Mörg mikilvæg mál og sum aðkallandi bíða landsmanna á nýju ári

Árið sem verið er að kveðja bar með sér ýmis og misgóð tíðindi, innlend sem erlend, þar sem styrjaldir héldu áfram eða nýjar hófust. Innanlands voru átökin vissulega af allt öðrum toga sem betur fer, en þó var titringur víða, svo sem á vinnumarkaði og stjórnarheimili, auk þess sem hægar gekk en vonir stóðu til að ná niður verðbólgu. Þá eru ónefndar jarðhræringar með eldgosum – í fleirtölu að þessu sinni – sem sér ekki fyrir endann á.

Komandi ár verður þess vegna sama marki brennt ef að líkum lætur. Eldsumbrot eru yfirvofandi og sumir spá eldgosi á fyrstu dögum ársins og varnargarðar sem á að reisa fyrir ofan Grindavík bera vott um að mark er tekið á spádómum um eldgos, þó að enginn viti með vissu hvenær eða hvar af því verði næst.

Margt fleira bíður landsmanna að takast á við og sem betur fer er flest þess eðlis að þeir hafa meira um það að segja en um eldsumbrot. Mörg mikilvæg mál og sum sem þola enga bið má nefna af því sem er á verkefnalista ársins 2024. Þar má sem dæmi taka skólamál, en sterkar vísbendingar hafa komið fram um að þar sé pottur brotinn og menntun ungra Íslendinga ekki í þeim gæðaflokki sem landsmenn ætlast til. Þetta er óviðunandi og verður ekki frekar en annað leyst með því að stinga höfðinu í sandinn. Til lengri tíma litið er fátt sem hafa mun meiri áhrif á lífskjör í landinu en sú menntun sem æskan hlýtur hverju sinni.

Heilbrigðis- og velferðarmál ættu einnig að verða fyrirferðarmikil og þar má víða gera betur þó að þegar sé unnið af þrótti. Eitt af því sem má bæta er nýting einkaframtaksins á þessum sviðum, en viðhorfsbreyting í þá átt er óhjákvæmileg til að nýta fjármagn betur og veita þannig viðunandi þjónustu fyrir hóflegt verð. Þróunin að undanförnu hefur heldur verið í þessa átt en meira þarf til því að með hækkandi aldri landsmanna vex kostnaður í þessu kerfi og þar með þörfin á að auka hagkvæmni.

Af vettvangi atvinnulífsins má nefna að helsta undirstöðuatvinnugrein landsmanna hefur búið við árásir ráðherra málaflokksins, eins og sjá má af umsögnum þeim sem birtar hafa verið um hugmyndir ráðherrans. Ljóst má vera að þær hugmyndir geta ekki gengið eftir og hljóta að verða lagðar til hliðar. Sjávarútvegurinn þarf ekki síður en aðrar greinar að búa við stöðugt og heilbrigt rekstrarumhverfi og má ekki áfram búa við það rót, uppnám og óvissu sem verið hefur.

Fleira tengt atvinnulífi og afkomu landsmanna til skemmri og lengri tíma kallar á lausn sem allra fyrst á næsta ári og þar eru orkumálin brýnust. Lengi hefur verið varað við því, meðal annars á þessum stað, að það kerfi sem búið hefur verið til utan um framkvæmdir í tengslum við orkuöflun er allt of svifaseint til að hægt sé að tryggja orkuöryggi landsmanna eða eðlilega atvinnuuppbyggingu. Rammaáætlunin sem átti að tryggja það sem kallað var fagleg umgjörð um virkjanir hefur orðið til þess að lama þennan geira og getur ekki gengið sem framtíðarfyrirkomulag. Tímafrekt verður að setja upp annað fyrirkomulag en þangað til er óhjákvæmilegt að Alþingi taki ákvarðanir um næstu virkjanir og hlýtur í því sambandi að verða horft meðal annars til hagkvæmni og eðlilegrar dreifingar þeirra um landið.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa lengi hræðst að takast á við útlendingamál en eins og framvindan hefur verið í þeim málaflokki á liðnum árum verður ekki undan því vikist á nýju ári að stíga skref sem koma honum í eðlilegar skorður. Í því sambandi er sjálfsagt að horfa til framkvæmdar hjá næstu nágrönnum okkar eins og dómsmálaráðherra hefur bent á, nú síðast í tengslum við óraunsæjar kröfur um fjölskyldusameiningar. Tjaldborgin sem reist hefur verið á Austurvelli er ágæt áminning til þingmanna um að málið þolir ekki bið.

Annað sem ekki þolir bið og mun líklega yfirskyggja flest eða allt annað á næstu vikum eru þær kjaraviðræður sem þegar eru hafnar. Þær hefjast á jákvæðum nótum og gefur það vonir um að unnt verði að ná farsælli lendingu og að hún náist á fyrstu vikum ársins. Enn er þó langt í land og svo virðist til dæmis sem aðilar vinnumarkaðarins ætli að gera töluverðar kröfur um aðkomu ríkisvaldsins en almennt er eðlilegt að samið sé án þess að gera óhóflegar kröfur að þessu leyti þó að atbeina ríkisins þurfi gjarnan til á lokametrum. Um þessar mundir, í ljósi hárrar verðbólgu og af þeim sökum hárra vaxta, var ef til vill við því að búast að þrýst yrði á opinbera aðila að taka þátt í hóflegri samningagerð. Sjálfsagt er að það verði gert með því að ríki og sveitarfélög gangi ekki lengra en almenni markaðurinn í kjarasamningum og með því að gjaldskrárhækkunum sé stillt í hóf, en ríkisstjórnin getur til að mynda ekki skaðað trúverðugleika Seðlabankans eða fært óhófleg völd í hendur aðila vinnumarkaðarins frá kjörnum fulltrúum.

Náist farsælir samningar á fyrstu vikum ársins sem tryggt geta stöðugleika verðlags og vaxandi efnahag er mikið unnið og grunnur lagður að áframhaldandi lífskjarabata hér á landi á næsta ári og um lengri framtíð. Það væri mikill sigur og jafnvel óvæntur, en líklega er vissara að fagna honum ekki alveg strax.