Bjarni Benediktsson ræddi útlendingamál við komuna á ríkisráðsfund á Bessastöðum í júní, við mismikla hrifningu.
Bjarni Benediktsson ræddi útlendingamál við komuna á ríkisráðsfund á Bessastöðum í júní, við mismikla hrifningu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á nýju ári bíða stjórnarinnar öll þessi sömu vandamál og veigamiklu ágreiningsefni, en lækki fylgið áfram mun eitthvað bresta. Það gæti jafnvel leitt af sér stjórnarslit og kosningar.

ANDRÉS MAGNÚSSON

er fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og fjallar einkum um stjórnmál á síðum blaðsins og í Dagmálum.

Það hefur verið fremur róstusamt í stjórnmálum á árinu sem er að líða. Ekki þó vegna þess að stjórnarandstaðan hafi verið svo skelegg, heldur virðast stjórnarflokkarnir hafa einsett sér að sýna fram á, að með sig að vinum sé engum þörf á óvinum.

Þau þreytumerki sjást í stóru og smáu. Og þau hafa ekki farið fram hjá almenningi, því stuðningur við ríkisstjórnina hefur fallið jafnt og þétt allt árið. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup nýtur stjórnin nú stuðnings um þriðjungs þjóðarinnar og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er hið sama. Lundarfarið í flokkunum er í góðu samræmi við fylgið.

Á sama tíma hefur Samfylkingin heldur betur reist sig undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur, hins nýja formanns flokksins, án þess þó að hún hafi kynnt nein sérstök stefnumál eða það þinglið sem hún vill fylkja. Sem aftur bendir til þess að vænn hluti kjósenda vilji nánast hvað sem er annað en það sem fyrir er á þingi. Það á ekki aðeins að vera stjórnarflokkunum áhyggjuefni, því fyrir utan Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu nýtur enginn flokkur meira en 10% fylgis.

Auðvitað var frá öndverðu vitað að stjórnarflokkarnir hefðu í ýmsum málum svo ólíka stefnu, að til árekstra kæmi. Á það reyndi þó lítt á liðnu kjörtímabili vegna óvæntra dagskrárbreytinga, en í upphafi þessa kjörtímabils var ljóst að stjórnin hefði ekki lengur Kínapláguna til þess að sameinast gegn með endalausum austri úr ríkissjóði.

Sá fjáraustur hafði þó með óbeinum hætti lagt ríkisstjórninni til nýtt erindi, sem var baráttan við verðbólgu. Um það sameinaðist stjórnin með miklum heitstrengingum, en enginn ráðherra vildi þó neitt gefa eftir af sínum undursamlegu fjárveitingum, svo ríkisútgjöld uxu áfram eins og heimsfaraldurinn hefði aldrei rénað.

Það voru þó ekki ríkisútgjöldin ein sem gengisfelldu gjaldmiðil lýðveldisins, þar áttu innistæðulausar launahækkanir kjarasamninga árin á undan mesta sök. Þær hækkanir höfðu fært landsmönnum fordæmalausar kjarabætur, langt umfram það sem þekktist í nokkru landi öðru, en framleiðni hafði hins vegar ekki aukist til þess að standa undir þeim.

Í því ljósi var mikil spenna í kjaralotunni á liðnum vetri, en eftir allt sverðaglamrið voru samningarnir ekki aðalfréttin heldur hitt, að Landsréttur ákvað að afvopna ríkissáttasemjara, svo embættið varð algerlega tilgangslaust.

Hitt var þó kannski verra að vinnumarkaðsráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson ákvað að gera nákvæmlega ekki neitt í því fyrr en kannski eftir þá kjaralotu, sem nú er nýhafin. Það stappar nærri embættisvanrækslu, en það segir sitt um stjórnarsamstarfið, að enginn stjórnarliði hefur svo mikið sem ræskt sig vegna þess, þó harðar vinnudeilur geti valdið gríðarlegum skaða. Og fellt ríkisstjórnir.

Ekki að það þurfi slík skakkaföll til, því oft virðist ríkisstjórnin sjálfri sér nóg um tilefnin, eins og landsmenn horfðu upp á liðið vor. Ágreiningur á stjórnarheimilinu jókst þá jafnt og þétt innan þings sem utan, svo mjög að ríkisstjórnin sá sér þess vænstan kost að pakka saman og senda þingið heim.

Það hrökk þó ekki til því þegar ráðherrar komu til ríkisráðsfundar á Bessastöðum liðlega viku síðar, sagði Bjarni Benediktsson að þingið hefði brugðist í afgreiðslu þingmála vegna hælisleitenda og stjórnvöld misst alla stjórn á málaflokknum. Hann sagði þingið, en átti vitaskuld við að samstarfsflokkarnir hefðu ekki staðið sig.

Grasrót Vinstri grænna og vænn hluti þingflokksins ærðist við þetta og þingskörungurinn Jódís Skúladóttir sakaði sjálfstæðismenn um rasisma, orð sem hún hefur hvorki dregið til baka né beðist afsökunar á.

Sem matvælaráðherra veit Svandís Svavarsdóttir að best fer á að tilreiða hefndir sem kaldan rétt og beið því til næsta dags með að skella á hvalveiðibanni, sem mikill vafi leikur á um að hún hafi gert með lögmætum hætti.

Þann dag munaði engu að ríkisstjórnin spryngi með braki og brestum og hefði mögulega gert það ef rifrildið innan hennar hefði ekki verið rofið af landsleik við Portúgali, en við svo búið ráku flokksformennirnir þingmenn í sumarfrí og vonuðu það besta.

Hugsanlega bannaði Svandís hvalveiðar í bræðiskasti, en hugsanlega var það úthugsaðra. Sú aðgerð var vís til þess að gleðja grasrótina og sigur fyrir hana, en hefði stjórnin sprungið er eins líklegt að Katrín hefði kvatt stjórnmálin fyrr en síðar og Svandís ugglaust valin formaður.

Hvernig sem í þann pott var búið segir ofangreind atburðarás allt um hugarþelið og samstöðuna í ríkisstjórninni.

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna sáu að við svo búið mátti ekki standa, sendu sitt fólk í þagnarbindindi og vildu nota sumarið til þess að lægja öldurnar og ná einhverskonar sáttum.

Þegar leið að þingsetningu spöruðu stjórnarliðar yfirlýsingarnar, en það kom hins vegar brátt á daginn, að ekki hafði tekist að ná saman um nein af ágreiningsefnum vorsins og gremjan í þingflokkunum söm við sig, þó ráðherrarnir gættu sín vandlega að rugga engum stólum.

Það sást ekki síður á ógnarlangri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, að þar voru velflest vandamál vorsins aftur komin óbreytt á dagskrá í bland við hin og þessi áhugamál ráðherranna, sem óvíst var hvort nytu breiðs stuðnings samstarfsflokkanna, en gætu sloppið í gegn ef þeir létu vera að skipta sér af málaflokkum hver annars.

Þingmeirihlutinn hefur lagt talsvert á sig til þess að halda lokinu á pottinum og gæta þess að opinber ágreiningur sjóði ekki upp úr. Það breytir ekki því að óánægjan í stjórnarliðinu kraumar og vellur áfram, en hin og þessi meint stjórnarmál hafa lítt þokast.

Fyrir vikið voru þingdagarnir undir jól óvenjunáðugir, ef hið óvænta frumvarp um raforkuskömmtun er frátalið. En jafnvel það var dregið til baka og þingið sent í jólafrí frekar en að eiga eitthvað á hættu þar.

Sem voru alls ekki óraunhæfar áhyggjur ef marka mátti orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar orkumálaráðherra, sem kvaðst ætla að leita eftir nýjum þingmeirihluta til þess að styðja (ókynnt) áform um orkuöflun! Þurfti það þó varla til, því af samtölum við stjórnarþingmenn á aðventunni var auðheyrt að fýlan lak af hverjum manni og þeir hugsuðu samherjum þegjandi þörfina um stórt og smátt.

Það er ekki gott veganesti fyrir stjórnina inn í nýja árið, en að öllu jöfnu ætti að verja því til undirbúnings alþingiskosninga 2025. Þess í stað bíða öll þessi sömu vandamál og veigamiklu ágreiningsefni, en ef fylgið heldur áfram að lækka mun eitthvað bresta. Hvað þá ef syrtir í álinn á vinnumarkaði með verkföllum og þá eru verðbólgan og vextirnir enn eftir. Allt getur það leitt af sér stjórnarslit, stjórnarkreppu og kosningar.

Auðvitað þarf það ekki að fara þannig, en þá þurfa stjórnarflokkarnir líka að stilla saman strengina og ná saman um þessi stóru ágreiningsefni. Í hvelli, því annars endar það með hvelli.

Höf.: ANDRÉS MAGNÚSSON er fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og fjallar einkum um stjórnmál á síðum blaðsins og í Dagmálum.