Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík er manneskja ársins að mati lesenda Smartlands.
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík er manneskja ársins að mati lesenda Smartlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er auðvitað bara mjög þakklátur fyrir þessa hugulsemi hjá lesendum. Ég lít á þessa tilnefningu sem heiður fyrir Grindvíkinga. Ég er ekkert annað en bara talsmaður þeirra. Ég vil þakka lesendum blaðsins fyrir að sýna okkur þessa samkennd sem við…

Ég er auðvitað bara mjög þakklátur fyrir þessa hugulsemi hjá lesendum. Ég lít á þessa tilnefningu sem heiður fyrir Grindvíkinga. Ég er ekkert annað en bara talsmaður þeirra. Ég vil þakka lesendum blaðsins fyrir að sýna okkur þessa samkennd sem við höfum fundið fyrir,“ segir Fannar aðspurður, hvernig honum finnist að vera valinn manneskja ársins af lesendum.

Fannar hefur vakið athygli fyrir að sýna yfirvegun í aðstæðunum í Grindavík. Þegar hann er spurður að því hvernig hann fari að því að vera svona yfirvegaður segir hann að það hjálpi ekki til að fara í panikástand.

„Ég fer sjaldan í panikástand. Það hjálpar til að sýna yfirvegun. Ég sker mig nú kannski ekki úr en það er gott að reyna að einbeita sér að verkefnunum þó þau séu erfið. Sama hvernig aðstæður eru hverju sinni,“ segir hann.

Þegar Fannar er spurður að því hvernig honum líði segir hann að sér líði alls ekki illa þrátt fyrir áhyggjur.

„Mér líður alls ekkert illa. Ég hef miklu meiri áhyggjur af mörgum í Grindavík þar sem fólk býr við erfiðar aðstæður hvað varðar húsnæði og skuldir. Svo er fólk kannski með börn í skólanum og þótt þetta hafi gengið vel þá er þetta erfitt.

Ég hef ekki undan neinu að kvarta því við hjónin höfum það ágætt. Þetta er stórt verkefni,“ segir Fannar.

Hvernig eru dagarnir hjá þér?

„Dagarnir hjá mér eru þéttsetnir á fundum. Ég hef viljað vera tengdur inn í flestöll mál til að geta unnið vel. Mér finnst það mikilvægt til þess að ná heildarsýn yfir stöðuna. Að geta miðlað á milli þessara mörgu hópa og þeirrar teymisvinnu sem er í gangi hjá okkur,“ segir hann.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er Fannar bjartsýnn.

„Ég sannfærður um að Grindvík muni ná sínum fyrri styrk. Við erum að þrýsta á það núna að það verði reistir varnargarðar sem verji Grindavík fyrir hraunflæði. Við horfum til Vestmannaeyja í þessu sambandi þar sem útlitið var ekki gott fyrir 50 árum en er nú glæsilegt bæjarfélag. Við stefnum á að Grindavík verði þannig fyrr en síðar,“ segir hann.

Hvernig leggst 2024 í þig?

„Það er auðvitað óþægilegt fyrir okkur í Grindavík hversu mikil óvissa er með framtíðina. Fjögur eldgos á fjórum árum hafa tekið á. Vísindasamfélagið segir að Reykjanesið sé vaknað úr dvala og að líklegt sé að það muni gjósa annars staðar á Reykjanesinu. Það veldur okkur mestum áhyggjum. Við erum hins vegar orðin vön jarðskjálftum og eldgosum og landrisi. Undirbúningur okkar er klár fyrir það sem kann að gerast á næsta ári og í framtíðinni. Það styrkir okkur í þeirri trú um að við munum fara sem skaðaminnst út úr þessu,“ segir Fannar.

Fannar er ótvíræður sigurvegari og má hér sjá brot af þeim ummælum sem voru látin falla um Fannar í kjörinu um manneskju ársins 2023.

Næstu fimm í kjörinu!

Ester Harðardóttir, starfsmaður í launa- og bókhaldsdeild Bónuss, varð í 2. sæti í kjörinu á manneskju ársins. Hún fékk óumbeðna athygli þegar Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur varð ósáttur við að bókin Þriðja vaktin var ekki tekin inn í jólabókaflóðið í Bónus. „Fyrir að hafa þolað og ekki látið undan hótunum og netofbeldi Þorsteins hjá Karlmennskunni í þeim tilgangi að þvinga Bónus til að selja bókina sína,“ var meðal annars sagt um Ester.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., var í þriðja sæti í kjörinu á manneskju ársins. „Gefst ekki upp,“ var sagt um Kristján sem var í eldlínunni í sumar þegar tímabundið hvalveiðibann var sett á.

Móðirin Edda Björk Arnardóttir hefur vakið athygli vegna forsjárdeilu sem hún á í við barnsföður sinn í Noregi. „Veður eld og brennistein fyrir börnin sín í vonlausum aðstæðum, ótrúlega hugrökk mannvera,“ var meðal annars sagt um Eddu Björk.

Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason fékk fjölmörg atkvæði í kosningunni. „Þorir að ræða um það sem aðrir þora ekki,“ var meðal annars sagt um Frosta.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fékk flest atkvæði stjórnmálamanna. „Fyrir óbilandi og einlæga baráttu gegn fátækt,“ var meðal annars sagt um Ingu.

Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir kom, sá og sigraði á árinu. Hún fékk atkvæði í kosningunni fyrir tónlist sína og var sá listamaður sem fékk flest atkvæði. „Frábær listamaður sem hefur sigrað heiminn á einu ári,“ var meðal annars sagt um Laufeyju.

„Tók vel á öllum málum þar, alltaf yfirvegaður og rökfastur. Ekkert smá álag að eiga við allt þetta fólk.“

„Hann sýnir mikinn áhuga á velferð og öryggi fólksins í Grindavík. Er bæði ábyggilegur í sínu starfi og róandi í tali.“

„Hann hefur staðið í brúnni gegnum allar hremmingar Grindvíkinga og kemur alltaf fyrir með miklu jafnaðargeði og skynsemi. Þörf á fleiri svona bæjarstjórum. Rosalegt álag sem hann sinnir á hlutlausan en mjög trúverðugan hátt í öllu upplýsingaflæðinu. Gleymist um leið að hann á líka heimili þarna og fjölskyldu.“

„Búinn að standa sig frábærlega í gegnum allt sem er búið að ganga á í Grindavík.“

„Hann er búinn að standa sig eins og hetja.“

„Staðið sig með prýði í öllum þessum jarðhræringum og sérstaklega eftir rýminguna á bænum okkar, hann er bæjarbúi alveg eins og við hin, samt staðið sína plikt ásamt sínu fólki og öllum viðbragðsaðilum sem má líka hrósa eins og Landsbjörg einnig.“

„Hefur staðið sig einstaklega vel á erfiðum tímum. Rólegur, yfirvegaður og traustur.“

„Ekki auðvelt verk að bera ábyrgð á heilu bæjarfélagi við þessar aðstæður, hvað þá þegar það dreifist um allt land og þurfa að sýna styrkleika fyrir framan þjóðina alla. Sem bæjarstjóri Grindavíkur er hann búinn að halda samfélaginu saman eins og hægt er með ró sinni og stillingu á þessum erfiðum tímum.“

„Gull af manni. Ég þekki manninn ekkert en lýsir alveg öryggið af honum í þessum erfiðu kringumstæðum!“

„Hann hefur verið Grindavík til sóma með yfirvegun og æðruleysi en um leið verið hvetjandi og skilningsríkur í garð bæjarbúa.“

„Framganga hans vegna náttúruhamfaranna í Grindavík hefur verið yfirveguð og aðdáunarverð.“

„Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, hefur sýnt það að hann er alvöruleiðtogi sem heldur ró sinni við erfiðar aðstæður.“

„Framganga og leiðtogahæfni fyrir Grindvíkinga í erfiðum og krefjandi aðstæðum á árinu. Hann tók vel utan um sitt fólk með sínum föðurlega faðmi og yfirvegun þannig að eftir var tekið. Ómetanlegt og alls ekki sjálfgefið að eiga slíkan traustan mann að í þessum hörmungum sem gengu yfir.“

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir |