Frosti Bergsson fæddist 30. desember 1948 í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. „Ég var í sveit á sumrin í Skagafirði hjá föðurafa og ömmu, fyrst á Unastöðum í Kolbeinsdal en síðar á Bakka í Viðvíkursveit.“
Síðar vann Frosti á sumrin hjá Togaraafgreiðslunni við uppskipun á fiski og fór nokkra túra á síðutogurum, m.a. Júpiter og Surprise.
Eftir gagnfræðapróf fór Frosti í símvirkjaskólann og lauk þar námi sem símvirki 1969. Frekara tækninám sótti Frosti í Tækniskóla Íslands en fór síðan til Danmerkur og lauk námi sem rafeindatæknifræðingur frá Tækniháskólanum í Árósum 1974.
„Með þessu var lagður grunnur að ævistarfinu sem stóð yfir í um 50 ár á sviði upplýsingatækni. Þar fór saman brennandi áhugi á þeim tækifærum sem ný tækni skapaði og launaðri vinnu.“
Eftir námið hóf Frosti störf hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð (KOS) hf. við að koma á laggirnar tölvudeild. „Ég setti mér snemma markmið sem byggist á þeirri sýn að tölvutæknin myndi hafa gífurleg áhrif á rekstur fyrirtækja og líf fólks almennt. Sem hluti af þeirri sýn var að geta boðið heildarlausnir sem hentuðu íslensku atvinnulífi.“
Tveim árum síðar var KOS komið með umboð fyrir Digital tölvur (DEC) og Frosti orðinn deildarstjóri ört vaxandi deildar og aðalkeppinauturinn var IBM. Íslenskir stafir á skjái og prentara var eitt þeirra verkefna sem þurfti að leysa og starfaði Frosti á vegum Skýrslutæknifélagsins m.a. í nefndum varðandi útfærslu á íslensku lykilborði „Eins ótrúlegt og það hljómar voru á lykilborðinu tveir íslenskir stafir, Á og É. Menn voru ekki komnir með lausn á hvernig átti að leysa alla kommustafina. Það var eins með prentarana að það var ekki hægt að prenta út íslenska stafi. Maður tók þátt í því, af því að ég er líka vélbúnaðarkall, að finna lausn sem hentaði.“
Frosti starfaði hjá KOS til ársins 1984 en hóf þá að vinna fyrir Hewlett Packard sem opnaði útibú á Íslandi í maí 1985. Árið 1991 var útibúinu breytt í íslenskt hlutafélag, HP á Íslandi hf., og síðar Opin Kerfi hf. 1995. Frosti varð forstjóri félagsins og annar stærsti hluthafinn. Það var síðan skráð á Verðbréfaþing Íslands 1995 og varð strax verðmætasta upplýsingatæknifyrirtækið í Kauphöllinni eða til ársins 2004. Þá var það afskráð þegar Kögun keypti öll hlutabréf í félaginu og hætti Frosti störfum fyrir félagið.
Frá 1995 til 2004 var Opin Kerfi hf. mjög virkur fjárfestir á upplýsingatæknimarkaðnum og meðal félaga sem fjárfest var í má nefna Tæknival hf., Teymi hf. (Oracle á Íslandi), ACO hf., Skýrr hf. (Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar) og ýmis fyrirtæki erlendis.
Á þessum tíma breyttist félagið í OKG (Opin Kerfi Group) og urðu stærstu dótturfyrirtæki þess Skýrr hf. og félög í Svíþjóð þar sem unnu um 300 starfsmenn. Í dag eru Skýrr hf. og reksturinn í Svíþjóð hluti af Advania-samsteypunni. Frosti var stjórnarformaður í flestum félögum sem tilheyrðu OKG en eftir 2004 stofnaði Frosti eigið fjárfestingarfélag, F. Bergsson eignarhaldsfélag ehf., og hefur verið virkur fjárfestir síðan. Þar má t.d. nefna: Invent Farma SL (Lyfjafyrirtæki á Spáni), Bílaumboðið Öskju hf., Eik hf. (fasteignafélag), Humac hf. (Apple á Íslandi) og VBS fjárfestingarbanka hf.
„Stærsta eignin hér heima núna er Askja og ég er þar í stjórn. Ég gerðist hluthafi þar 2004 og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með örri þróun fyrirtækisins og ég sem gamall tölvukall hef fengið mikinn áhuga á bílum enda eru bílar að verða tölvur á hjólum sem tengjast internetinu.“
Einnig hefur Frosti verið stjórnarformaður í Sjóvá hf. og setið í nokkrum nefndum á vegum ríkisins, svo sem um fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi og greiningu á samkeppnisstöðu Pósts og Síma hf.
Áhugamál Frosta eru mörg. „Fyrst þarf auðvitað að nefna laxveiði, en ég fer í nokkra veiðitúra á hverju sumri. Þar fer saman góður félagsskapur, útivera og veiðiástríða. Síðan er það golfið, en ég spila það reglulega. Ég hef fengið nokkra laxa yfir 20 pund en aldrei farið holu í höggi og ég vinn sleitulaust að því að ná því markmiði.“
Frosti hefur verið í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Austurbæ í 30-40 ár og sömuleiðis verið í bridsklúbbnum Krummarnir. „Ég hef verið minna virkur síðustu árin, en vonandi stendur það til bóta.
Fjölskyldan er stór þáttur í lífi okkar hjóna og reynum við að skapa sem flestar samverustundir, bæði innanlands og erlendis, með börnum okkar og barnabörnum. Við höfum margoft einmitt farið með alla stórfjölskylduna til Flórída, þar sem við eigum hús, og í sumarbústað okkar hjóna á Þingvöllum.“
Fjölskylda
Eiginkona Frosta er Halldóra M. Mathiesen, f. 16.12. 1960, upplýsingafræðingur og kerfisfræðingur. Hún hefur m.a. verið skjalastjóri Borgarbókasafns Reykjavíkur og deildarstjóri hugbúnaðarsviðs Flugleiða, einnig stjórnarmaður Opinna Kerfa. Foreldrar Halldóru voru hjónin Matthías Á. Mathiesen, ráðherra og alþingismaður, f. 6.8. 1931, d. 9.11. 2011, og Sigrún Þorgilsdóttir Mathiesen húsmóðir, f. 27.12. 1931, d. 3.9. 2013. Þau voru búsett í Hafnarfirði.
Börn Frosta og fyrri konu hans, Elínar Guðmundsdóttur, f. 1949, eru 1) Freyr arkitekt f. 1970, maki: Sóley Kristjánsdóttir vörumerkjastjóri, og 2) Anna Dóra sálfræðingur, f. 1975, maki: Tryggvi Kornelíusson umsjónamaður fasteigna. Sonur Frosta og Halldóru er Bergur stjórnmálafræðingur, f. 1995. Stjúpsonur Frosta og sonur Halldóru er Matthías Árni Ingimarsson, f. 1983, húsgagnasmiður og ljósmyndari, maki: Alma Jónsdóttir lögfræðingur. Barnabörnin eru nú orðin átta og eitt barnabarnabarn.
Systkini Frosta eru Valdimar bakarameistari, f. 1953, kvæntur Helgu M. Geirsdóttur, og Anna Rós kennari, f. 1961, gift Haraldi Guðfinnssyni.
Foreldrar Frosta voru hjónin Bergur Óskar Haraldsson framkvæmdastjóri, f. 8.11. 1925 á Sólheimum í Skagafirði, d. 17.8. 2006, og Kristín Lára Valdemarsdóttir sjúkraliði, f. 22.4. 1927 á Blámýrum í Ögurhreppi við Ísafjarðardjúp, d. 6.8. 2020. Þau voru búsett í Kópavogi.