Sérkennilegt er að fylgjast með breytingum á sköttum sem lagðir eru á bifreiðar og eldsneyti. Í rúman áratug hið minnsta er búið að hræra ítrekað í þessari skattheimtu og yfirleitt er það með beinni eða óbeinni vísun til aðgerða í loftslagsmálum.

Sérkennilegt er að fylgjast með breytingum á sköttum sem lagðir eru á bifreiðar og eldsneyti. Í rúman áratug hið minnsta er búið að hræra ítrekað í þessari skattheimtu og yfirleitt er það með beinni eða óbeinni vísun til aðgerða í loftslagsmálum.

Þannig var tekið upp á því á sínum tíma að mismuna bílum eftir því hvernig jarðefnaeldsneyti þeir notuðu og farið að ýta undir notkun díselbíla. Þeir bílar menga að vísu meira en bensínbílar eins og sjá má þegar ekið er á eftir strætisvögnum svo dæmi sé tekið, en einhverjum datt í hug að þeir hefðu minni áhrif á loftslagið en aðrir bílar.

Síðan hefur verið hrært í sköttum í þágu rafmagns- og hálfrafmagnsbíla til að stuðla að réttu loftslagi og hefur þeim fjölgað hratt. Þá kemur – að því er virðist óvænt – í ljós að ríkið missir spón úr aski sínum með því að skattleggja minna eina gerð bíla og þá þarf að hækka skatta að nýju og taka upp nýja skatta (sem hljómar betur að kalla gjöld).

Nú má vel vera að eðlilegt sé að skattheimta á bíla og bílnotkun breytist, en þá kemur upp sá viðbótarvandi að slíkar breytingar virðast yfirleitt þurfa að gerast fyrirvaralaust. Bílainnflytjendur, bílaleigur og almenningur þurfa iðulega að bíða til áramóta áður en fyrir liggur hvernig skattheimtu næsta árs verður háttað. Er eitthvað að því að taka slíkar ákvarðanir með til dæmis hálfs árs eða jafnvel árs fyrirvara?