Greinir á Sigríður Mogensen hjá Samtökum iðnaðarins og Björg Eva Erlendsdóttir hjá Landvernd mættu til leiks.
Greinir á Sigríður Mogensen hjá Samtökum iðnaðarins og Björg Eva Erlendsdóttir hjá Landvernd mættu til leiks. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar segir ofvöxt eiga sér stað í ýmsum atvinnugreinum hér á landi og að umræðu um orkuskort megi m.a. rekja til þess. Tiltekur hún þar meðal annars ferðaþjónustu og fiskeldi

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar segir ofvöxt eiga sér stað í ýmsum atvinnugreinum hér á landi og að umræðu um orkuskort megi m.a. rekja til þess. Tiltekur hún þar meðal annars ferðaþjónustu og fiskeldi. Þetta kemur fram í viðtali í Spursmálum þar sem hún mætir til leiks ásamt Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hjá Samtökum iðnaðarins.

Björg segir að með því að stuðla að hóflegri hagvexti en verið hefur megi ná betra jafnvægi og þá geti dugað að efla flutningskerfi raforku auk þess að vinna að aflaukningu þeirra virkjana sem nú þegar eru starfræktar í landinu.

Sigríður segir aftur á móti að aukin græn raforkuframleiðsla sé forsenda fyrir bættum lífskjörum hér á landi.

„Grundvallaratriðið er að græn orka er forsenda lífsgæða á Íslandi og ef við ætlum að halda áfram að byggja upp öflug lífskjör tilframtíðar verðum við að halda áfram að þróa raforkukerfið okkar, styrkja það, bæði flutningskerfið og afla nýrrar grænnar orku,“ segir Sigríður og bætir við:

Óábyrgur málflutningur

Það er mjög óábyrgur málflutningur hjá Landvernd að það sé einfaldlega hægt að loka fyrirtækjum, taka orkuna frá einstaka fyrirtækjum og færa í einhver önnur verkefni. Yfir 80% af útflutningstekjum íslensks þjóðarbús koma frá orkuknúinni starfsemi.“

Björg Eva segir Landvernd vera á móti fyrirhuguðum framkvæmdum við Hvammsvirkjun í Þjórsá. Þegar hún er spurð út í það hvort einhverjir virkjanakostir í nýtingarflokki rammaáætlunar geti hlotið náð fyrir augum Landverndar segir hún að félagið sé í sífellu að endurskoða afstöðu sína. Hins vegar verði fólk að átta sig á að það felist engin lausn í því að virkja meira á Íslandi til þess að byggja upp frekari stóriðju. Sigríður hafnar því að ákall um virkjanaframkvæmdir sé til þess gert.

Viðtalið við Sigríði og Björgu Evu má nálgast á mbl.is og öllum helstu streymisveitum.

Höf.: Stefán E. Stefánsson