Unnur Björg Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 2. október 1954. Hún lést á Landspítalanum 17. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Páll Jakob Daníelsson, f. 16. nóvember 1915, d. 12. júní 2000 og Þorbjörg Jakobsdóttir, f. 15. febrúar 1931, d. 25. október 1995.

Systkini Unnar: Daníel Jakob Pálsson, f. 3. maí 1953, tvíburasystir, Unnar Ólöf Gerður Pálsdóttir, f. 2 október 1954, d. 17. ágúst 2017. Hálfbróðir Þórir Pálsson Roff, f. 15. mars 1940, d. 3. september 2016.

Unnur eignaðist einn son, Sigurþór Dan, f. 11. janúar 1972, bílstjóri í Reykjavík.

Unnur var fyrst til heimilis á Klapparstíg í Reykjavík, síðan Tunguvegi 62 í Reykjavík. Unnur vann ýmis verkakvennastörf í Hampiðjunni, Sanitas og Kexverksmiðjunni Frón. Unnur giftist Oddi Friðriki Helgasyni 29. desember 1996. Unnur og Oddur kynntust er Oddur starfaði sem umsjónarmaður við smíðavelli fyrir börn í Reykjavík er hálfbróðir hans sá um. Er Unnur hætti að vinna sá hún um að aðstoða Odd við störf hans í ættfræðiþjónustunni er hann stofnaði, keyrsla, sækja og þrífa ásamt ýmsum verkefnum er féllu til. Þess má geta að er Unnur var unglingur eyddi hún öllum sínum frístundum við sjálfboðastörf við byggingu Bústaðarkirkju. Á sumrin naut hún þess að heimsækja bæinn Hamar á Barðaströnd þar sem móðir hennar var fædd og uppalin.

Útför hennar fór fram 12. desember 2023.

Kær vinkona mín, Unnur Björg, hafði sig ekki mikið í frammi, eins og ekki er óalgengt um fólk í okkar stöðu, en hún stamaði og hefur trúlega gert alla tíð, eins og ég.

Við kynntumst um aldamótin, þegar Unnur fór að sækja fundi hjá Málbjörg, félagi um stam. Hún var dugleg að mæta á fundi, sem og að sækja norrænu ráðstefnurnar sem félagið hefur haldið fimmta hvert ár. Unnur var ákaflega þægileg í viðkynningu og vinaleg og náði vel til barnanna sem sóttu viðburði félagsins. Síðast kom Unnur á aðalfundinn sem haldinn var í september og virtist þá allt vera í lagi hjá henni, enda bar hún sig ætíð vel, með sinni hæglátu umhyggju fyrir öllu og öllum.

Vertu sæl, kæra Unnur, og takk fyrir ánægjuleg kynni.

Björn Jakob
Tryggvason.