinn að taka tíuna úr Árbænum niður í bæ í heimsókn í I. Pálmason sem þá var til húsa á Vesturgötu 3. Pabbi vinkar mér brosandi út um gluggann á skrifstofu sinni sem snýr að portinu. Ég hleyp upp stigann og upp á aðalhæðina á þessu litla innflutningsfyrirtæki. Allt svolítið eins og í James Bond-mynd, alls konar framandi tæki og tól til sýnis, fólk að störfum, í símanum, að vélrita og ég heyri í telexvélinni sem sendir skeyti yfir Atlantshafið, sennilega að panta slökkvitæki, reykskynjara, eða kraftblokk í skip. Pabbi tekur á móti mér og við förum inn í reykfyllta skrifstofuna. Í horni skrifstofunnar er stórt hnattlíkan og inni í því barinn. Þarna var pabbi kóngur í ríki sínu og við systkinin alltaf velkomin í heimsókn. Brátt vorum við farin að sýsla eitthvað, hella upp á kaffi, sendast, og auðvitað að líma íslenskar merkingar á slökkvitæki og pakka inn. I. Pálmason var okkar annað heimili. Þaðan komu vatnsslökkvitækin sem við vinirnir (busarnir) földum í Öskjuhlíð og gerðum vatnsuppreisn í busavígslu MH.

Pabbi fann alltaf eitthvað handa okkur að gera, verkefni til að leysa. Hann var mikill fjölskyldumaður, og vildi hafa okkur í kringum sig. Pabbi var mjög áhugasamur um að við systkinin færum í nám. Þegar ég hóf nám í arkitektúr í Berlín sýndi hann því mikinn áhuga enda hafði hann lært byggingarverkfræði í Karlsruhe. Minnisstætt er þegar hann kom í heimsókn. Við fórum í gegnum Checkpoint Charlie og yfir í Austur-Berlín. Hann hafði farið á ótal vörusýningar í Þýskalandi, átt viðskipti í Austur-Þýskalandi og þekkti sig vel á þessum slóðum. Eftir ferðina ræddum við um það hversu lengi múrinn myndi standa, kannski 20 eða 50, 100 ár? Við reyndumst sannarlega ekki sannspáir, því múrinn féll í næsta mánuði.

Áður en pabbi veiktist átti ég þess kost að fara með honum í ferð til Washington DC. Þar gátum við deilt áhugamáli okkar um sögu og þrammað milli helstu minnismerkja, bygginga og safna borgarinnar og átti geimvísindasafnið hug okkar allan. Við ræddum á dýpt margt sem á daga hans hafði drifið, ungur strákur í hernumdri Reykjavík, sjómennsku, lífshlaupið í heild sinni, sigra og ósigra.

Eftir að pabbi flutti í Sóltún, þar sem hann bjó síðustu fimm ár ævinnar, varð íbúðin hans menningarmiðstöð fjölskyldunar. Mamma kom næstum daglega og las fyrir hann og komst enginn í hálfkvisti við hana í upplestri. Hann tók einstaklega vel á móti gestum og bauð í betri stofu, sýndi öllum áhuga og fylgdist með öllu sem fólk var að sýsla af áhuga og gladdist yfir því sem vel gekk. Þar skipti aldur engu máli. Okkar sýsl var hans áhugamál. Ég mun sakna samræðna um fólkið okkar, pólitík, nýjustu tækni og uppgötvanir, arkitektúr, þéttingu byggðar og borgarlínu. Undir það síðasta voru helstu áhugamálin grænt eldsneyti fyrir flugvélar sem skyldi framleitt hér á landi og sjávarfallavirkjanir. Nú á kveðjustund reikar hugurinn til framtíðar þar sem ný tækni og lausnir bíða hér og í sumarlandinu.

Gunnar Örn Sigurðsson.

Leiðir okkar Sigurðar tengdaföður míns hafa legið saman í rúmlega fimm áratugi. Ég var menntaskólapiltur er ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir einkadóttur hans.

Sigurður var einstaklega viðræðugóður og áhugasamur um flest dægurmál hverju sinni. Hann var einstaklega fróður um margt. Hann hafði þann eiginleika að geta dregið fram viðhorf viðmælanda án þess þó endilega að blanda eigin afstöðu til mála. Þá var hann oft í hlutverki greinandans.

Það var gefandi að heimsækja hann og fræðast og finna stuðning hans í þeim verkefnum sem við fengumst við. Einkennandi fyrir Sigurð var að hann var vakinn og sofinn yfir velferð fjölskyldu sinnar. Hann fylgdist mjög vel með börnum sínum og barnabörnum alla tíð. Alltaf sá hann jákvæð tækifæri á vegferð þeirra og hvatti þau til dáða.

Sigurður varði tíma sínum gjarnan í að afla upplýsinga um ýmsar nýjungar varðandi tæknilegar framfarir. Sérstaklega voru orku- og virkjunarmál honum hugleikin í seinni tíð, sérstaklega virkjun sjávarfalla. Hann var vel að sér í notkun tölva og snjallsíma og var fljótur að losa sig við reiknistokkinn þegar tölvan kom til skjalanna. Veraldarvefurinn gaf honum tækifæri til þess að sinna hugðarefnum sínum og afla nauðsynlegra gagna. Hann horfði til framtíðar, nýrra tækifæra og nýrra verkefna. Þar naut hann sín best.

Sigurður átti fjölbreyttan starfsferil. Hann var stúdent frá MR 1955 og stundaði nám í verkfræði í Þýskalandi. Vann við landmælingar í Persíu og á Íslandi fram til 1962 er hann hóf störf hjá I. Pálmasyni hf. sem framkvæmdastjóri.

Faðir Sigurðar, Ingvar Pálmason frá Norðfirði, skipstjóri og útgerðarmaður, stofnaði fyrirtækið. Starfsemi þess var fyrstu árin í kringum kraftblökkina, sem leiddi til byltingar í uppsjávarveiðum Íslendinga. Jafnframt sérhæfði fyrirtækið sig í eldvörnum og var um tíma leiðandi á því sviði.

Í þjónustu við sjávarútveginn og eldvarnir nýttust starfskraftar Sigurðar vel. Síðar gekk hann til liðs við Securitas hf. sem sölustjóri á sviði eldvarna. Eftir að eftirlaunaaldri var náð starfrækti hann fyrirtæki sem sérhæfði sig í sölu misturkerfa.

Sigurður hafði einstaka ánægju af ferðalögum og fór reglulega í viðskiptaferðir til þess að fylgjast með nýjungum á sínu sviði. Auk þess sem hann hafði ánægju af að ferðast bæði erlendis og innanlands á nýja og áður óþekkta staði. Hann heimsótti bæði börn sín og barnabörn sem búið hafa erlendis og lét sig ekki vanta á tímamótum þegar tvö af börnum hans luku doktorsnámi í USA og Svíþjóð.

Í einni af síðustu ferðum okkar saman til Belgíu í heimsókn til sonar okkar og fjölskyldu, fundum við svo vel þá ánægju sem hann hafði af ferðalögum og samveru með fólkinu sínu. Það minnti okkur á gamla tíma þegar hann heimsótti okkur reglulega til Gautaborgar á námsárunum. Þetta voru ógleymanlegar stundir sem líða okkur seint úr minni.

Að leiðarlokum vil ég þakka Sigurði fyrir samfylgdina og þann velvilja sem hann ávallt sýndi mér. Blessuð sé minning hans.

Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Þegar ég var yngri bauð afi mér og Maríu frænku minni oft í Kolaportið. Það var alltaf skemmtileg ferð að fá að hlaupa um Kolaportið með smá pening sem afi gaf okkur og skoða allt sem okkur fannst spennandi. Eftir þetta hlaup hittum við svo afa á kaffihúsinu og fengum okkur eitthvað að snæða. Í eitt skipti sem við fórum þangað fann ég fallegt hálsmen með krossi sem ég ákvað að kaupa. Ég var líklegast í kringum 12 ára og ég var staðráðin í að ég myndi fermast með þennan kross. Ég stóð við mitt heiti og á enn krossinn næstum 10 árum seinna. Krossinn er mér því mjög kær vegna minninganna sem fylgja.

Þegar ég hugsa um afa er það fyrsta sem kemur í hugann hvað hann var yndislegur. Algjör fjölskyldumaður sem passaði alltaf upp á að öllum liði sem best hjá sér. Ég hef aldrei séð hann reiðan né pirraðan, alltaf rólegur og uppfullur af ást. Hann sýndi mér hvað alvöruást væri. Hann talaði alltaf svo fallega um ömmu, alltaf jafn yfir sig ástfanginn af henni og óhræddur að sýna það.

Ég man svo vel eftir því þegar hann var fluttur á Sóltún. Hann var með mynd af ömmu þegar hún var yngri. Ég var hjá honum og við vorum að spjalla þegar hann svo benti á þessa mynd og sagði: „Þarna er stelpan sem ég er svo rosalega skotinn í!“ Í viðtali sem Kári bróðir minn tók við hann í íslenskuáfanga í MH sagði afi: „Í partíinu sá ég þessa gullfallegu konu frá Bolungarvík og ég varð yfir mig ástfanginn af henni og hef ekki sleppt henni síðan.“

Honum þótti svo vænt um fjölskylduna sína og hvað allir væru að gera í lífinu. Alltaf svo stoltur af fólkinu sínu. Manni leið alltaf vel eftir heimsóknir hjá afa. Sama hvað þá dæmdi hann aldrei, heldur vildi hann bara það besta fyrir mann.

Ég á margar góðar minningar með afa mínum. Hann var alltaf til staðar fyrir mig, og alltaf var hann til í að sækja mig, hvort sem var í Tónskóla Sigursveins eða á fótboltaæfingu hjá Val.

Bryndís Gunnarsdóttir.

Þegar ég hugsa um afa minn minnist ég helst góðra stunda í Kolaportinu, þar sem ég var einstaklega hæf í að plata afa með mér í leiðangur. Við röltum oft um og prófuðum gleraugu í stórum básum, skoðuðum skart, skó, leikföng og allan pakkann. Við enduðum alltaf á því að kaupa íslenskar pönnukökur og koma með heim til ömmu og gæða okkur á þeim. Afi var alltaf til í að eyða gæðastund með manni, hann bauð alltaf upp á grænan ópal þegar sest var í bílinn og lagt var af stað í ævintýri. Ég minnist einnig þess að horfa á ömmu og afa saman og sjá ástina sem skein á milli þeirra, afi lýsti því stundum með stjörnur í augum að þegar hann sá ömmu í fyrsta sinn hafi alger bomba gengið á móti honum! Ég er einstaklega þakklát fyrir þessar minningar og þær stundir sem við áttum saman og veit að við munum hittast aftur, hvar sem það verður. (María)

Besta minningin mín um afa var hvað hann dekraði við okkur, oft gaf hann okkur góðgæti eins og ís og þess háttar. En það var ást hans á okkur systkinunum sem gerði hann svo sannarlega að besta afa í heimi. Hann var ekki bara afi okkar, heldur fyrirmynd, vinur og einn ljúfasti maður sem við áttum heiðurinn af að kynnast. (Kai)

María Glóð og Kai Baldursbörn.

Þegar ég hugsa til baka einkenna hlýja og gleði allar mínar minningar um Sigga frænda. Ég man fyrst eftir honum sem einum af öllu þessu frændfólki sem kom eða dvaldi í Barmahlíðinni hjá ömmu og afa í lengri eða skemmri tíma. Fólk kom og fór og allir voru frænkur eða frændur. Þegar ég eldist fer ég smám saman að gera mér grein fyrir því að Siggi var meiri frændi en öll þau hin. Að Sirrý undanskilinni. Hún var mesta frænkan, og hún var dóttir Sigga og hefur þar að auki erft hans skaphöfn. Meiri festa kemur því í myndina af Sigga frænda – bæði með auknum aldri mínum en líka eftir að Lauga kom. Og síðan strákarnir þeirra þrír, fyrst Snorri, svo Gunnar og að lokum Baldur Bragi.

Það er áhugavert að sjá hvernig tengsl þróast. Siggi var nefnilega (litli) bróðir hennar mömmu. Og það einkenndi að mestu samband okkar á seinni árum. Mikill kærleikur var á milli þeirra systkina og mamma talaði alltaf af svo miklum hlýleika um bróður sinn. Og hann nefndi oft hvað hann saknaði hennar eftir að hún var látin. Síðustu árin sem þau bæði lifðu voru þau á hjúkrunarheimili. Því miður ekki því sama, því ég er viss um að mamma hefði strax stokkið inn í stórusysturhlutverkið til að aðstoða Sigga sem var þá bundinn við hjólastól. Síðustu misserin áður en mamma dó gátu þau ekki hist vegna Covid-takmarkana en héldu áfram daglegu sambandi í gegnum síma – og í gegnum Laugu. Svipuðu símasambandi og þau áttu við Pálma bróður sinn sem bjó í Seattle sín síðustu ár.

Skaphöfn Sigga er það sem situr sterkast eftir í minningunni. Það lýsir skaphöfn hans vel hvernig hann af æðruleysi tókst á við afleiðingar heilablóðfallsins. Að vera bundinn við hjólastól, að geta ekki farið aftur heim í Grænuhlíðina. En með lífsviljann að vopni tókst honum að vera áfram sami blíði og jákvæði Siggi. Halda áfram að hafa áhuga á öllu milli himins og jarðar, fylgjast vel með bæði fólkinu sínu og atburðum nær og fjær. Þegar maður kom í heimsókn sat hann gjarnan við tölvuna og sagði manni þá – logandi af áhuga – hvað hann hefði verið að grúska. Vildi alltaf ræða við mig um efnahagsmál og skilja hvað væri í raun í gangi bak við fréttirnar.

Hlýjan og gleðin sem skein af honum mun lifa áfram með mér.

Rannveig Sigurðardóttir.

hinsta kveðja

Kveðja til besta vinar

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Kristmundur B. Hannesson, Steingerður Steinsdóttir og börn.