Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
„Þetta tekur langan tíma sem sýnir hve verkefnið er stórt og miklu flóknara en menn vilja viðurkenna. Það tefur verkefnið að verið er að hugsa of stórt, við þurfum að fara í lausnir sem eru ekki jafn stórar en koma fyrr til framkvæmda

„Þetta tekur langan tíma sem sýnir hve verkefnið er stórt og miklu flóknara en menn vilja viðurkenna. Það tefur verkefnið að verið er að hugsa of stórt, við þurfum að fara í lausnir sem eru ekki jafn stórar en koma fyrr til framkvæmda. Það er bráðavandi í umferðinni,“ segir Vlhjálmur Árnason alþingismaður og 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, en hann er gagnrýninn á þær miklu tafir sem orðið hafa á endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Hann bendir á að fyrst hafi verið talað um að endurskoðun sáttmálans lyki í júní sl., síðan í nóvember og loks í desember, en ekkert hefur spurst til niðurstöðunnar. Nú hafi verið gefið út að endurskoðuninni lyki ekki í desember og engin ný tímamörk nefnd. Þetta sé mjög bagalegt, ekki síst í ljósi þess að unnið sé að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd og slæmt sé þegar jafn stórt verkefni og samgöngusáttmálann vanti inn í þá mynd.

Vilhjálmur segir að tafirnar hafi einnig neikvæð áhrif á deiliskipulagsmál sveitarfélaga, sem séu í eðli sínu tímafrek.

„Það gefur augaleið að við getum ekki lokið við samgönguáætlun fyrr en við erum búin að sjá niðurstöðu endurskoðunarinnar og þingið búið að fjalla um hana.

„Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að Alþingi fái að fjalla um endurgerðan samgöngusáttmála,“ segir Vilhjálmur og segir gagnrýnisvert hve þingið hafi verið illa upplýst um framvindu endurskoðunarinnar sem og framkvæmd sáttmálans sjálfs.

Vilhjálmur segir að í samgöngusáttmálanum sé kveðið á um að upplýsa eigi Alþingi um stöðu mála sem og öll frávik, en á það hafi skort. „Við alþingismenn höfum ekki fengið að fylgjast með endurskoðuninni og vitum ekki hvar málið er statt og hvað þar er til umræðu,“ segir Vilhjálmur.