Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Samtök íþróttafréttamanna krýna íþróttamann ársins í 68. skipti á fimmtudagskvöldið.
Tíu kandídatar, sex konur og fjórir karlar, voru kynntir til leiks rétt fyrir jól og íþróttaáhugafólk hefur því getað velt vöngum yfir endanlegri niðurstöðu og skipst á skoðunum í jólaboðunum.
Ekki veit ég hver varð fyrir valinu og kemst að því eins og aðrir að kvöldi 4. janúar, en eins og alltaf eru sumir líklegri en aðrir.
Þegar tíu manna hópurinn er skoðaður finnst mér blasa við að þrír íþróttamenn hafi náð skrefi lengra en hinir á árinu 2023.
Í stafrófsröð eru það Anton Sveinn McKee, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Sóley Margrét Jónsdóttir.
Sundmaðurinn Anton fékk silfur í 200 m bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug fyrr í þessum mánuði.
Handboltakappinn Gísli varð Evrópumeistari með Magdeburg í vor, var valinn besti leikmaður Meistaradeildar og besti leikmaðurinn í Þýskalandi.
Kraftlyftingakonan Sóley varð Evrópumeistari og var hársbreidd frá heimsmeistaratitlinum.
Hin sjö eru öll vel að sinni tilnefningu komin og líklega er það knattspyrnukonan og Þýskalandsmeistarinn Glódís Perla Viggósdóttir sem helst gæti veitt hinum þremur keppni um efstu sætin.
En um það bil þrjátíu starfandi íþróttafréttamenn, af báðum kynjum, hafa mismunandi skoðanir og sýn á hlutina og hver um sig kýs eftir sinni tilfinningu. Það gerði ég í 43. skipti í ár.
Megi sá besti vinna.