Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Fyrsti mánuður ársins ber heitið janúar eftir tvíhöfða Janusi, guði upphafs, umbreytinga og enda hjá Rómverjum. Janus var guð dyra og hliða. Áramótin eru stundin sem við kveðjum eitt ár og hefjum göngu inn í annað.
Ársins 2023 verður örugglega minnst vegna byltingarinnar sem varð þegar gervigreind varð að almenningseign.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, flutti ræðu á danska þinginu í maí 2023. Þegar hún hafði lesið nokkrar setningar sagði hún: Þetta sem ég hef nú lesið er ekki skrifað af mér. Raunar ekki heldur af neinni annarri manneskju. Höfundurinn er gervigreind. ChatGPT.
Um jólin sagði danski álitsgjafinn Hans Engell, fyrrv. ráðherra og ritstjóri, þessi orð minnisstæðasta atvik ársins í dönskum stjórnmálum. Að engan grunaði að gervigreind ætti textann sem ráðherrann las hefði opnað augu sín fyrir að eitthvað stórmerkilegt væri að gerast. Við hefðum hafið vegferð sem myndi breyta heimi okkar.
Lítil atvik bregða oft ljósi á miklar breytingar. Allir sem vinna við textagerð á nettengda tölvu geta sett sig í spor danska forsætisráðherrans. Hjálparkokkunum í heimi gervigreindarinnar fjölgar jafnt og þétt og þeir verða sífellt öflugri á öllum sviðum.
Samhliða því sem hlutur gervigreindarinnar vex í daglegu lífi okkar verða settar reglur um notkun hennar til að tryggja virðingu fyrir grundvallarréttindum og siðferði. Grunnur reglnanna hefur þegar verið lagður á vettvangi ESB. Innleiðing þeirra hér og annars staðar verður viðfangsefni næstu ára.
Ísland er ekki lengur eina norræna ríkið með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Samningur okkar var gerður í maí 1951. Það var þó ekki fyrr en að loknu köldu stríði 70 árum síðar, í apríl 2021, sem Norðmenn samningsbundu varnarsamstarf sitt tvíhliða við Bandaríkjamenn. Nú í desember 2023 hafa Svíar, Finnar og Danir gert tvíhliða varnarsamninga við Bandaríkin. Þetta gerist sama árið og ákveðið er að innan herstjórnakerfis NATO færist norrænu ríkin öll undir sameiginlega herstjórn NATO í Norfolk í Bandaríkjunum. Áður féll Keflavíkurstöðin ein undir Norfolk í þessu kerfi. Norræna tengingin núna er söguleg.
Engar stórar ákvarðanir í þessa veru eru teknar nema fyrir liggi greining á vaxandi ógn. Það er brýnt að huga vel að íslenskum varnarhagsmunum á þessum miklu breytingatímum. Rökin verða sífellt þyngri og skýrari fyrir því að innlendir aðilar gæti hernaðarlegs öryggis.
Umræður um öflugri varnir fylgja okkur inn í nýtt ár. Landhelgisgæsla Íslands leggur mikið af mörkum við daglegan rekstur öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli og ratsjárkerfisins. Nú þegar Bandaríkjaher hefur samningsbundinn aðgang að fjölda flugherstöðva, hafna og landsvæða hvarvetna á Norðurlöndunum er óhjákvæmilegt að skilgreina Keflavíkurstöðina og hlutverk hennar í samræmi við breyttar aðstæður. Hlutur Íslands er annar en áður.
Heimsfriður hangir á bláþræði. Barist er í Úkraínu og fyrir botni Miðjarhafs. Þúsundir falla og eyðileggingin er gífurleg. Á hvorugum staðnum eru líkur á umsömdum friði þótt draga kunni úr hernaði.
Til að sporna gegn árásum Rússa á önnur Evrópulönd hefur aðildarríkjum NATO fjölgað og varnir verið efldar undir merkjum bandalagsins.
Enginn sambærilegur varnarviðbúnaður er annars staðar í heiminum. Herskip margra þjóða hafa hins vegar verið kölluð á vettvang undanfarna daga til að gæta öryggis á siglingaleiðum um Rauðahaf og þar fyrir austan vegna árása að undirlagi Írana, höfuðandstæðinga Ísraela og Bandaríkjamanna, á skip á þessum slóðum.
Enn austar hafa kínversk stjórnvöld í heitingum með áform um að leggja undir sig Taívan. Hætta er á að þar verði þriðja ófriðarbálið kveikt. Þá yrði heimsfriðurinn endanlega rofinn.
Á tæpum áttatíu árum frá því að lýðveldið var stofnað hafa ellefu sinnum verið myndaðar þriggja flokka ríkisstjórnir. Enginn þeirra, fyrir utan þá sem nú situr, hefur verið heilt kjörtímabil við völd. Átta hafa setið skemur en þrjú ár, tvær í rúm þrjú ár þar til stjórn Katrínar Jakobsdóttur kom til sögunnar. Hún hefur nú setið í rúm sex ár.
Þessar tölur segja ekkert um hve lengi núverandi ríkisstjórn situr. Þær sýna hins vegar tvennt. Forystumönnum stjórnarflokkanna hefur tekist einstaklega vel að jafna ágreining sín á milli, hafi hann risið. Í stjórnarandstöðu sitja smáflokkar sem mega sín lítils hver um sig og ekkert sameinar þá.
Þegar við opnum dyr nýja ársins blasir við óvissa vegna gervigreindar, hernaðar og álags á stjórnmálakerfi sem hefur til þessa ekki þolað þriggja flokka stjórnir til lengdar.
Þetta eru allt atriði þar sem hugur og hönd mannsins ráða úrslitum og enginn veit samt hvernig fer.
Óvissan er ekki síður mikil þegar kemur að náttúruöflunum. Við höggum ekki við náttúrulögmálunum þótt okkur sé talin trú um að við getum ákveðið hitastig jarðar með alþjóðasamþykktum.
Fréttir um landris, jarðskjálfta og eldgos á Reykjanesi sýna hvað við vitum lítið um duttlunga jarðarinnar undir fótum okkar. Við vitum þó að allur er varinn góður eins og Grindvíkingar hafa fengið að sannreyna. Megi nýja árið opna þeim heimaslóðir sem allra fyrst.
Til að halda hugarró og takast kvíðalaust á við það sem framtíðin ber í skauti sér er mikilvægt að viðurkenna að fortíðin sé liðin og henni verði ekki breytt og spennandi framtíðin sé óráðin og geymi því tækifæri til góðs og ills. Ég óska þess að besti kosturinn falli okkur hverju og einu í skaut!