Svíþjóð Evrósjón 2024 verður í Málmhaugum.
Svíþjóð Evrósjón 2024 verður í Málmhaugum. — EBU
Næsta vor verður 68. söngvakeppni Evrósjón haldin í Málmhaugum í Svíþjóð. Hún er helsti merkisberi hnignunar evrópskrar menningar og nýtur víða vinsælda í einstökum menningarkimum, t.d. Íslandi. Vegna ófriðarins í Gasa hafa ýmsir fett fingur út í…

Andrés Magnússon

Næsta vor verður 68. söngvakeppni Evrósjón haldin í Málmhaugum í Svíþjóð. Hún er helsti merkisberi hnignunar evrópskrar menningar og nýtur víða vinsælda í einstökum menningarkimum, t.d. Íslandi.

Vegna ófriðarins í Gasa hafa ýmsir fett fingur út í þátttöku Ísraelsmanna í keppninni og krafist þess að Ísland dragi sig úr henni verði þeim ekki úthýst. Einn Evrópusinninn nefndi því til stuðnings að Ísrael væri ekki einu sinni í Evrópu, en einhver þarf að segja honum frá því að það sé ESB-ríkið Kýpur ekki heldur og sennilega ekki Ástralía.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri útilokaði slíka sniðgöngu og uppskar ótrúleg ónot fyrir vikið, jafnvel frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Hér skal aftur á móti fullyrt að Stefán sé hvorki fasisti né málsvari illskunnar í heiminum.

Hins vegar er þessi hugmynd um sniðgöngu ekki alls ónýt og hér skal skorað á útvarpsstjóra og stjórn Rúv. að taka ekki þátt í söngvakeppni Evrósjón framar eða sýna frá henni. Það er tímabært að lágkúrunni linni.

Höf.: Andrés Magnússon