Hattur Steves Irwins minnir á ótrúleg ævintýri.
Hattur Steves Irwins minnir á ótrúleg ævintýri. — Australia Zoo/Kate Berry
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það sem ég held mest upp á í mínum fórum er hattur, sem var föður mínum kær. Faðir minn hét Steve Irwin og var umhverfisverndarsinni og höfundur náttúrulífsmynda

Það sem ég held mest upp á í mínum fórum er hattur, sem var föður mínum kær. Faðir minn hét Steve Irwin og var umhverfisverndarsinni og höfundur náttúrulífsmynda. Hann lést 2006. Hann setti aðeins á sig hattinn þegar hann var ekki að vinna. Og þegar hann var ekki að vinna varði hann öllum sínum tíma með fjölskyldu okkar. Hatturinn minnir mig á öll þessu dýrmætu augnablik þegar öll athygli pabba beindist að okkur.

Pabbi fór heimshorna á milli að sinna kvikmyndagerð og náttúruverndarstörfum og stundum fór hann á staði þar sem ekki var öruggt að vera með ung börn. Ég er þakklát fyrir að þegar pabbi var heima með okkur setti hann alla sína orku í að vera með fjölskyldunni. Hann setti á sig þennan hatt og ég vissi að nú vorum við að fara í eitthvert ótrúlegt ævintýri saman; myndum taka mótorhjólið til að fara í morgunvitjun í Ástralíudýragarðinn; myndum halda upp á topp á gríðarstóru fjalli; eða ferðast að náttúruverndareign okkar í Vestur-Queensland til að skoða snákategund í útrýmingarhættu.

Hatturinn hefur svo mikla þýðingu fyrir mig vegna þess að í honum eru allar góðu minningarnar um pabba. Mér líður eins og þessi hattur hafi haft sama filfinningagildi fyrir honum – hann bar hann þar til efnið nánast leystist upp. Þegar það gerðist krotaði hann á hattinn: „Ég elskaði þennan hatt,“ skrifaði hann fullur saknaðar. „Ég mun sakna hans.“

Ég held að innst inni hafi hann vitað að þessi hattur yrði mikilvægur fyrir mig og bróður minn. Ég hef á tilfinningunni að hann hafi skrifað þessi orð til að minna okkur á tímana sem við áttum saman, jafnvel eftir að hann yrði farinn.

Bindi Irwin vinnur við náttúruvernd og kemur fram í sjónvarpi.

© 2023 The New York Times Company og Bindi Irwin