„Fornsteinaldarhauskúpa (Luzia)“ sýnir einn af ástsælustu fjársjóðum Þjóðminjasafns Brasilíu, um það bil 12 þúsund ára gamla hauskúpu þakta ösku úr eldinum, sem eyðilagði safnið og stóran hluta safneignarinnar 2018. Verkið er hluti af myndröðinni „Museum of Ashes“ eftir Vik Muniz þar sem margir þeirra muna, sem glötuðust í eldinum, voru endurskapaðir.
„Fornsteinaldarhauskúpa (Luzia)“ sýnir einn af ástsælustu fjársjóðum Þjóðminjasafns Brasilíu, um það bil 12 þúsund ára gamla hauskúpu þakta ösku úr eldinum, sem eyðilagði safnið og stóran hluta safneignarinnar 2018. Verkið er hluti af myndröðinni „Museum of Ashes“ eftir Vik Muniz þar sem margir þeirra muna, sem glötuðust í eldinum, voru endurskapaðir. — Vik Muniz og Sikkema, Jenkins & Co. Gallery
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég varð að sjá með eigin augum hvernig saga árþúsunda hafði breyst í svarta ösku. Það eina sem var eftir var efni, frjálst undan merkingu, sögu, verðmætum og mannkyni.

Vik Muniz

er nútímalistamaður sem starfar í Rio de Janeiro og New York.

Árið 2008 heimsótti ég risastóra landfyllingu fyrir utan Rio de Janeiro sem kölluð er Jardim Gramacho. Urðunarstaðurinn var á sínum tíma einn sá stærsti sinnar tegundar á heimsvísu en eftir meira en 30 ára notkun hafði hann náð þolmörkum sínum og komið að því að loka honum. Sorphaugur eins og Gramacho er góður staður til þess að sjá hvernig hlutir, sem einu sinni þóttu gagnlegir og merkilegir, geta sogast ofan í efnislegan hreinsunareld þar sem allt blandast saman í frumstæðan graut.

Ekkert er heilt í Gramacho; þar eru aðeins eftir slitur hluta sem reyna að halda í einhverja eiginleika eða einkenni. Í niðurbrotinu fær maður einnig tilfinningu fyrir óreiðunni. Hér í ruslahaugnum hrúgast saman úreltir hönnunargripir og vörumerki sem eitt sinn voru vinsæl í hinum markaðsvædda og hóflausa heimi okkar. Þetta er lokaafurð hagvaxtarins sem aðeins verður fjármagnaður með því að brjóta langanir fólks upp í frumeindir sínar.

Ef við myndum skera næstum 50 metra háan sorphauginn eins og köku myndu fornleifar efnislegra langana blasa við okkur. Við myndum finna segulbandsspólur, brotin BMX-hjól, vídeótæki, lek vatnsrúm og tölvuleiki – allt það sem einu sinni lét tiltekinni manneskju líða tímabundið eins og hún væri heil. Á stað eins og Gramacho er annað ekki hægt en að tengja úrgang við langanir fólks.

Hér hitti ég fólk sem lifði á kafi í þessum brostnu draumum; fólk sem leitaði í ruslinu og gerði sitt besta til þess að bjarga efnislegum verðmætum hlutanna; fólk sem reyndi að flokka og endurnýta þennan kaotíska haug, einfaldaði hann niður í upphaflegu efnin svo það mætti breyta honum aftur í eitthvað eftirsóknarvert. Vinna mín með þessu fólki færði mér nýja sýn á mikilvægi listaverksins í heimi hlutanna. Að festast í eilífri hringrás eins og Sísifos, konungurinn úr grískri goðafræði sem var dæmdur til þess að velta steini upp á hæð til eilífðar, getur kæft vilja listamanns til þess að búa til hluti úr hugmyndum.

Iðnbyltingin markaði endalok rómantísku hugmyndarinnar um listamanninn sem hetju. Með byltingunni fylltist heimurinn af hlutum; framleiðsluferlið skipti minna máli en áður og það hafði í för með sér að merking hlutanna sjálfra varð léttvægari. Þegar vélar og verksmiðjustarfsmenn tóku að fjöldaframleiða hluti neyddust listamenn til þess að beina sjónum sínum að því hvernig hlutirnir voru búnir til fremur en hlutunum sjálfum. Þótt ég sem listamaður sé ennþá að bæta við safn hinna óteljandi mörgu hluta sem við notum til að byggja upp sameiginlegu sögurnar okkar, þá snýst áhugaverð list í mínum augum alltaf um það hvernig hlutirnir eru skapaðir.

Hið fágæta eðli listarinnar kallar þannig fram nostalgíu til tímans fyrir fjöldaframleiðsluna. Verðmæti listarinnar er oft jafn abstrakt og eðli hennar. Listaverk eru verkfæri sem við beitum til þess að ögra sambandi okkar við fortíðina, sem oft og tíðum er ansi veikt, og hjálpa okkur jafnframt að ramma inn sýn okkar á heiminn sem við búum við í dag.

Árið 2018, áratug eftir að ég heimsótti Gramacho í fyrsta sinn, breytti sorglegt slys því varanlega hvernig ég hugsa um merkingu þess að búa til hluti. Þjóðminjasafnið í Rio de Janeiro eyðilagðist þá í bruna og meirihluti þeirra rúmlega 20 milljóna muna sem þar voru hýstir glataðist. Á meðal merkustu hlutanna sem brunnu voru Luzia, ein elsta hauskúpan sem fundist hefur í Suður-Ameríku; falleg steinkista egypsku prinsessunnar Sha-Amun-en-su frá áttundu öld f.Kr.; og eitt stærsta og þekktasta skordýrasafn heims.

Það var svo erfitt fyrir mig að kyngja því að safnið væri horfið og að ég gæti ekki lengur heimsótt dýrgripi þess að ég varð að skoða brunarústirnar um leið og færi gafst. Ég varð að sjá með eigin augum hvernig saga árþúsunda hafði breyst í svarta ösku. Það eina sem var eftir var efni, frjálst undan merkingu, sögu, verðmætum og mannkyni.

Þar sem ég gramsaði í brunarústum safnsins varð mér hugsað til heimsóknar minnar til öskuhauganna í Gramacho. Hvað gátu verðlausir, úreltir hlutir, sem verða mörg þúsund ár að brotna niður, mögulega átt sameiginlegt með fornum dýrgripum sem urðu að ryki á nokkrum klukkustundum? Þegar ég virti fyrir mér ösku safnsins skildi ég hvernig tveir andstæðir hlutir geta á endanum orðið að hinu sama.

Árið 2023 hófu þjóðminjasöfn frá 28 löndum samstarf um að búa til ýtarlega, stafræna skrá yfir munina sem þau hýsa. Að lokum varð til alþjóðlegur gagnagrunnur yfir um 1,1 milljarð hluta. Þegar hlutirnir eru gerðir stafrænir geta náttúruhamfarir eða styrjaldir sem leggja söfn í rúst ekki leitt til þess að þeir glatist varanlega að öllu leyti. Þeir munu lifa áfram, bara á öðru formi en áður.

Hvað þýðir það fyrir efnislega hluti að hinum stafrænu fari fjölgandi? Hvers konar arfleifð munu söfn framtíðar varðveita? Það eru nú þegar til söfn sem eru ekki með fastasýningar og eru jafnvel ekki bundin við neinn tiltekinn stað. Slík söfn, sem leggja áherslu á hljóð- og myndmiðlunarsýningar, sýndarupplifanir, gagnvirkni og nýtingu gervigreindar, gætu verið forsmekkur framtíðar sem verður ekki upptekin af því að dást að efnislegum fornminjum. Ef svo er, þá verður Gramacho safn þeirrar framtíðar. Sumt fólk mun ennþá gramsa í öskuhaugum sögunnar, en það mun leita merkingar sem ekki verður endurunnin.

Það sem við skiljum eftir mun bera vitni um okkar stuttu dvöl í sögunni. Ef það skiptir okkur máli hvað þessir hlutir segja um okkur, þá munum við hugsa um hver einustu kaup sem við gerum og hvern einasta hlut sem við framleiðum. Þetta hófst allt með löngunum okkar; þessar langanir eru hluti af mannlegu eðli.

Ég nota list til þess að rannsaka þetta löngunarsvæði. Listin mín gerir mér kleift að kanna hið þrönga bil sem liggur milli þess að vilja og gera, milli anda og efnis, meðvitundar og hluta. Í Gramacho verða til hlutir sem orka á heiminn á hátt sem vekur forvitni mína og á sínum tíma reisti ég vinnustofu mína þar. Í „Pictures of Garbage“-myndaröð minni endurvann ég sorp frá Gramacho í myndir af fólkinu sem lifði þar og starfaði. Þekkt verk úr listasögunni voru innblásturinn fyrir sumar af þessum myndum. Söluhagnaðinn af myndunum nýtti ég svo til að fjármagna betra líf fyrir endurvinnslustarfsmennina.

Ég bjó líka til „Museum of Ashes“-myndaröðina úr ösku þjóðminjasafns Brasilíu: myndir af hlutunum eins og þeir litu út áður en þeir brunnu. Ég nýtti depurð mína vegna brunans til sköpunar. Ég vann með fornleifafræðingum frá björgunarteymi safnsins til þess að finna hárnákvæma staðsetningu upprunalegu hlutanna og ég bjó til myndirnar mínar úr öskunni þar. Ágóðinn af sölu verkanna hjálpaði til við að borga fyrir björgunarstarfið kringum það litla sem eldurinn gleypti ekki.

Báðar myndaraðirnar eru um draum og raunveruleika samfellunnar, og um það hvernig endurvinnsla efnis og merkingar getur verið listræn og samfélagsleg iðja. Með list minni er ég ekki fastur í endurtekningu Sísifosar. Eins og Próteus, spámaðurinn úr grískri goðafræði sem gat breytt um form, hef ég frelsi til þess að umbreytast. Í listum geta merking og virði hluta snúist við, eða jafnvel umbreyst úr efnisheiminum yfir í hinn stafræna. Sorpi og ösku má breyta í verk sem eru talsvert margbrotnari en upprunalega hráefnið gefur til kynna, og það má alltaf uppgötva nýja merkingu.

© 2023 The New York Times Company og Vik Muniz

Höf.: Vik Muniz er nútímalistamaður sem starfar í Rio de Janeiro og New York.