Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Það kann að vera að kenningar Thomasar Malthusar rætist á íslensku samfélagi með megináherslu á eftirsókn eftir óarðbærum atvinnutækifærum.

Vilhjálmur Bjarnason

Jólaguðspjallið væri á annan veg ef ekki hefði komið boð frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Skrásetning heimsbyggðarinnar byggðist á þrá keisarans eftir því að ná sköttum af þegnum sínum.

Það sama á við Þjóðskrána á Íslandi. Þjóðskráin þjónar fjármálaráðuneytinu. Að auki þjónar Þjóðskrá Orku náttúrunnar svo hægt sé að innheimta fyrir rafmagn, og heilbrigðisyfirvöldum svo hægt sé að vinna á COVID og berklum.

Svo eru einstaka furðufuglar sem vilja vita hvað landsbúar eru margir. Ritari er í þeim flokki.

Mannfjöldi í rás tímans

Manntal Ágústusar keisara er ekki til en við vitum um nokkur önnur. Elsta þjóðarmanntal í veröldinni er Manntal á Íslandi 1703, þó sennilega vanti íbúa Viðeyjar í það manntal. Samkvæmt manntalinu voru landsmenn 50.358.

Á árunum sem á eftir komu gerðist ýmislegt. Það varð mannfækkun af hallærum eftir móðuharðindi. Samkvæmt opinberum tölum virðast landmenn hafa orðið fæstir árið 1787 en þá voru þeir 39.190. Það var í kjölfar móðuharðinda, sennilega mesta eldgoss á sögulegum tíma á Íslandi. Um síðustu aldamót voru Íslendingar um 279.000, en það er um 1,5% fjölgun á ári.

Nú stefnir í að landsmenn verði 400.000 á allra næstu mánuðum. Og er það eftirsóknarvert?

Náttúruleg fjölgun

Náttúruleg fjölgun ræðst af fæðingum og dauða þeirra sem fyrir eru í landinu. Aðrar breytingar á fólksfjölda stafa af aðflutningi og brottflutningi fólks til og frá landinu. Fæðingar eru komnar niður fyrir náttúrulega fjölgun með því að fæðingar eru sem næst 1,7 á ævi konu. Til þess að viðhalda mannfjölda þurfa fæðingar á hverja konu að vera rúmlega tvær.

Með því að fæðingartíðni er komin niður fyrir mörk þess að viðhalda mannfjölda þá vaknar sú spurning hvort önnur þjóð sé að yfirtaka landið.

Íbúðabyggingar á höfuðborgarsvæðinu taka mið af náttúrulegri fjölgun en stjórnvöld horfast ekki í augun á því að verðhækkanir á íbúðarhúsnæði taki mið af aðflutningi fólks.

Hugsjónafólk á vinstri væng stjórnmála vilja opna allar gáttir með „No Border“. Með því opnast fyrir aðflutninga á alla íbúa sem vilja flytja af upprunasvæði sínu,

Getur Ísland tekið við ótakmörkuðum straumi fólk frá Afganistan, Írak, Palestínu, Úkraínu, Nígeríu, Sómalíu og Venesúela? Það er einfalt að bera fólksfjölda í þessum löndum saman við íbúafjölda á Íslandi. Þá sést að það er einfalt að skipta um þjóð.

Með komu flóttamana fylgja tíðast fjölskyldusameiningar, aldraðir foreldrar bætast hægt og bítandi við og auka á vanda heilbrigðistofnana sem þó er ærinn fyrir. Til er nokkuð sem heitir „welfare migration“. Nokkuð er um að Íslendingar flytji á „sósíalinn“ í Danmörku og Svíþjóð.

Eru þau 30% landsbúa sem greiða skatta tilbúin til að greiða fyrir „welfare migration“? Ekki veit ég til þess að skattgreiðendur hafi verið spurðir, enda varla spurðir nema í kosningum.

Thomas Malthus, fólksfjölgun og atvinnustefna

Skoski presturinn Thomas Malthus taldi að lífskjör myndu að lokum hrynja við ákveðna fólksfjölgun. Forsenda kenninga hans var að matvælaframleiðsla gæti ekki vaxið með sama hætti og veldisvísafólksfjölgun. Að lokum yrði hrun í lífskjörum.

Vísindasamfélagið hefur um margt staðið undir lífskjörum í landinu. Upp úr 1970 var megináhersla í atvinnuuppbyggingu lögð á störf fyrir ófaglært verkafólk. Nú er hraðfrystiiðnaðurinn ekki lengur starfsgrein fyrir ófaglærða. Greinin er hátækniiðnaður þar sem vélauga tekur mannsauganu fram. Þökk sé vísindasamfélaginu.

Nú eru nýjar beiðnir. Bændasamtökin fara fram á ótakmarkaða styrki til landbúnaðarframleiðslu í nafni „fæðuöryggis“, í stað þess að gera atvinnugreinina samkeppnishæfa við aðrar atvinnugreinar. Það var svo snemma sem árið 1924 að landbúnaður gat ekki keppt við aðrar atvinnugreinar um vinnuafl.

Það kann að vera að kenningar Thomasar Malthusar rætist á íslensku samfélagi með megináherslu á eftirsókn eftir óarðbærum atvinnutækifærum.

Vísindasamfélag og hátækni

Hin mikla fólksfjölgun og aðflutningur fólks byggist þrátt fyrir allt á vísindum og hátækni. Ferðaþjónusta hefur nýtt framfarir í fjarskiptum í bókunarkerfum. Hinu er þó ekki að leyna að vexti ferðaþjónustunnar hefur fylgt mikill aðflutningur fólks til láglaunastarfa í hótel- og veitingarekstri. Flugfélög byggja rekstur sinn á áreiðanlegum flugvélum með lága bilanatíðni sem nýta eldsneyti betur en undanfarar þeirra.

Ekkert af þessu eru uppfinningar íslenskra stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld hafa fremur kosið að efla sútunariðnað.

Sennilega er launaójöfnuður óvíða meiri en í ferðaþjónustugreinum en þó ekki meiri ójöfnuður en í Mesopotamiu.

Raforkuframleiðsla byggist á hugviti og tækni við málmgreiningu.

Framlag „Íslenskrar erfðagreiningar“ er ekki eins augljóst og framfarir í bókunarkerfum sem hafa skilað í bættum lífskjörum. Framfarir í grunnrannsóknum skila bættum lífskjörum og aukinni lifun á mjög löngum tíma.

Kjarasamningar og lífskjör

Það er með öllu óskiljanlegt hvernig væntanlegir kjarasamningar eiga að skila bættum lífskjörum. Vaxtabætur, húsnæðisbætur og barnabætur, sem eru efst á kröfulista verkalýðsrekenda, hljóta að eiga sér mótfærslu í skattaálögum. Ofurskattar byrja ávallt á þeim launum sem framhaldsskólakennarar bera úr býtum fyrir að kenna í yfirvinnu.

Uppfylling krafna verkalýðsrekenda á hendur ríkisvaldinu bætir ekki lífskjör, miklu fremur að hún færi landsbúann nær lífskjarahruni Malthusar.

Aðkoma ríkisvaldsins að kjarasamningum er beinlínis hættuleg enda gerir vinnulöggjöfin ráð fyrir því að launtakar og atvinnurekendur semji um kaup og kjör sín á milli en beini ekki kröfum sínum að þriðja aðila.

Lífskjör og berklar

Laun munu ávallt miðast við jaðartekjur í framleiðslu en ekki óskhyggju. Vera kann að utanaðkomandi atriði hafi áhrif á framleiðsluþætti án þess að við verði ráðið.

„Að minnsta kosti er sullurinn í voðalegum stað. Hvað lúngum viðvíkur útaf fyrir sig, þá er ekki ofsögum sagt að skröltið í berklunum heyrist langar leiðir.“

Þjóðskrá átti sinn þátt í að útrýma berklum en sennilega tekst að koma nýjum berklum í efnahagsvélina með aðgæsluleysi í aðflutningi fólks og arfavitlausum kjarasamningum.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason