— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svo margt hafði breyst hjá Lovísu. Fyrir ári hafði hún varið gamlárskvöldi á áramótadansleik í Þórscafé, en nú var hún heima við, í litlu íbúðinni. Henni leið vel, en umfram allt leið ófædda barninu vel og það var fyrir öllu

Svo margt hafði breyst hjá Lovísu. Fyrir ári hafði hún varið gamlárskvöldi á áramótadansleik í Þórscafé, en nú var hún heima við, í litlu íbúðinni. Henni leið vel, en umfram allt leið ófædda barninu vel og það var fyrir öllu. Kvöldmaturinn var í ofninum, seint á ferðinni, en hún fór hægar yfir en venjulega, langt gengin með barnið.

Aftansöng í Dómkirkjunni hafði verið útvarpað fyrr um kvöldið, séra Bjarni Jónsson predikaði, en nú var Ólafur Thors í viðtækinu, að flytja áramótaávarp forsætisráðherra. Maturinn yrði á borð borinn um klukkan níu.

Lovísa hafði búið í þessu fjölbýlishúsi í þrjú ár og náð að skrapa saman fyrir leigunni um hver mánaðamót, og sömuleiðis leggja dálítið fyrir. Barnsföðurnum hafði hún kynnst fyrir sléttu ári, einmitt á umræddum dansleik. Hann hafði boðið af sér góðan þokka, verið kurteis, myndarlegur, en myrkrið lét ekki á sér kræla fyrr en við nánari kynni. Hún var orðin ófrísk þegar ofbeldið hófst, andlegt og líkamlegt. Hann gekk alltaf lengra og lengra, og undir lokin var hún svo hrædd um að hann myndi gera ófædda barninu mein.

Í ofninum var lambalæri, eftir uppskrift sem hafði verið lengi í fjölskyldunni. Það var ljúfur ilmur í loftinu, róleg áramót eins og Lovísa hafði óskað sér. Utandyra rigndi, eins og hellt væri úr fötu, en það gerði ekkert til. Hún ætlaði að halda sig inni allt kvöldið. Það var von á matargestinum á hverri stundu; hún var svo fegin að þurfa ekki að borða ein. Þá hefði hún eflaust látið samloku nægja, en nú beið hennar safarík steik. Og ekki mátti hún heldur gleyma því að hún var að borða fyrir tvo.

Hún fékk sér sæti í rauða sófanum, dró djúpt andann. Forsætisráðherra lauk máli sínu og við tók örstutt þögn í útvarpinu, og hún heyrði aðeins óminn af rigningunni. Svo var barið að dyrum, og hún hrökk við, þótt hún vissi að það væri ekkert að óttast.

„Gleðilega hátíð,“ sagði Einar, nágranni hennar. Hann stóð hikandi í dyragættinni. Það var aðeins vika síðan þau kynntust, en henni fannst eins og þau hefðu þekkst alla tíð. Hann var samt sem áður dálítið vandræðalegur, þótt engin ástæða væri til. „Ég tók með eina vínflösku, og dálítinn pakka,“ sagði hann svo og rétti henni poka.

„Komdu inn, maturinn er næstum því tilbúinn.“

„Voðaleg þessi rigning,“ sagði hann þegar hann var sestur við litla borðstofuborðið. „Mér datt í hug að við gætum kannski rölt út og horft á brennuna fyrir neðan Sjómannaskólann, það er kveikt í klukkan ellefu.“

Lovísa brosti.

Einfalt kvöld, góður matur, og maður sem lagði ekki hendur á hana.

„Auðvitað, já, mér líst ljómandi vel á það.“

Ef til vill yrði þetta upphafið að einhverju meira en bara vinskap. Hún hafði vissulega leyft huganum að reika. Einar var hlýlegur maður, hjálpsamur í meira lagi, rólegur, og alveg sæmilega myndarlegur. Eiginlega fullkomin andstæða ofbeldismannsins sem hún hafði kynnst fyrir réttu ári. Og kannski, já, bara kannski, þyrfti litla krílið aldrei að fá að vita sannleikann. Einar gæti gengið barninu í föðurstað, og þau myndu flytja inn í íbúðina hans. Lovísa hafði ekki enn komið þangað inn, en vissi þó að sú var tvöfalt stærri en hennar.

Einar hrósaði lambinu í hástert, sagðist aldrei nenna að elda almennilega fyrir einn.

Lovísa opnaði pakkann sinn eftir matinn. Einar hafði gefið henni ljóðabók eftir Stein Steinarr, enn og aftur sýndi hann hversu ólíkur hann var barnsföður hennar. Sá hafði raunar aldrei gefið henni gjafir.

Klukkan var farin að ganga tólf þegar Einar minntist aftur á brennuna.

„Það hlýtur að stytta upp von bráðar, en ég skil það vel ef þú vilt vera inni í hlýjunni. Ég fer bráðum að koma mér, ætla nú ekki að …“

„Við skulum endilega fara, ég treysti mér vel í það. Og það kemur ekki til mála að þú farir neitt fyrr en eftir miðnætti. Þá opnum við vínið og skálum fyrir nýja árinu, þótt ég geti nú varla fengið mér meira en einn sopa …“

„Já, æ, voðalegur bjáni er ég. Ég legg stundum ekki saman tvo og tvo.“ Hann brosti til hennar og hún varð að viðurkenna að kannski væri hún að verða skotin í honum, þessum velmeinandi náunga.

Þegar þau stóðu í rigningunni og horfðu á bálköstinn varð henni hugsað, einu sinni sem oftar, til aðfangadagskvölds. Barnsfaðir hennar hafði mætt, ofurölvi, og haft í hótunum við hana. Hann hafði þó gætt þess að hrópa ekki, að vekja ekki óþarfa athygli. Hún hafði hins vegar verið við öllu búin, geymt skæri í svuntunni, og þegar hann lagði til atlögu þá hafði hún gripið til örþrifaráðs, til að verja sjálfa sig og ófætt barnið.

Og svo hafði hún staðið yfir líkinu, ráðþrota, grátið, í kvíðakasti, allt þar til Einar hafði birst, eins og bjargvættur út úr myrkrinu. Hann hafði tekið málin í sínar hendur, strax áttað sig á aðstæðum, kvaðst oft hafa heyrt til ofbeldismannsins undanfarna mánuði.

Ekki vissi hún hvað Einar hafði gert við líkið í skjóli jólanætur, en á öðrum degi jóla hafði hún bankað upp á hjá honum og boðið honum í mat á gamlárskvöld.

Og nú myndu þau fagna nýju ári saman, framtíðin óviss en spennandi. Í fjarska heyrði hún kirkjuklukkur hringja inn árið 1950.

Og þá hnippti Einar varlega í öxlina á henni, færði sig aðeins nær, benti á brennuna og hvíslaði: „Þarna liggur hann, helvítis fanturinn. Nú ert þú loksins frjáls.“ Svo bætti hann við: „Og gleðilegt ár.“

Fyrri hluti sögunnar birtist 23. desember.