Thomas L. Friedman
er dálkahöfundur hjá New York Times.
Ég fylgist með stríði Ísraels og Hamas og hugsa um einn þeirra heimsleiðtoga, sem ég hef haft í mestum metum: Manmohan Singh. Hann var forsætisráðherra Indlands þegar tíu pakistanskir vígamenn, djíhadistar úr samtökunum Lashkar-e-Taiba, sem margir telja að tengist leyniþjónstu Pakistans, laumuðust inn í Indland og myrtu rúmlega 160 manns í Bombay, þar á meðal 61 mann í tveimur lúxushótelum. Hver voru hernaðarviðbrögð Singhs við 11. september Indlands?
Hann gerði ekki neitt.
Singh hefndi sín aldrei hernaðarlega á pakistönsku þjóðinni og réðst ekki heldur á búðir Lashkar í Pakistan. Þetta var dæmi um ótrúlega stillingu. Hver var hugsunin að baki? Í bók sinni Choices: Inside the Making of India's Foreign Policy (Kostir: mótun stefnu Indlands í utanríkismálum skoðuð innan frá) fór Shivshankar Menon, sem þá var utanríkisráðherra Indlands, yfir málið og dró fram þessi aðalatriði:
„Sjálfur þrýsti ég á þessum tíma á um tafarlausa sýnilega hefnd gegn búðum djíhadista eða gegn leyniþjónustu pakistanska hersins, sem var greinilega meðsekur,“ skrifaði Menon. „Að gera það hefði verið fullnægjandi tilfinningalega og unnið að hluta á skömminni yfir vanhæfninni, sem lögregla og öryggisstofnanir Indlands höfðu sýnt.“
Hann hélt áfram: „En við nánari yfirvegaða íhugun og skoðun eftir á tel ég að ákvörðunin um að svara ekki hernaðarlega, heldur leggja áherslu á aðrar leiðir, þar á meðal diplómatískar og samskipti bak við tjöldin, hafi verið rétt á þessari stund og þessum stað.“
Menon sagði að ein helsta ástæðan hefði verið að hverslags hernaðarleg viðbrögð hefðu ekki verið lengi að draga athyglina frá því hvað árásin á indverska borgara og ferðamenn hefði verið yfirgengileg og mikill hryllingur; „sú staðreynd að gerð var hryðjuverkaárás frá Pakistan á Indlandi með opinberri þátttöku Pakistans“ hefði týnst. Um leið og Indland hefði látið til skarar skríða hefði heimurinn, að mati Menons, strax brugðist við með því að yppta öxlum. Enn einar skærurnar á milli Pakistans og Indlands – ekkert óvenjulegt hér á ferð.
Þess utan, skrifaði Menon, hefði „indversk árás á Pakistan sameinað Pakistana að baki pakistanska hernum, sem átti í vaxandi mæli undir högg að sækja heima fyrir“ og „árás á Pakistan hefði einnig veikt hina borgaralegu stjórn í Pakistan, sem hafði verið nýkjörin til valda og leitaðist við að koma á mun betra sambandi við Indland en pakistanski herinn var tilbúinn að taka í mál“. Hann hélt áfram: „Að kynda undir stríðsótta og jafnvel fara í stríð var nákvæmlega það sem pakistanski herinn vildi til að styrkja stöðu sína heima fyrir.“
Hann bætti því við að „stríð, jafnvel sigursælt stríð, hefði bakað ríkinu kostnað og valdið bakslagi í indversku efnahagslífi einmitt þegar efnahagslíf heimsins var í fordæmalausri kreppu í nóvember 2008“.
Að lokum, skrifaði Menon, vannst það „með því að ráðast ekki á Pakistan að Indland var frjálst til að leita allra lagalegra og leynilegra leiða til að koma gerendunum í hendur réttvísinnar, sameina alþjóðasamfélagið til að þvinga Pakistan til að taka afleiðingum gerða sinna og auka líkurnar á því að svona árás yrði ekki gerð aftur“.
Ég skil að Ísrael er ekki Indland – land með 1,4 milljarða manna á gríðarstóru landsvæði. Fólk fann ekki fyrir láti 160 manna, sem sumir voru ferðamenn, í Bombay á hverju heimili og í hverju þorpi með sama hætti og þegar Hamas-liðar myrtu rúmlega 1.400 Ísraela, limlestu fjölda annarra og rændu rúmlega 200 manns. Pakistan er ekki heldur með kjarnorkuvopn til að fæla frá árás.
Engu að síður er lærdómsríkt að velta fyrir sér muninum á viðbrögðum Indlands við hryðjuverkunum í Bombay og viðbrögðum Ísraels við slátrun Hamas.
Hvað gerðist eftir fyrsta hryllinginn yfir yfirgengilegri villimennsku árásar Hamas á ísraelsk börn, aldrað fólk og danshátíð? Fréttaflutningurinn beindist fljótt að aðgangshörkunni í gagnárás Ísraels á almenna borgara á Gasasvæðinu, sem Hamas-liðar höfðu komið sér fyrir á meðal. Hin umfangsmikla gagnárás Ísraels yfirskyggði hryðjuverk Hamas og gerði samtökin í stað þess hetju í augum sumra. Hún neyddi einnig nýja bandamenn Ísraels í gegnum Abrahams-samningana til að stíga skref til baka frá gyðingaríkinu.
Ísraelar hafa kallað rúmlega 360 þúsund varaliða í herinn og víst er að það verður íþyngjandi fyrir ísrelskan efnahag ef það tekur marga mánuði að uppræta Hamas á Gasasvæðinu eins og spáð er. Nú þegar er búist við að efnahagur landsins muni skreppa saman um tíu af hundraði á ársgrundvelli á síðustu þremur mánuðum ársins, en Ísrael var í fjórða sæti á lista tímaritsins The Economist yfir skilvirkustu hagkerfi aðildarríkja OECD árið 2022.
Persónulega býður mér við viðbrögðum þeirra stúdenta og annarra, sem snerust á sveif með Hamas gegn Ísrael – í sumum tilfellum jafnvel áður en Ísrael svaraði fyrir sig – eins og gyðingar hefðu hvorki rétt til sjálfsákvörðunar né sjálfsvarnar nokkurs staðar í sínu forna heimalandi. Í þessum viðbrögðum er ekki tekið til greina að Ísrael, hvað sem líður öllum þess göllum, er fjölmenningarsamfélag þar sem næstum helmingur doktora sem útskrifast er annaðhvort arabar eða drúsar. Eða að Hamas eru herská íslamistasamtök, sem þola hvorki andóf né hinsegin fólk og hafa helgað sig því að þurrka ríki gyðinga af yfirborði jarðar.
Ég hef því samúð með þeim hræðilegu kostum, sem stjórn Ísraels stóð frammi fyrir eftir umfangsmestu slátrun gyðinga síðan í helförinni. En það var einmitt vegna þess að ég fylgdist grannt með einstökum viðbrögðum Singhs við hryðjuverkunum í Bombay sem ég hvatti strax til mun markvissari, úthugsaðri viðbragða Ísraels. Það hefði átt að kalla aðgerðina Björgum gíslunum okkar og einblína á að ná og drepa bandingjana, sem rændu börnum og öfum og ömmum. Allir foreldrar hefðu skilið það.
Þess í stað réðst ríkisstjórn Benjamins Netanyahus samstundis í áætlun um að, eins og Yoav Gallant varnarmálaráðherra orðaði það, „þurrka“ Hamas „af yfirborði jarðar“. Og á þremur vikum hafa Ísraelar hæglega orðið rúmlega þrefalt fleiri almennum borgurum að bana og valdið mun meiri eyðileggingu á Gasasvæðinu en Ísrael varð fyrir. Um leið hefur Ísrael ákveðið að ná hernaðarlegri stjórn á Gasa – aðgerð sem út frá fjölda íbúa mætti bera saman við að Bandaríkjamenn ákvæðu á einni nóttu að leggja undir sig hálft Mexíkó. Áætlun Ísraela snýst, að sögn Netanyahus, um að heyja „langa og erfiða“ orrrustu „til að eyða allri hernaðar- og stjórngetu Hamas og koma gíslunum heim“.
Eins og ég sagði er Ísrael ekki Indland og það er engin leið að ætlast til þess að Ísraelar bjóði hina kinnina – ekki á þessum slóðum. En hver er áætlun Netanyahus? Ísraelskir embættismenn, sem ég hef rætt við, segja að þeir viti tvennt fyrir víst: Hamas muni aldrei aftur stjórna Gasa og Ísrael muni ekki stjórna Gasa eftir daga Hamas. Þeir gefa til kynna að unnið verði að fyrirkomulagi líku því sem sjá megi á hlutum Vesturbakkans. Það verði í höndum Palestínumanna á Gasa að stjórna daglegu lífi og að tjaldabaki verði ísraelski herinn og öryggisveitir Shin Bet og hnykli vöðvana.
Þetta er hálfköruð áætlun. Hverjir eru þessir Palestínumenn, sem verða kallaðir til að stjórna Gasa fyrir hönd Ísraels? Hvað gerist daginn eftir að Palestínumaður, sem er að störfum fyrir Ísrael á Gasa, finnst myrtur í húsasundi með miða á brjóstinu: „Svikari,“ undirritað: „Neðanjarðarhreyfing Hamas.“
Hver á þess utan að borga fyrir stjórn Ísraels á heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir 2,2 milljónir íbúa Gasa? Réttið upp hönd ef þið haldið að Evrópusambandið, arabaríkin við Persaflóa eða hinn þokkalega stóri stuðningshópur í þingflokki demókrata í fulltrúadeildinni í Bandaríkjunum muni skrifa undir að fjármagna umsjón Ísraels yfir Gasa um ókomna tíð – á meðan Netanyahu og föruneyti hans úr röðum þeirra sem eru sannfærðir um yfirburði kynstofns gyðinga eru staðráðnir í að innlima Vesturbakkann án jafnréttis fyrir Palestínumennina þar. Kostnaðurinn við hersetu Gasa gæti sligað ísraelskan her og efnahag svo árum skiptir.
Og hvernig ætlar Ísrael í ofanálag að stjórna svona flókinni aðgerð þegar það er – af góðum ástæðum – lítið traust í garð Netanyahus? Hann beindi meira að segja fingrinum að yfirmönnum leyniþjónustu ísraelska hersins og Shin Bet og sagði að þeir bæru ábyrgð á að Hamas tókst að ráðast inn í landið öllum að óvörum og kvaðst um leið ekki bera nokkra sök sjálfur. Ísraelskum almenningi blöskraði svo að degi síðar neyddist forsetinn til að draga til baka ásakanir sínar á stríðstímum gegn kollegum sínum. En skaðinn var skeður.
Netanyahu er ekki með hóp keppinauta, sem styðja hann. Hann er með hóp manna, sem er verið að biðja um að taka gríðarlega erfiðar ákvarðanir til langs tíma þótt þeir viti að forsætisráðherra þeirra sé svo lítilmótleg persóna að hann muni kenna þeim um allt sem miður fer og sölsa til sín heiðurinn af öllu sem gengur upp.
Svo að við tökum þetta saman, kæri lesandi, skil ég hvers vegna Ísraelar telja að þeir verði að eyða Hamas og fæla þannig aðra á þessum slóðum frá því að íhuga einu sinni eitthvað af þessum toga. En þegar horft er frá Washington er ekki að sjá að forustan í Ísrael sé með raunhæfa áætlun til sigurs eða leiðtoga sem geti siglt í gegnum álagið og flækjurnar í þessari kreppu. Ísrael þarf að gera sér grein fyrir því að þolinmæði þeirra bandaríska bandamanns gagnvart miklu mannfalli í röðum almennra borgara á Gasa og hernaðaraðgerð, sem er opin í annan endann, er ekki ótakmörkuð. Við gætum satt að segja verið að nálgast mörkin.
Ísrael ætti að halda dyrunum opnum fyrir vopnahléi í mannúðarskyni og fangaskiptum, sem myndi einnig gefa Ísraelum kost á að draga andann og velta fyrir sér hvert þeir ætli sér með óðagotinu í hernaðaraðgerð sinni á Gasa – og hvað hún gæti kostað Ísrael til lengri tíma.
Þess vegna tek ég dæmið frá Indlandi. Vegna þess að markviss beiting valds með takmörkuðum gerlegum markmiðum gæti þjónað langtíma öryggi Ísraels og velferð betur en allsherjarstríð til að þurrka út Hamas. Ég vona að Ísraelar séu að meta kosti og galla beggja þessara leiða.
Hlé myndi einnig gefa íbúum Gasa færi á að meta hvaða áhrif árás Hamas á Ísrael – og fullkomlega fyrirsjáanleg viðbrögð Ísraela – hefur haft á líf þeirra, fjölskyldur, heimili og fyrirtæki. Hverju héldu Hamas-liðar nákvæmlega að þeir myndu ná fram með þessu stríði fyrir íbúa Gasa, sem í þúsundatali fóru til vinnu í Ísrael á hverjum degi eða fluttu landbúnaðarafurðir eða aðrar vörur yfir landamæri Gasa og Ísraels þar til fyrir nokkrum vikum? Hamas hefur verið sýndur of mikill skilningur og ekki þurft að svara nógu mörgum erfiðum spurningum.
Ég vil sjá leiðtoga Hamas koma út úr göngum sínum undir sjúkrahúsum og horfast í augu við fólkið sitt og fjölmiðla heimsins og segja öllum hvers vegna þeir héldu að það væri svona frábær hugmynd að limlesta og ræna ísraelskum börnum og ömmum og kalla á þessa hræðilegu gagnárás á börn og ömmur nágranna þeirra á Gasa – að ekki sé talað um þeirra eigin.
Ég hef alltaf litið svo á að hægt sér að einfalda ágreining Ísraela og Palestínumanna með eftirfarandi hætti allt frá fyrri hluta 20. aldar: átök, hlé, átök, hlé, átök, hlé, átök, hlé, átök og hlé. Mikilvægast er að skoða hvað deiluaðilarnir gerðu í hléunum.
Ísraelar reistu eftirtektarvert samfélag og hagkerfi, þótt gallað sé, og Hamas tók næstum allt sem var til ráðstöfunar til að grafa stríðsgöng.
Ég bið ykkur, Ísraelar, að týnast ekki í þessum göngum.
Þessi dálkur birtist fyrst í The New York Times 29. október 2023.