— Victor J. Blue fyrir The New York Times
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á næstu árum mun þessi hneigð til þess að breyta réttlæti í pólitískan leik vafalaust leiða til þess að enn fleiri aðgerðasinnar, blaðamenn og rithöfundar verði fangelsaðir fyrir ímyndaða glæpi.

Rodrigo Rey Rosa

fæddist og ólst upp í Gvatemalaborg. Hann hefur sent frá sér fimm smásagnasöfn og fjölda skáldsagna sem hafa komið út á 16 tungumálum.

Við lok 20. aldar varð algengt að nota enska nýyrðið „lawfare“ (ísl. „löghernaður“) – samsett úr ensku orðunum „law“ (ísl. lög) og „warfare“ (ísl. hernaður) – til þess að lýsa því hvernig valdamikið fólk beitti réttarkerfinu til þess að koma höggi á andstæðinga sína. Þannig var þeirri stofnun sem á að tryggja réttlæti breytt í kúgunartæki, vopn sem hinir valdamiklu nota til þess að ná pólitískum markmiðum sínum og bæla niður andóf. Algengar birtingarmyndir löghernaðar voru tilhæfulausar málsóknir; að tefja og koma í veg fyrir réttarhöld til þess að taka hina saksóttu úr umferð um óákveðinn tíma; fjölmiðlaherferðir til þess að koma óorði á andstæðinga; upplýsingafölsun; ógilding alþjóðalaga.

Í Rómönsku Ameríku er orðið algengt að umhverfissinnar og leiðtogar frumbyggja, sem berjast gegn eignarnámi alþjóðlegra stórfyrirtækja á landi þeirra, séu sóttir til saka og fangelsaðir.

Í mínum eigin skáldskap hef ég ekki ennþá sótt innblástur í lögfræðilegan hernað. En fyrir höfunda af minni kynslóð er ofbeldi ríkisvaldsins – sem ásamt stofnanavæddri spillingu og kynþáttahatri einkennir sögu Gvatemala – áríðandi og nánast óumflýjanlegt viðfangsefni sem við höfum næstum öll tekið til umfjöllunar. Bæði fyrstu smásögurnar mínar og skáldsögur spruttu upp úr ofbeldinu í andrúmsloftinu í Gvatemala.

Frændi minn var brenndur til bana síðdegis hinn 31. janúar 1980 þegar spænska sendiráðið í Gvatemala var yfirtekið. Þar féllu einnig leiðtogar Maja-frumbyggja sem höfðu ferðast til höfuðborgarinnar til þess að mótmæla margvíslegum mannréttindabrotum sem gvatemalski herinn hafði framið á landsvæðum þeirra. Þessi brot voru síðan upphafið að þjóðarmorði á Maja Ixil-fólkinu. Ég og Magalí, tæplega tvítug systir mín, vorum send til þess að færa frænda okkar hjartalyf þegar símtal barst frá sendiráðinu skömmu eftir að það hafði verið tekið yfir. Hann hafði óvart verið tekinn sem gísl í sendiráðinu þar sem hann var staddur til þess að fjalla um skipulagningu alþjóðlegrar dómsmálaráðstefnu. Hópur lögreglumanna aftraði för okkar og þekktur blaðamaður, sem hafði komið rétt á undan, varaði okkur við því að lögreglan væri í þann veginn að gera áhlaup á sendiráðið. Við sáum hvernig nokkrir lögreglumenn klifruðu upp á svalirnar á annarri hæð, vopnaðir hríðskotarifflum og að því er virtist eldvörpum. Við heyrðum sprengingu og svartur reykur steig til himins út um gluggann. Nokkrum sekúndum síðar, í talsverðri fjarlægð frá byggingunni umkringdu, fundum við lyktina af sviðnu holdi.

Minningin um þetta síðdegi þegar 37 manns brunnu til bana ásótti mig án afláts og einhverju sinni vaknaði ég af draumi þar sem ég borðaði steiktan kjötbita úr líkama frænda míns. Það var eins og upprennandi rithöfundurinn í brjósti mínu skynjaði að ofbeldið í umhverfinu yrði mér eins konar bókmenntalegur innblástur.

Eyðilegging náttúrunnar – og spillingin sem henni fylgir – er annað þema sem sömuleiðis hefur örvað skrif mín.

Fyrsta skáldsagan mín „Lo que soñó Sebastián“ (ísl. „Það sem Sebastían dreymdi“) hefst á deilu milli Sebastiáns Sosa, ungs hugsjónamanns og náttúruverndarsinna sem kemur úr borg, og fjölskyldu veiðiþjófa í Petén-frumskóginum. Tilraunir Sosa til þess að berjast fyrir gildum sínum hafa hörmulegar afleiðingar fyrir hann og fólkið í kringum hann.

Í upphafi og um miðbik níunda áratugarins, stuttu eftir þjóðarmorðið á Maja Ixil-fólkinu í Gvatemala, voru stórir hlutar frumskógarins lagðir í rúst af landeigendum svo þar mætti reisa búgarða fyrir nautgripi og plantekrur til að rækta sykurreyr og afríska olíupálma. Magalí systir mín – innblásin af skrifum heilags Frans frá Assisi, Seattle höfðingja og Rachel Carson – stofnaði fyrstu óopinberu umhverfisverndarsamtökin í Gvatemala, Defensores de la Naturaleza, í valdatíð Efraíns Ríos Montts hershöfðingja (sem 30 árum síðar átti eftir að vera fundinn sekur um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu). Hún og félagar hennar sannfærðu hóp af áhrifamiklu fólki um nauðsyn þess að friðlýsa svæði um allt land.

Árið 1986 bannaði fyrsta lýðræðislega kjörna ríkisstjórn Gvatemala – eftir röð herforingjastjórna – nýtingu þessara friðlýstu svæða, sem skógarhöggs- og pappírsfyrirtæki höfðu þegar fengið augastað á. Þetta leiddi til þess að margt fólk sem Magalí þekkti, þar á meðal nautgriparæktendur, eigendur skógarhöggsfyrirtækja og stórra plantekra sem bannið hafði áhrif á, tók að líta á hana sem svikara sem væri haldinn ofstækisfullum hugmyndum um að vernda náttúruna á kostnað efnahagslegra framfara. Hún var uppnefnd kommúnisti, „umhverfisbrjálæðingur“ og umhverfishryðjuverkamaður í fjölmiðlum.

Ein af skáldsögunum mínum, „El país de Toó“, (ísl. „Landið Toó“) fjallar um baráttu Maja-fólksins gegn skaðlegum námuiðnaði sem nýtur lögverndar.

Í upphafi þessarar aldar, þegar fáir íbúar Gvatemala voru meðvitaðir um þau hrikalegu og óafturkræfu áhrif sem nútímanámuiðnaður hefur á umhverfið, byrjuðu námufyrirtæki að kaupa stór landsvæði. Nokkrum árum áður en námuæðið hófst höfðu verið sett lög utan um námuvinnslu – með aðstoð lögfræðinga sem svo kom á daginn að reyndust vera starfsmenn námufyrirtækjanna.

Opinberar rannsóknir á umhverfisáhrifum hafa leitt í ljós að Montana Exploradora, dótturfélag hins máttuga kanadíska námufyrirtækis Glamis Gold, gat í krafti þessara laga notað 1,6 milljónir gallona af vatni á dag gjaldfrjálst – og jafnframt blandað út í það blásýrusalti og öðrum skaðlegum efnum – í Sipacapa, afar fátækri sýslu í vesturhluta Gvatemala. Venjuleg fjölskylda í Sipacapa notar um 1.320 gallon af vatni á mánuði.

Nokkur af þeim svæðum Gvatemala sem eru hvað ríkust að steinefnum eru í hálendinu í vesturhluta landsins, þar sem mikið af Maja-fólki býr. Gvatemala hefur veitt meira en 300 leyfi fyrir námugreftri og rannsóknum frá árinu 1996. Þessi þróun leiddi til þess að vestrænir umhverfissinnar og Maja-fólkið tóku í fyrsta skipti höndum saman til þess að standa vörð um náttúruverndarhagsmuni. Á undanförnum áratugum hafa margir aðgerðasinnar úr hópi Maja verið myrtir – eða sóttir til saka og fangelsaðir fyrir hryðjuverk, þjófnað, ólöglega vegatálmun, eða hér um bil hvaða sem er – fyrir að berjast gegn innrásinni í land þeirra.

„Landið Toó“ fjallar um baráttu sem er sambærileg við þá sem á sér stað á landsvæðum Maja-fólksins í Gvatemala. Í skáldsögunni birtast til dæmis spilltar stofnanir, á sama hátt og æðstu dómstólar Gvatemala í dag eru skipaðir dómurum sem hafa augljós tengsl við pólitískar hreyfingar og glæpasamtök. Sumir þeirra koma fyrir á Engel-listanum yfir spillta og ólýðræðissinnaða einstaklinga í Mið-Ameríku, sem Bandaríkin hafa gefið út árlega frá árinu 2021. Skáldsagan endar hins vegar á því að lítill Maja-þjóðflokkur verður til á frjálsu landsvæði í miðamerísku lýðveldi þar sem pólitísk spilling hefur grasserað alla tíð.

Nú, eins og fyrir 40 árum (og kannski alla tíð), má vart greina á milli skáldskaparins og raunveruleikans. Löghernaður heldur áfram að breiðast út á heimsvísu: frá Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump fyrrverandi forseti hafnaði niðurstöðum kosninganna 2020, til Rússlands, þar sem Pútín forseti misbeitir lögum til þess að fangelsa sjálfstæða blaðamenn sem afhjúpa lygasögurnar sem hann hefur beitt til þess að réttlæta innrásina í Úkraínu. Allt frá Nígeríu til Kenía og frá Ísrael til Kína eru lögin orðin að vopni.

Í kjölfar þess að frambjóðandi úr stjórnarandstöðu vinstra megin við miðju var kjörinn í lýðræðislegum forsetakosningum í Gvatemala í ágúst síðastliðnum hefur yfirsaksóknari á skrifstofu sérstaks saksóknara í landinu, sem jafnframt er áberandi á Engel-listanum, tilkynnt um margvísleg lagaleg úrræði sem hann hyggst beita gegn leiðtogum flokksins sem sigraði í kosningunum. Þeirra á meðal er nýkjörinn forseti. Sakarefnið er notkun falsaðra upplýsinga á kjörskrám.

Á næstu árum mun þessi hneigð til þess að breyta réttlæti í pólitískan leik vafalaust leiða til þess að enn fleiri aðgerðasinnar, blaðamenn og rithöfundar verði fangelsaðir fyrir ímyndaða glæpi. Á sama hátt og ríkisofbeldi, kynþáttahatur og spilling hefur áratugum saman nært skrif mín og kollega minna mun þessi brenglun á réttarkerfinu kannski leiða til nýrrar bókmenntaöldu sem verður skrifuð bak við lás og slá.

© 2023 Rodrigo Rey Rosa

Höf.: Rodrigo Rey Rosa fæddist og ólst upp í Gvatemalaborg. Hann hefur sent frá sér fimm smásagnasöfn og fjölda skáldsagna sem hafa ko