Húðflúrslistamaðurinn Apo Whang-Od birtist á forsíðu Filippseyjaútgáfu Vogue 106 ára gömul.
Húðflúrslistamaðurinn Apo Whang-Od birtist á forsíðu Filippseyjaútgáfu Vogue 106 ára gömul. — Jes Aznar fyrir The New York Times
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er ef til vill ekki lengur hin ákjósanlega frumgerð ungrar konu, en væntingar mínar standa ekki til þess. Ég lít loks út eins og persónan, sem ég hef allan tímann verið innra með mér, full af göllum og flækjum.

Paulina Porizkova

er rithöfundur og fyrrverandi fyrirsæta.

Tískusýningin var í fullum gangi: fallegar ungur konur gengu eftir sýningarpallinum í glitríkum kjólum á meðan sólin settist handan virkisveggja Spilberk-kastala í héraðinu Mæri í Tékklandi. Þetta var sumarkvöld ekki alls fyrir löngu, hlýtt eins og slík kvöld eru eftir brennandi heitan dag. Ég sat, sötraði kampavínið mitt og fann ekki fyrir neinni kvöl yfir því að vera áhorfandi í stað þess að vera þátttakandi. Ég var ekki hér til að vera fyrirsæta, ég þurfti ekki að líta út fyrir að vera fullkomin.

Ég tók eftir óþægilegum, háhæluðum skónum, göngulaginu með mjaðmasveiflu, hnjánum lyft hátt og fætinum tyllt niður með hætti sem alltaf hefur minnt mig á sýningarhesta, hárfín slikja af svita á andlitum, sem annars eru óaðfinnanleg. Þetta var stig fullkomnunar, sem sjaldan sést í náttúrunni. Það var næstum eins og instagramfilter – þetta sem galdrar fram stór, örlítið hallandi augu, smágerð nef, þrýstnar varir og fullkomna húð – hefði verið lagður yfir sýninguna og búin til 20 fullkomin afrit.

Það var einsleitni þarna sem augun á mér runnu einfaldlega af, eins og hrá egg á gleri. Ég veit ég lít ekki út eins og þær – ekki lengur.

Ég er 58 ára gömul og í hvert skipti sem ég tek upp símann minn eða spjaldtölvuna mætir mér spegilmynd af andlitinu á mér, séð neðan frá – mest óaðlaðandi sjónarhorn fyrir nokkra konu sem aldurinn sækir á og húðin á mér er ósjálfbjarga farin að síga niður að fótum mér. Síðan, eins og til að kalla fram grimmilegan samanburð, skrolla ég í gegnum félagsmiðlana mína og á mér dynja myndir af fullkomnum konum: mjúk húð, há kinnbein, barnalega lítil nef og stór augu. Af og til er alvöru gamalli konu hent inn í blönduna. En það er engin viðurkenning á raunverulegri öldrun. Það er eins og fólk fari ungt í gegnum lífið, hverfi svo og endurbirtist síðar sem gamalmenni.

Á netinu geta síur lagað aldurinn ódýrt og samstundis. Í raunveruleikanum geta læknar gert það, en það kostar bæði peninga og tíma. Öldrun er hins vegar ekki til í raun á netinu. Ekki heldur að vera heimilislegur. Hver myndi vilja pósta mynd af sjálfum sér öðruvísi en að sýna fullkomið útlit?

Reyndar ég.

Það er ekki vegna þess að ég búi yfir ofgnótt sjálfstrausts. Raunar er það nánast þveröfugt. Ég berst við spegilmynd mína – hvort sem það er í speglinum, í spjaldtölvunni eða hvaða spegilfleti sem er – á hverjum degi. Ég sé hrukkurnar og pokana yfir augunum og hvernig kjálkarnir verða framsettari og ég hugsa með mér: „Hver er þessi kona?“ Ég hef bæði efni á og tíma til að láta laga þessa hluti hjá lækni. En hvers vegna hef ég ekki gert það?

Ég byrjaði að sitja fyrir 15 ára gömul. Ég átti að vera frumgerðin að því hvernig kona vildi líta út. Jafnvel þótt ég væri stelpa og ekki enn orðin kona, verulega óörugg og með einkenni sem vart gátu talist til tekna vann ég mér inn fullt af peningum og lagði grunninn að löngum ferli sem byggðist einmitt á þessu. Konur voru hvattar til að bera sig saman við mig og fara svo og kaupa hvaða þá vöru sem ég var að selja til að komast nær því að líta út eins og ég. En á meðan þær voru uppteknar af að bera sig saman við mig var einnig verið að bera mig saman við aðrar frumgerðir kvenleika.

Það fylgdi starfinu að vera sagt í smáatriðum hverjir gallar mínir væru. Ég komst að því að hnén á mér voru feitlagin, mjaðmirnar of grannar, nefið sveigðist til hægri ef horft var ofan frá. Og þetta voru aðeins byrjunaratriðin.

Það er nefnilega þannig að þegar borið er saman við fullkomnunina föllum við öll. En það er nefnilega líka þannig að fullkomnunin er, hvað skal segja, leiðinleg.

Reyndin er sú að þegar ég skruna í gegnum það sem birtist mér á Instagram laðast ég að því sem kalla má þætti ófullkomleika: áhugaverðum nefjum, safaríkum mögum og mjöðmum og, því miður, hrukkum, eins og hrukkur séu húðsjúkdómur frekar en kort sem sýnir lífið.

Ég fer á félagsmiðla til að tengja. Gerum við það ekki öll? Við leitum að spegilmyndum okkar sjálfra svo að við getum borið saman og fundið okkar bás í samfélaginu. Óhjákvæmilega kallar það einnig fram í okkur aðdáun eða öfund og það eru tilfinningar, sem geta búið til fjarlægð í okkur.

Þegar ég var talin fullkomin var ég öfunduð og litið upp til mín. En það var einnig litið á mig eins og ekki væri hægt að tengja við mig. Ég var á fjallstindinum þar sem allir aðrir vildu vera og trúði því að útsýnið væri verðlaunin fyrir að klifra upp. Og vitaskuld var útsýnið frábært. En fyrir það mesta var það einmanalegt og frekar vindasamt. Ég gat veifað til þín og þú veifaðir til baka. Eða gafst mér fingurinn. Úr þessari fjarlægð var hvort sem er varla hægt að sjá muninn.

En þetta er ástæðan fyrir því að ég vil alls ekki lengur að litið sé á mig eins og ég sé fullkomin. Fullkomleikinn einangrar mann. Það sem tengir mig öðrum er það viðkvæma. Ég hef komist að því að það sem okkur hefur mistekist tengir okkur mun betur en það sem við höfum afrekað. Þannig að hér koma mínar játningar.

Þennan dag í Spilberk-kastala voru ungu konurnar, sem gengu eftir sýningarpallinum fyrir framan mig, fallegar. Engin þeirra var með nein einkenni, sem skáru þær úr, neina galla. Ég gat ekki greint á milli þeirra. Þær voru glitríkir hlutir, sem var stillt upp á færibandinu. Ég man eftir að hafa séð samsetta mynd af skáldaðri konu. Á myndinni höfðu andlitsdrættir margra fallegra kvenna verið stappaðir saman í eitt að því er virtist fullkomið andlitið. Það var óeftirminnilegt með öllu.

En ég var ekki á þessum viðburði til að vera hluti af glitríku færibandinu. Ég var þarna vegna þess að ég hafði skrifað bók með persónulegum esseyjum. Og ég hafði verið beðin að skrifa þessa bók vegna þess að ég hafði þorað að gera það sem var óhugsandi: að stilla mér upp á félagsmiðlum án þess að vera fullkomin.

Ég brosti, meðvituð um að með því væri ég um leið að trana fram framstæðum kjálkapokunum og búa til fleiri hrukkur. Ég var mjög meðvituð um að ég væri eldri konan með útlit sem bæri aldri hennar vitni í þessari mannmergð fullkomleika. Kannski var ég ekki lengur glitrandi hluturinn í þungamiðju athyglinnar á sýningarpallinum, en ég var á annarri slóð, sem lýsist upp af þeirri reynslu og sannleika, sem birtist mér ekki fyrr en glamúrinn þvarr og kastljósinu var beint annað.

Ég er ef til vill ekki lengur hin ákjósanlega frumgerð ungrar konu, en væntingar mínar standa ekki til þess. Ég lít loks út eins og persónan, sem ég hef allan tímann verið innra með mér, full af göllum og flækjum. Aldur minn hefur gert mig ófullkomna og sem slíka raunverulega og þannig að hægt er að tengja við mig. Hvers vegna ætti ég nokkurn tímann að vilja setja filter á það?

© 2023 The New York Times Company og

Paulina Porizkova

Höf.: Paulina Porizkova er rithöfundur og fyrrverandi fyrirsæta.