Kvikmyndir
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Mikil umræða skapaðist í kringum kvikmyndina Wonka, eftir leikstjórann Paul King, þegar stikla myndarinnar kom á netið. Timothée Chalamet leikur aðalhlutverkið, Willy Wonka, en eftir að hafa séð stikluna lýstu margir óánægju sinni yfir þeirri ákvörðun. Það varð vinsælt á TikTok að gera grín að ýktum leik Chalamets í stiklunni en þar virðist hann einfaldlega reyna of mikið. Það sem flestir vissu hins vegar ekki, þar á meðal undirrituð, er að Wonka er dans- og söngvamynd, en það kom hvergi fram í markaðssetningunni, og svokallaður ýktur leikur er mjög viðurkenndur í þeirri kvikmyndagrein. Undirrituð reyndi eftir bestu getu, eins og aðrir, að láta leikaravalið ekki trufla sig því þrátt fyrir að Chalamet hafi mikinn sjarma er óhætt að segja að hann sé að verða ofnotaður í kvikmyndageiranum. Þar með er alls ekki sagt að Chalamet sé slæmur sem Willy Wonka og undir lok myndarinnar nær Chalamet áhorfendum alveg á sitt band. Það eru þó augnablik í myndinni þar sem áhorfendur fá kjánahroll en það er kannski ekki furða þar sem vinsælasti piparsveinn Hollywood, þ.e. Chalamet, er þar látinn klæðast vínrauðri kápu, gömlum topphatti og syngur um súkkulaði.
Söngvamyndir er ekki fyrir alla enda áherslurnar aðrar en í venjulegum frásagnarmyndum. Í stað þess að leggja áherslu á að fanga raunveruleikann er lögð áhersla á að skapa töfrandi söguheim með skrautlegri myndheild (f. mise-en-scène). Leikmyndin og búningarnir í Wonka eru litríkir og vandaðir og ekki ólíklegt að þær deildir verði tilnefndar til Óskarsins á næsta ári. Það er hins vegar ekki nóg fyrir söngvamynd að vera með góða umgjörð heldur er líka nauðsynlegt að vera með nokkra smelli, þ.e. lög sem áhorfendur fá á heilann beint eftir áhorfið. Því miður virtist ekkert lag festa sig í sessi í höfðinu á undirritaðri, sem er ekki góðs viti.
Þrátt fyrir vankanta er Wonka skemmtileg og án efa þess virði að horfa á. Myndin er ekki bara enn önnur endurgerð eins og virðist vera svo vinsælt í kvikmyndageiranum í dag heldur tekst hún að skilja sig frá fyrri myndum um Willy Wonka. Það var ekki við öðru að búast af leikstjóranum Paul King en hann hefur áður leikstýrt Paddington 1 (2014) og 2 (2017) sem voru einfaldlega dásamlegar og hjartnæmar. Hjartað vantar ekki í þessa mynd þó svo að fyrri helmingur á söguframvindunni sé oft dálítið klunnalegur. Hins vegar inniheldur myndin fitufordóma eins og fyrri myndir og bókin eftir Roald Dahl, sem myndin er byggð á. Fitufordómana má sjá í birtingarmynd lögreglustjórans (Keegan-Michael Key) en hann er til í að fremja glæpi fyrir nógu mikið súkkulaði. Það líður ekki á löngu þar til ofneysla hans á súkkulaði leiðir til þyngdaraukningar og undir lokin kemst hann ekki úr lögreglubílnum. Karakterinn er í raun bara einn stór, lélegur brandari. Paul King hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að veita Hugh Grant hlutverk Oompa-Loompa en ekki dvergvöxnum leikara líkt og í fyrri myndum um Wonka. Auðvitað væri sanngjarnast ef dvergvaxið fólk fengi tækifæri til að leika hefðbundin hlutverk en því miður virðist raunin enn vera sú að hlutverk eins og Oompa-Loompa eru þau einu sem standa því til boða.
Að því sögðu er Wonka ekki fullkomin og jafnvel kannski örlítið gamaldags og þó það sé sjarmi yfir henni hefur hún ekki í tærnar þar sem Paddington er með hælana. Það er hins vegar spennandi að sjá að söngvamyndir eru að reyna að festa sig í sessi aftur í kvikmyndageiranum með endurgerðum eins og Wonka og Slæmar stelpur (e. Mean Girls) en það er ólíklegt að dans- og söngvamyndagreinin nái aftur jafn miklum hæðum og á gullöld Hollywood.