Eyjólfur Árni Rafnsson
Eyjólfur Árni Rafnsson
Verði ekkert að gert mun hagur fólks og fyrirtækja bera þess merki.

Eyjólfur Árni Rafnsson

Undir lok síðasta árs gerðu Samtök atvinnulífsins kjarasamninga við stóran hluta verkalýðshreyfingarinnar undir yfirskriftinni Brú að bættum lífskjörum. Samningarnir gilda til loka janúar næstkomandi, en markmið þeirra var að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bilið yfir í langtímakjarasamninga sem taka ættu gildi snemma árs 2024. Lagt var upp með að nýta árið í undirbúning nýrra samninga og hefur það gengið eftir. Ber þar helst að nefna fjölmörg atriði og bókanir tengdar kjarasamningum, svo sem um vinnutíma, fagnám og lífeyrismál.

Fyrir ári stóðu vonir til þess að á þessum tímapunkti hefði meiri vissa skapast um þróun verðbólgu og að áhrif heimsfaraldursins og stríðsátaka í Úkraínu hefðu fjarað út. Hins vegar hefur verðbólgan reynst þrálátari en vonir stóðu til auk þess sem það háa vaxtastig sem henni fylgir hefur valdið mörgum heimilum og fyrirtækjum búsifjum.

Það er því ánægjulegt að fylgjast með samstöðunni sem skapast hefur á vinnumarkaði um að meginmarkmið nýrra kjarasamninga verði að vinna bug á verðbólgunni og skapa aðstæður til þess að vextir geti í kjölfarið lækkað. Til þess að svo megi verða þurfa allir aðilar að sýna hófsemd þannig að verðhækkanir, þjónustugjöld og fleiri þættir haldist innan þess ramma sem hóflegar launahækkanir setja. Í því samhengi er mikilvægt að hið opinber setji stofnunum sínum skýr mörk um útgjöld og gjaldskrárhækkanir.

Undanfarna mánuði hefur verðbólgan farið lækkandi. Að auki hafa ytri skilyrði þjóðarbúsins batnað samfara hagstæðri þróun á alþjóðamörkuðum. Það bendir því allt til þess að aðstæður séu að skapast til að ná megi víðtækri sátt um langtímakjarasamninga og þær efnahagsaðgerðir sem þurfa að fylgja.Hagvöxtur er nauðsynlegur

Þrátt fyrir mikinn samhljóm á vinnumarkaði stöndum við samt alltaf frammi fyrir þeim raunveruleika að hagvöxtur er forsenda launahækkana. Til þess að bæta hag heimilanna þarf verðmætasköpun í atvinnulífinu að aukast og fyrirtækin að búa við góð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði.

Töluvert hefur verið þrengt að orkugeiranum á síðustu árum og áratugum, þar sem greininni hefur verið skapað ósveigjanlegt rekstrarumhverfi. Uppbygging nýrra virkjana hefur verið stöðvuð um alltof langa hríð með óskilvirku kerfi, sem er miklu flóknara en í nágrannalöndum okkar og langt umfram það sem evrópsk umhverfislöggjöf gerir ráð fyrir. Sú staða sem nú er komin upp, þar sem skammta þarf orku og fyrirtæki þurfa að grípa til þess ráðs að brenna olíu til að halda starfsemi sinni gangandi, er fullkomlega óviðunandi. Þá tekur nauðsynleg uppbygging og endurnýjun flutningskerfis raforku alltof langan tíma, með tilheyrandi áhrifum á heimili og fyrirtæki í landinu.

Aukin verðmætasköpun í hagkerfinu er samofin aukinni orkuöflun, enda þarf öll starfsemi – þjónusta eða framleiðsla – orku. Það er okkur öllum því mikilvægt að brugðist verði hratt og örugglega við þegar kemur að skilvirkni leyfiskerfis til orkumannvirkja. Verði ekkert að gert mun hagur fólks og fyrirtækja bera þess merki. Svo ekki sé minnst á markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðgerðaleysi er því ekki valkostur.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.

Höf.: Eyjólfur Árni Rafnsson