Skemmdirnar sem urðu á bænum í skjálftunum 10. nóvember eru gríðarlega umfangsmiklar.
Skemmdirnar sem urðu á bænum í skjálftunum 10. nóvember eru gríðarlega umfangsmiklar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta var eitthvað meira en við höfðum upplifað síðustu árin þegar jörð tók að skjálfa á Reykjanesskaganum.“

Sonja Sif Þórólfsdóttir

er blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu.

Jarðskjálftahrina hafði varað í um tvær vikur þegar jörð tók að skjálfa svo verulega við Grindavík að íbúar gátu ekki sofið. Það var aðfaranótt 9. nóvember, skömmu eftir miðnætti, sem fyrsti skjálftinn reið yfir. Fannst hann vel á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins og um tíu sekúndum eftir að hans varð vart tók síminn að hringja. Blaðamaður Morgunblaðsins sem búsettur er í Keflavík var á hinni línunni, en sú sem þetta skrifar gat ekki öðru svarað í símann en: „Þessi var stór er það ekki?“

Svo vildi til að kvöldvaktinni var í raun lokið og allir farnir heim, blaðið komið í prent og síðasta frétt vaktarinnar birt á mbl.is. Reyndist það svo sannarlega ekki vera síðasta fréttin sem undirrituð skrifaði þetta kvöld.

Skömmu eftir fyrsta skjálftann kom annar, ekki mikið minni, og fleiri skjálftar fylgdu í kjölfarið. Á milli símtala til Veðurstofunnar og fréttaskrifa náði ég tali af Grindvíkingum sem ekki gátu sofið. Brugðu margir á það ráð að fara út á rúntinn og var því óvenjumikil umferð á götum bæjarins þessa aðfaranótt fimmtudags. Hótel Bláa lónsins var rýmt, en ferðamenn sem höfðu lagst til svefns þar þessa nótt töldu sig ekki geta varið nóttinni þar. Voru þeir fluttir á höfuðborgarsvæðið, nokkuð fjærri upptökum skjálftanna.

Undir morgun hægðist þó á skjálftavirkninni og Grindvíkingar fengu örlítinn frið.

Það var þó aðeins einum og hálfum sólarhring síðar að jarðskjálftavirknin tók sig upp að nýju og nú með alvarlegri afleiðingum en flestir gátu séð fyrir.

Skömmu fyrir hádegi föstudaginn 10. nóvember voru blaðamenn mbl.is að rýna í skjálftakort og sáu að virknin, sem áður hafði verið við fjallið Þorbjörn og við Bláa lónið, hafði fært sig. Nú voru að mælast skjálftar austan við Grindavíkurveginn, í Sundhnúkagígaröðinni sem á þessum tímapunkti hafði fengið litla athygli. Við skrifuðum stutta frétt um þessa breytingu og veltum því ekki of mikið fyrir okkur. Virknin hafði áður hoppað vestur í Eldvörp og því kannski ekki óeðlilegt að hún skyldi hoppa austur líka.

Um kaffileytið var þó ljóst að þarna væri eitthvað stærra og meira á ferðinni. Síðdegis var staðan orðin þannig að Grindvíkingar gátu ekki verið heima hjá sér því skjálftarnir voru svo margir og þungir. Reyndust upptök þeirra líka vera beint undir bænum.

Um klukkan hálfsex síðdegis 10. nóvember lýstu almannavarnir yfir hættustigi. Var þá ljóst að skjálftarnir gætu orðið stærri og mögulega leitt til eldgoss, þó að engin væru merkin um að kvika væri að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Óvissan á þessum tímapunkti var mikil og fundum við öll sem þá vorum á vakt að það lá eitthvað annað í loftinu. Þetta var eitthvað meira en við höfðum upplifað síðustu árin þegar jörð tók að skjálfa á Reykjanesskaganum.

Næstu klukkustundir liðu hratt, en samt svo hægt. Ég ræddi við Grindvíkinga sem höfðu ákveðið að drífa sig hreinlega úr bænum. Hávaðinn varð svo mikill þegar skjálftarnir riðu yfir og vildu þeir bara komast í ró og næði. Einnig ræddi ég við mann sem hafði verið að keyra Grindavíkurveginn þegar hann rifnaði undan bílnum. Þau sluppu með skrekkinn og kvaðst viðmælandi minn aldrei hafa verið jafn hræddur á ævinni; hann hefði þó upplifað marga skjálfta og eldsumbrot á ævi sinni. Fann hann hvernig skjálftarnir hreyfðu malbikið sem hann stóð á er hann beið eftir lögreglunni.

Þegar rætt var við sérfræðinga þetta kvöld, hvort sem það var innan Veðurstofunnar eða Háskóla Íslands, leyndi það sér ekki að þessar hræringar komu að einhverju leyti á óvart. Það var einna helst það sem gerði atburðina ógnvekjandi á þessum tímapunkti.

Skömmu fyrir ellefu þetta kvöld kvisaðist það út á meðal blaðamanna á öllum miðlum að almannavarnrir ætluðu að lýsa yfir neyðarstigi og rýma Grindavík. Almannavarnir ákváðu að það yrði þó ekki tilkynnt íbúum Grindavíkur fyrr en hægt væri að gefa tíðindin út í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Við tók rýming sem tók ekki langan tíma því íbúar Grindavíkur höfðu sjálfir yfirgefið heimili sín um kvöldið, eða voru á leið út úr bænum er ákvörðun var tekin um að rýma.

Flestir höfðu sem betur fer þak yfir höfuðið þessa nótt, þótt á annað hundrað hafi gist í fjöldahjálparstöðvum í Keflavík, Kópavogi og á Selfossi.

Fyrir lá þá að sterkar vísbendingar væru um að kvikugangur hefði myndast úr Sundhnúkagígaröðinni í suðvestur og undir Grindavíkurbæ.

Þessar upplýsingar gjörbreyttu stöðunni og voru allra svartasta sviðsmyndin sem nokkur gat búist við, og í raun var óformlega bannað að tala opinberlega um þessa sviðsmynd vikurnar áður. Kannski af því að hún þótti svo hryllileg. Þetta var hins vegar að öllum líkindum staðreyndin.

Þá um nóttina sögðu okkar færustu jarðvísindamenn að eldgos gæti hafist hvenær sem væri þó að ómögulegt væri að segja til um hvar upptökin yrðu. Fyrir lá þó sú staðreynd að þarna væri kvikugangur.

Næstu dagar einkenndust af óreiðu. Móðir náttúra hafði náð að hrista svo upp í samfélagi okkar mannanna að það blasti við manni eins og enginn vissi sitt rjúkandi ráð.

Þegar virknin minnkaði og viðbragðsaðilar og jarðvísindamenn fóru til Grindavíkur voru ummerki umbrotanna ljós. Sigdalur myndaðist í gegnum Grindavík og sprungur voru allvíða. Hélt landið áfram að síga og sprungur að gliðna. Vikurnar eftir 10. nóvember héldu menn áfram að uppgötva ný merki, nýjar holur og sprungur.

Tveimur vikum eftir atburðarásina varð blaðamaður svo heppinn að fá það verkefni að fara til Grindavíkur og ræða við íbúa sem þá, í fyrsta sinn, fengu að fara inn í bæinn sinn án þess að vera í fylgd með viðbragðsaðilum. Þeir sem blaðamaður ræddi við gátu vart lýst því með orðum hversu erfitt var að sjá bæinn sinn svo illa farinn. Það var þó hugur í þeim og ætluðu þeir að snúa aftur um leið og hættan væri liðin hjá.

Næstu vikurnar slaknaði spennustigið, skjálftar mældust yfir kvikuganginum, en þó ekki stórir. Andrúmsloftið róaðist, atvinnustarfsemi hélt áfram í Grindavík og verið var að ræða hvort kannski værum við farin að sjá fyrir endann á þessum hörmungum.

Þá, svo til án fyrirvara, fór að gjósa norður af Grindavík. Eldgosið hófst með svo miklum látum samanborið við fyrri þrjú gos á Reykjanesskaga að blaðamenn þurftu varla að hringja í Veðurstofuna til að staðfesta að eldgos væri hafið. Það gat ekki farið fram hjá neinum sem sá út á skagann.

Fyrirvari eldgossins var um 90 mínútur, þá tók skjálftavirknin sig upp og varð mikil. Sprunga opnaðist og var hún miklu stærri en í fyrri gosum á Reykjanesskaga. Þau munu lengi lifa mér í minni orðin sem vísindamaður Veðurstofunnar sagði við mig um sprunguna: „Hún er á fleygiferð,“ því mér finnst það varla enn geta passað að jörðin undir fótum okkar sé á fleygiferð. En sprungan var það sannarlega og var þá um 2-3 km frá Grindavík. Enginn vissi þá hvenær hún myndi hætta að stækka og var viðbragðið eftir því.

Fyrstu klukkustundir gossins var það kraftmest og síðan dró úr því. Þegar blaðamaður flaug með þyrlu yfir gosstöðvarnar, um 14 klukkustundum eftir að eldgos hófst, var virknin sýnilega mun minni. Hraunbreiðan sem myndaðist á þessum fyrstu klukkustundum var þó umfangsmikil og bar jörðin sannarlega merki um átökin. Lauk eldgosinu tæpum þremur sólarhringum eftir að það hófst.

Nú heldur land áfram að rísa á Reykjanesskaga og vel gæti styst í annað eldgos.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir er blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu.