Jólatré Auður Bárðardóttir og Eyþór Lárentínusson við jólatréð sem brátt verður 50 ára.
Jólatré Auður Bárðardóttir og Eyþór Lárentínusson við jólatréð sem brátt verður 50 ára. — Morgunblaðið/Gunnlaugur A. Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á mínum uppvaxtarárum í Hólminum fyrir meira 60 árum var talið að ekki væri hægt að rækta trjágróður. Á þessum árum voru ríkjandi norðaustanáttir með köldum vindi og tilheyrandi sjávarseltu. Til voru þeir íbúar sem vildu reyna og með tíð og tíma fór árangur að líta dagsins ljós

Úr bæjarlífinu

Gunnlaugur Auðunn Árnason

Stykkishólmi

Á mínum uppvaxtarárum í Hólminum fyrir meira 60 árum var talið að ekki væri hægt að rækta trjágróður. Á þessum árum voru ríkjandi norðaustanáttir með köldum vindi og tilheyrandi sjávarseltu. Til voru þeir íbúar sem vildu reyna og með tíð og tíma fór árangur að líta dagsins ljós. Auður Bárðardóttir og Eyþór Lárentínusson byggðu sér hús við Lágholt árið 1967. Krakkar þeirra unnu í skógræktinni á sumrin uppi í Helgafellssveit og komu heim með litlar greniplöntur og gróðursettu.

Að nokkrum árum liðnum hafði grenitréð fyrir framan húsið stækkað það mikið að börnin vildu skreyta það með ljósum. Skapaðist sú hefð að kveikja á ljósunum á fyrsta sunnudag í aðventu og þegar ljósin voru farin að skína var komið saman og borið fram kakó og kökur. Jólatréð heldur áfram að stækka og dafna og krakkarnir farnir að heiman. Nú dugar stigi ekki lengur til að koma seríunni fyrir heldur þarf að kalla á kranabíl til hjálpar. Jólatréð er nú orðið meira en 10 metra hátt og setur fallegan jólasvip á götuna.

Í Stykkishólmi er elsta veðurstöð landsins. Til eru samfelldar veðurmælingar frá árinu 1845 eða nákvæm veðursaga í tæp 180 ár. Að sögn Trausta Jónssonar, sem hefur fylgst með veðurfari í áratugi, hefur hiti í Hólminum 2023 verið mjög nærri meðaltali áranna 1991-2020. Vorið var leiðinlegt en júlí og ágúst sólríkir. Bæði nú og í fyrra voru haustmánuðirnir sérlega góðir, mildir og þurrir. Veturinn lét sjá sig í byrjun desember og nú vakir hann yfir okkur.

Þörungavinnslan Isea ehf. var stofnuð í Hólminum fyrr á þessu ári. Ýmsar hindranir hafa tafið að koma rekstrinum af stað. Ein af forsendum rekstursins var fá heitt vatn frá Veitum ohf. til til að þurrka hráefnin. En þegar prufukeyrsla fór fram í haust skilaði sér tæplega helmingur orkunnar sem gengið var út frá. Veitur ohf. hafa síðan leitað skýringa og telja sig hafa fundið út hvað veldur. Vonast er til að áætluð orka verði komin í hús í byrjun febrúar og þá geti starfsemin hafist á eðlilegan hátt.

Íbúar sveitarfélagsins voru í byrjun desember á þessu ári 1.320, en fyrir ári síðan voru þeir 1.308. Það er fjölgun um 1%.

Formleg móttaka ferjunnar Baldurs var haldin í Stykkishólmi föstudaginn 17. nóvember síðastliðinn. Þá gafst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til þiggja kaffi og kökur um borð í skipinu og skoða farþegarými skipsins. Margt var um manninn í Baldri af þessu tilefni og ekki annað að heyra á gestum en að mikil ánægja væri með nýja bátinn. Stærsti kostur nýju ferjunnar er að hún er með tvö aðskilin framdrifskerfi, þ.e. hún er útbúin tveimur aðalvélum og tveimur skrúfum sem stóreykur öryggi farþega. Einnig er hún með öfluga veltiugga sem gera siglinguna þægilegri og farþegarými er allt á sama dekki. Þá er hún 12 árum yngri en fyrrverandi ferja og aðstaða fyrir farþega er mun þægilegri. Nýi Baldur tekur 250 farþega og rúmar fimm stóra flutningabíla.

Fyrirhugað er að byggja frístundahús, íbúðahús og Hótel á Vigraholti í Helgafellssveit. Skipulagslýsing vegna þessa hefur verið kynnt. Gert ráð fyrir að þar muni rísa allt að 33 frístundahús, allt að tíu íbúðarhús og hótel með baðlóni, veitingahúsi og handverksbrugghúsi. Hótelherbergin verða frístandandi smáhýsi á þjónustusvæði hótelsins. Í tillagögunni er einnig gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja gestahús á lóðum frístundahúsa og íbúðarhúsa.

Víkurhverfi er nýtt byggingaland til næstu ára í Hólminum. Þar verður m.a. uppbygging félagslegs húsnæðis. Stykkishólmur sótti, fyrir hönd Brákar íbúðafélags, um stofnframlag til ríkisins og fékk samþykkt að veitt yrði 18% stofnframlag og sérstakt byggðaframlag vegna byggingar á 12 íbúðum í Stykkishólmi með það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Áætlaður heildarkostnaður verkefnis eru rúmar 545 milljónir en hlutur sveitarfélagsins er 12% af því, sem eru rúmar 65 milljónir. Íbúðirnar verða í eigu Brákar íbúðafélags sem einnig sér um útleigu þeirra.

Á þessu ári var handriði komið upp við gangstíg austanmegin á Súgandisey. Er þar um að ræða hluta af vinningstillögu úr samkeppni um útsýnisstað í Súgandisey sem haldin var árið 2020. Vinningstillagan ber heitið Fjöregg og vakti talsverða athygli á sínum tíma. Fjöreggið er hugsað sem glettinn, gamansamur og óvæntur áningarstaður til að njóta Súgandiseyjar og útsýnis yfir Breiðafjörð og eyjarnar. Fjöreggið verður staðsett á klettsnös austan á eyjunni og tryggir öryggi þeirra sem fara um eyjuna um leið og það eykur náttúruupplifun á svæðinu. Vonir standa til þess að egginu verði orpið í Súgandisey í kringum varptímann á næsta ári.

Höfðaborg öldrunarmiðstöð tók til starfa í september. Húsnæðið er þar sem dvalarheimilið starfaði í áratugi. Forstöðumaður Höfðaborgar var ráðinn Rannveig Ernudóttir. Eldhúsið var endurbætt og þjónar nú eldri borgurum í Hólminum sem þess óska og nemendum grunnskólans. Starfsemin hefur verið að mótast síðustu mánuði. Á nýju ári mun starfsfólk setja kraft í að skipuleggja félagsstarf og heilsueflingu í húsinu, ásamt ýmis konar handavinnu.

Hugmyndafræði Höfðaborgar, er öldrunarmiðstöð með áherslu fyrst og fremst á þjónustu við aldraða. Horft er til Edenfræðanna og lögð er áherslu á kynslóðablöndun í starfinu.

Gleðilegt nýtt ár!

Höf.: Gunnlaugur Auðunn Árnason