Fólk á götum úti í flóttamannabúðum í borginni Ramallah á Vesturbakkanum. Þar er miðstöð stjórnsýslu palestínskra yfirvalda.
Fólk á götum úti í flóttamannabúðum í borginni Ramallah á Vesturbakkanum. Þar er miðstöð stjórnsýslu palestínskra yfirvalda. — William Keo fyrir The New York Times
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ég hitti þá fyrst höfðu Saleh og Mahmoud mörg háleit markmið um ferðalög og störf, þeir virtust bjartsýnir. Nú eru þeir bitrir og fljótir til að trúa hinu versta upp á Ísrael.

Nicholas Kristof

er dálkahöfundur hjá New York Times.

Betlehem, Vesturbakkanum | Þegar ég var laganemi á bakpokaferðalagi um Mið-Austurlönd árið 1982 hitti ég tvo palestínska háskólanema í strætisvagni á Vesturbakkanum. Við tókum tal saman og þeir buðu mér heim til sín þannig að ég fór úr vagninum og eyddi deginum með þeim í glundroðakenndum húsasundum hinna þéttbýlu Dheisheh-flóttamannabúða.

Okkur kom vel saman því að þeir sögðu mér frá námi sínu í arabafræðum við Betlehem-háskóla og ég var þá að bræða með mér að læra arabísku í Kaíró. Við vorum allir spenntir fyrir að ganga menntaveginn og fullir af æsku og draumum. Ég skrifaði nöfn þeirra í heimilisfangabókina mína, en við höfðum aldrei samband aftur – þar til nú.

Eftir 41 ár gróf ég upp gömlu heimilisfangabókina og fann nöfnin þeirra. Ég velti fyrir mér hvort þeir væru enn á lífi. Hvort þeir hefðu flust á brott. Hvað þeir hugsuðu um Ísrael, Hamas og Bandaríkin á þessu grimma augnabliki.

Með hjálp blaðamanns á staðnum, sem spurðist fyrir í Dheisheh-búðunum, tókst mér að hafa uppi á þeim. Saleh Molhem er nú 63 ára og farin að grána og Mahmoud Qaraqei er nú sextugur. Ein ástæðan fyrir því að hægt var að hafa uppi á þeim var að palestínskir flóttamenn eiga ekki auðvelt um vik að hreyfa sig. Báðir bjuggu enn í sömu flóttabúðunum. Þeir mundu eftir mér og buðu mér að koma aftur í heimsókn.

Það var dásamlegt að sjá þá aftur, en endurfundir okkar voru líka gluggi inn í hugarvíl Palestínumanna. Heimurinn hefur tekið þvílíkum breytingum á fjórum áratugum, en á meðan ég hef verið að ferðast um heiminn og átt fullnægjandi feril eru þeir enn án ríkisfangs, fastir í flóttamannabúðum og lifa í ótta við ísraelska landtökumenn og hermenn. Sem verra er þá er frelsi þeirra mun minna í dag en þegar ég hitti þá árið 1982.

Í þá daga gátu þeir auðveldlega farið um Ísrael og fundið þar vinnu. Um helgar gátu þeir farið á strendur Ísraels og slakað á. „Ég var vanur að keyra til Tel Aviv í dagsferðir,“ sagði Mahmoud.

Nú búa þeir við kæfandi kerfi eftirlitsstöðva og skilríkja, sem gerir jafnvel erfitt að komast leiðar sinnar á Vesturbakkanum og hryðjuverkaárás Hamas 7. október hefur gert allt verra. Ég komst ekki einu sinni að heimilum þeirra vegna vegalokana ísraelskra stjórnvalda. Við enduðum á að hittast á veitingastað í Betlehem, en til að komast þangað varð ég að skilja ísraelskan bíl minn eftir við vegatálma, klifra yfir hindrun, sem Ísraelar höfðu reist, og taka síðan palestínskan leigubíl.

„Ég get ekki farið neitt,“ sagði Mahmoud mér. „Ég vil fara til læknis í Hebron,“ sem er einnig á Vesturbakkanum, en hann sagði að það væri ekki hægt núna vegna vegatálma.

Ísraelar segja að það sé Palestínumönnum sjálfum að kenna njóti þeir nú minna frelsis en áður. Þeir benda á að alda sjálfsmorðssprengjutilræða Palestínumanna hafi leitt til þess að settir voru upp tálmar og eftirlitsstöðvar hér og á Gasasvæðinu.

Þegar ég hitti þá fyrst höfðu Saleh og Mahmoud mörg háleit markmið um ferðalög og störf, þeir virtust bjartsýnir. Nú eru þeir bitrir og fljótir til að trúa hinu versta upp á Ísrael.

„Eini góði Palestínumaðurinn er dauður Palestínumaður,“ sagði Saleh þegar hann lýsti því hvernig hann sæi viðhorf Ísraela.

Báðir höfðu vonast til að komast í framhaldsnám erlendis – Saleh vildi fara í doktorsnám í arabískum fræðum í Egyptalandi og Mahmoud gerði sér vonir um að komast í meistaranám í spænsku á Spáni – en þeir segja að aðgerðir Ísraela hafi gert þær vonir að engu og tækifærin hafi gengið þeim úr greipum.

Þeir urðu báðir framhaldsskólakennarar á Vesturbakkanum, en ísraelsk yfirvöld ráku þá úr starfi fyrir mörgum árum, sögðu þeir. Mahmoud sagði að sér hefði verið sagt upp af ísraelskum embættismönnum eftir að hann var settur í 18 daga fangelsi fyrir að virða ekki útgöngubann fyrir mörgum árum. Saleh sagðist aldrei hafa verið handtekinn, en ísraelsk stjórnvöld hefðu rekið hann vegna þess að honum tókst ekki að koma í veg fyrir að nemendur hentu grjóti í ísraelska hermenn. Síðar fundu þeir vinnu við að kenna í skólum, sem Sameinuðu þjóðirnar reka fyrir palestínska flóttamenn, en báðir eru nú sestir í helgan stein.

Ég get ekki staðfest frásögn þeirra og ísraelska útgáfan kann að vera önnur. Í Mið-Austurlöndum er allt fullt af frásögnum sem stangast á, en þær eru raunverulegar fyrir þeim, sem hafa upplifað þær. Ísraelska útgáfan snýst um ógnina af Palestínumönnum.

Gasasvæðið yfirgnæfir fréttirnar þessa dagana, en 200 Palestínumenn hafa verið felldir á Vesturbakkanum frá árás Hamas 7. október, þar af 52 börn, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Palestínumenn hafa fellt einn ísraelskan hermann. Rúmlega 900 Palestínumenn hafa verið neyddir til að yfirgefa heimili sín á þessum tíma.

Þetta eru langvarandi vandamál, en þau hafa versnað á undanförnum árum og sérstaklega síðustu vikum.

„Landtökumenn hafa nýtt þetta stríð til að bola burt hirðingjasamfélögum með valdi,“ sagði Arik Ascherman, rabbíni og mannréttindafrömuður í Ísrael. Sameinuðu þjóðirnar greindu nýlega frá því að frá 7. október hefðu að meðaltali verið gerðar sjö árásir landtökumanna á Palestínumenn á Vesturbakkanum á dag, oft með byssum og iðulega með stuðningi ísraelskra öryggissveita.

Þegar ég hef talað við landtökumenn fyrr á tíð hafa þeir haldið fram að þeir væru bara að verja sig fyrir Palestínumönnum og hvað sem því liði hefði Guð gefið þeim allt þetta svæði. „Þetta er afsalið fyrir landinu okkar,“ sagði sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum við aðra þjóðarerindreka þar árið 2019, hélt á loft Biblíu og átti við Vesturbakkann til viðbótar við Ísrael.

Það var gott að sjá Biden forseta fordæma „öfgafulla landtökumenn sem ráðast á Palestínumenn á Vesturbakkanum“. Hann sagði að landtökumenn þyrfti „að draga til ábyrgðar“ og bætti við: „Þessu þarf að ljúka núna.“

Jessica Montell rekur mannréttindasamtök sem heita HaMoked. Hún segir að það hafi einnig verið mikið um handtökur á Vesturbakkanum undanfarnar vikur.

Ein ástæðan fyrir því að Palestínumönnum finnst sér vera ógnað er að Itamar Ben-Gvir er ráðherra öryggismála. Hann kemur af hægri jaðri stjórnmálanna og var eitt sinn dæmdur af ísraelskum dómstól fyrir að styðja ísraelsk hryðjuverkasamtök. Styttra er síðan hann hengdi upp á heimili sínu mynd af öfgamanni, sem myrti 29 Palestínumenn.

„Það eru ekki ýkjur að segja að ísraelskt ígildi KKK sitji í þessari ríkisstjórn,“ sagði Montell.

Ef til vill var það af þessari ástæðu, sem Saleh og Mahmoud voru á nálum yfir að hitta mig og gættu orða sinna – þveröfugt við hvað þeir töluðu frjálslega þegar ég hitti þá fyrst. Þeir vildu heldur ekki láta mynda sig þannig að andlit þeirra sæjust.

Ég spurði hvort kúgun Ísraela væri ástæðan fyrir því hvað mætti sjá miklu fleiri fána frá Hamas á Vesturbakkanum en áður. Um það vildu þeir alls ekki tala.

Þegar talið beindist að pólitík gerðum við hver annan ergilegan. Þeir voru vissir um að sprengingin við Al-Ahli-arabasjúkrahúsið á Gasasvæðinu hefði verið vísvitandi árás Ísraels. Byggt á mínum eigin eftirgrennslunum hallast ég að því að trúa því mati bandarískra leyniþjónusta að Ísraelar hafi ekki gert árásina.

Enn meiri spenna færðist í samtalið þegar kom að árás Hamas 7. október. „Fólk var glatt um allan arabaheiminn, ekki út af morðunum og blóðsúthellingunum, heldur vegna þess að í fyrsta skipti náðu Gasabúar þeim draumi sínum að komast frá Gasa,“ sagði Saleh.

Ég ýtti á móti og benti á hvað grimmilegt hryðjuverk Hamas hefði verið og þann fjölda ísraelskra borgara, sem hefðu verið myrtir eða rænt. Saleh og Mahmoud sögðu að þeir syrgðu Ísraelana, sem hefðu dáið, en veltu fyrir sér hvers vegna heiminum blöskraði ekki jafn mikið að miklu fleiri Palestínumenn hefðu verið drepnir þegar allt væri lagt saman. Áhersla mín á villimennsku Hamas olli þeim vonbrigðum og ég varð fyrir vonbrigðum yfir því hvað þeir voru tregir til að fordæma þessar árásir tvímælalaust.

Mahmoud sló á gremjuna, sem kraumaði í okkur öllum. „Við hötum engan,“ sagði hann. „Gyðinga, kristna, búddatrúarmenn, við hötum engan, við erum bara að leita eftir frelsi til að lifa lífi okkar.“

Þeir virtust vera að reyna að opna augu mín. „Við erum ekki að efna til vandræða,“ sagði Saleh. „Við viljum bara lifa í frelsi eins og allir aðrir í heiminum.“

Ég spurði hvort hætta væri á að allt syði upp úr á Vesturbakkanum af reiði yfir drápunum á Gasasvæðinu. Þessi spurning olli þeim áhyggjum. „Fólk er að kafna og út af því fer það út á götur og gefur tilfinningum sínum lausan tauminn,“ sagði Saleh og benti á gosdrykk fyrir framan sig. „Málið er,“ sagði hann, „að ef þú hristir hann mun hann springa.“

Eftir hádegismatinn kvöddumst við. Ég grínaðist með að hittast aftur eftir 41 ár til viðbótar. Þeir sögðu að þeir væru ekki einu sinni vissir um að lifa nokkrar klukkustundir í viðbót. Þögnin, sem fylgdi, var þung.

Við skildum, enginn okkar jafn sprækur og við vorum þegar við hittumst fyrst. Þeir voru nokkuð venjulegir palestínskir karlar, sem að mestu leyti höfðu látið lítið fyrir sér fara; þeir höfðu forðast pólitík og ekki misst fjölskyldumeðlimi í átökunum. En þeir höfðu glatað frelsi sínu og reisn. Ótalinn fjöldi manna er alveg eins og þeir, komast aldrei í fyrirsagnir frétta, en innra með þeim kraumar allt.

Ég mundi eftir tveimur ungum mönnum, sem voru fullir af fyrirheitum og hlýju, knúnir af von og bjuggu í heimi þar sem Ísraelar og Palestínumenn umgengust hver annan og óttuðust hver annan ekki svo mjög. Það er átakanlegt að sjá svona breytingu. Þegar Saleh og Mahmoud urðu feður og afar glötuðu þeir framtíðinni, lífskraftinum, voninni.

Og það er held ég kjarni Palestínuvandans.

Á vegum The New York Times Licensing Group

Höf.: Nicholas Kristof er dálkahöfundur hjá New York Times.