Í Hallgrímskirkju Jóhann Nardeau, Eiríkur Örn Pálsson, Ásgeir H. Steingrímsson og Björn Steinar Sólbergsson.
Í Hallgrímskirkju Jóhann Nardeau, Eiríkur Örn Pálsson, Ásgeir H. Steingrímsson og Björn Steinar Sólbergsson. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Konsertorgelið í Hallgrímskirkju, stærsta orgel landsins, var tekið í notkun í desember 1992, og síðan hefur gamla árið verið kvatt með sérstökum orgeltónleikum í kirkjunni á gamlársdag ár hvert undir yfirskriftinni „Hátíðarhljómar við áramót“. Tónleikarnir byrja klukkan 16 á morgun, sunnudaginn 31. desember. Flytjendur eru Jóhann Nardeau trompetleikari og Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju. Trompetleikararnir Ásgeir Hermann Steingrímsson og Eiríkur Örn Pálsson eru sérstakir gestir, en þeir léku á fyrstu tónleikunum og í mörg ár eftir það ásamt Herði Áskelssyni, þáverandi organista kirkjunnar.

Frá árinu 2006 hefur Björn Steinar verið organisti Hallgrímskirkju. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann á Akranesi og Tónskóla þjóðkirkjunnar áður en hann hélt til framhaldsnáms á Ítalíu og í Frakklandi, þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik 1986.

Hann starfaði sem organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju frá árinu 1986 og þar til hann tók við sem organisti í Hallgrímskirkju, þar sem hann hefur jafnframt verið tónlistarstjóri frá júní 2021. Björn Steinar var skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar 2006-2022 og kennir þar orgelleik sem og í Listaháskóla Íslands.

Vinsælir tónleikar

Björn Steinar hefur verið helsti konsertorganisti landsins um árabil. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika heima og erlendis og leikið með mörgum hljómsveitum.

Hann minnir á að samsetning hljóðfæra hafi verið með mismunandi sniði á þessum árlegu tónleikum á gamlársdag í Hallgrímskirkju, en málmblásturshljóðfæri og orgelið hafi alltaf verið í aðalhlutverki. „Dagskráin er jafnan mjög hátíðleg,“ segir hann og bætir við að orgelleikur og málmblásarar séu sérlega góð blanda á stundu sem þessari. Þeir leiki bæði barokkverk og nýrri verk. „Eins og áður verður flutt eitt frægasta orgelverk allra tíma, Tokkata og fúga í d-moll eftir Bach.“

Víða erlendis er sterk og vinsæl hefð að fagna áramótum með þessum hætti og nefnir Björn Steinar Þýskaland sérstaklega í því sambandi. „Tónleikarnir hafa verið mjög vinsælir og fullt út úr dyrum í hvert sinn.“ Fyrir nokkrum árum ákvað hann að bæta við orgeltónleikum á öðrum degi jóla og segir að tilraunin hafi hitt í mark. Margir ferðamenn séu í Reykjavík á þessum tíma og þeir hafi brugðist vel við. Efnisskráin tengist jólunum og á nýafstöðnum tónleikum hafi hann flutt nokkrar af helstu jólaperlum Johanns Sebastians Bachs. Félagar úr kór Hallgrímskirkju hafi sungið með í raddsetningu Bachs. „Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn hafa fjölmennt á þessa tónleika eins og reyndar alla tónleika í kirkjunni.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson