Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur í Þjóðleikhúsinu.
„Í verkinu gefur Sigríður Soffía áhorfendum innsýn í heim konu, hennar sjálfrar sem fær brjóstakrabbamein fyrir fertugt þegar hún er nýlega búin að eignast sitt annað barn. Áhorfendur fylgjast með ferlinu frá því meinið greinist, meðferðinni sjálfri og léttinum þegar fengist hefur staðfesting á að meinið sé farið og með andhormónameðferð séu góðar líkur á að það taki sig ekki upp aftur. Sýningin er byggð á samnefndri ljóðabók sem kom út á vordögum 2023. Ljóðin skrifaði Sigríður Soffía meðan á meðferð stóð og lýsa þau af miklu næmi þeim áskorunum sem urðu á vegi hennar í gegnum ferlið, líðan hennar, hugsunum og tilfinningum. Ljóðin eru mjög sterk og kemst efni þeirra vel til skila í dansverkinu. Í brotakendum myndum lýsir sýningin ferlinu á ljóðrænan en skýran hátt og kannast þær sem farið hafa sama veg við hvert atriði.“
The simple act of letting go eftir Tom Weinberger hjá Íslenska dansflokknum.
„Í upphafi hverfðist verkið um endurteknar hreyfingar og hreyfifrasa á meðan þögn grúfði yfir sviðinu. Verkið rann svo fallega áfram í átt að frásögn, ekki línulegri heldur litlum sögubrotum sem spruttu fram samsett af gjörðum og tilfinningum. Dramatísk en óljós samskipti, líkamleg og byggð á tungumálinu skutu upp kollinum. Dansverkið er sterkt og hreyfir við áhorfendum. Það er svona verk sem þarf ekki að skilja, bara njóta.“
Á dansdaginn, 29. apríl 2023, bauð Íslenski dansflokkurinn til afmælisveislu í Borgarleikhúsinu í tilefni af 50 ára afmæli flokksins og voru allir salir Borgarleikhússins undir.
„Húsið var opnað klukkutíma fyrir formlega dagskrá svo gestir höfðu tíma þá og síðar um kvöldið til að fá sér búblur og afmælistertu, spjalla við aðra gesti og skoða innsetningarnar um fortíð flokksins. Það var yndislegt að sjá í einu rými allar kynslóðir dansara, dansáhugafólks og ekki síst danskennara landsins. Það er ekki oft sem það er rými og tími þar sem þessi hópur hittist allur og því opnaði umgjörð kvöldins á óformlegt samtal milli kynslóða og gaf ungum innsýn inn í það sem þeir eldri höfðu verið að gera á sínum tíma.“
Reykjavík Dance Festival í samstarfi við apap – Feminist futures. Listrænir stjórnendur Brogan Davison og Pétur Ármannsson.
„Reykjavík Dance Festival í ár gaf ferskan anda inn í sviðslistasamfélagið eins og alltaf. Vel skipulögð fimm daga dagskrá frá morgni til kvölds skildi gesti hennar eftir þreytta en listrænt sadda og sæla. Áhersla á faglegt samtal, ekki síst við erlenda gesti hátíðarinnar, var gefandi og þema hátíðarinnar, Feminist Futures, vel við hæfi því hugmyndafræði samtvinnaðs femínisma þar sem þættir eins og inngilding, umhyggja og sjálfbærni vega þungt var undirliggjandi í viðburðum hátíðarinnar. Kven- og kynsegin líkamar voru sýnilegir, tíðahvörf voru til umfjöllunar og hugmyndum um aldur kvenna á sviði ögrað.“